02.09.1942
Sameinað þing: 12. fundur, 60. löggjafarþing.
Sjá dálk 146 í D-deild Alþingistíðinda. (1190)

18. mál, undanþága frá greiðslu á benzínskatti

Sveinbjörn Högnason:

Ég vil spyrja hæstv. forseta, hvort það sé 3. eða 1. mál dagskrárinnar, sem nú er til umr., því að mér heyrðist vera talað um hvort tveggja. En hins vegar átti þessi ræða hv. síðasta ræðumanns að vera meðmæli með till. hans, en um leið andmæli gegn þeirri till., sem ég flyt á þskj. 32. Hv. 10. landsk. þm. sagði, að í till. okkar á þskj. 32 væru of þröng takmörk dregin um það, hvar þessi flutningaskil eigi að vera. En ég vil benda hv. þm. á það, að í till. hans á þskj. 18 eru þessi takmörk enn lengri, því að þar er þetta bundið við ákveðin sýslutakmörk. Þessu mun hv. 1. flm. ekki hafa gert sér grein fyrir, og þar af leiðandi hefur hann svo strax fellt dóm yfir sinni eigin till.