14.08.1942
Neðri deild: 7. fundur, 60. löggjafarþing.
Sjá dálk 110 í B-deild Alþingistíðinda. (242)

1. mál, stjórnarskipunarlög

Frsm. minni hl. (Sveinbjörn Högnason) :

Ég veit eiginlega ekki, hvaða orð ég á að hafa yfir þann málaflutning, er síðasti ræðumaður hafði í ræðu sinni. Hvaðan kemur hann? Hvað er hann að fara? Hann leyfir sér hér að brigzla einum stjórnmálaflokki um landráðastarfsemi. — Það gæti að vísu verið landráðastarfsemi gegn Rússum, sem þessi hv. þm. hefur í huga. Vitanlegt er það, að þessir menn eiga ekki nema eitt föðurland, og það er Rússland. Og allur þeirra hugsanagangur og öll aðstaða í öllum málum snýst alltaf eftir því, hvar hagur Rússlands er. Hver vogar að neita þessu? Þetta þekkir hvert mannsbarn á Íslandi, og það er hægt að sýna, hvernig þeir hafa hringsnúizt æ ofan í æ, og svo koma þessir menn og segja við þá, sem eitthvað líta á, hvað er að gerast í kring um okkur, og segja: Þetta eru bara landráðamenn. Það er um að gera að hafa upplausnina sem mesta. Þeir hafa meira að segja hrósað sér af því að hafa stutt ríkisstj. ekki vegna þessa máls, heldur af allt öðru. Mér er sagt það um þennan hv. þm. að hann hafi sagt: Við studdum ríkisstj. til þess að fá nógu veika stj. í landinu, hin var of sterk. Til þess að geta haldið áfram þessari starfsemi, einmitt að grafa undan þjóðskipulaginu, er vitanlega ekkert öruggara ráð til. En að slíkir menn skuli leyfa sér að koma inn í þingsalina um leið og þeir halda þessari starfsemi áfram, og kalla þá landráðamenn, sem hugsa öðruvísi, það get ég ekki skilið. Og ég skil ekki, hvernig nokkur. maður getur yfirleitt sýnt sig eftir að hafa látið sér önnur eins orð um munn fara. Og að hafa slíkt orðbragð í þessum vandamálum, sem að þjóðinni steðja nú, það sýnir hversu steinblindir þessir menn eru fyrir því, hvers þjóðin þarfnast mest.

Hv. 4. landsk. var að tala um það, að við værum að hóta því að leita aðstoðar erlends valds og þess háttar. Hverju höfum við hótað? Ef ekki tekst að halda uppi stjórnarfari í landinu, ef skipin stöðvast og við verðum ráðalausir með okkar atvinnuvegi og verzlun, þá vitanlega getum við ekki bjargazt án hjálpar. Hvaða barn sem er skilur þetta. En náttúrlega er eðlilegt, ef mönnum er sýnt fram á, hvað er að gerast í okkar landi, að menn finni, að allt umhverfið hótar okkur, ef við vinnum ekki eins og menn.

Ég tel ekki ástæðu til að fara út í einstakar bollaleggingar þessa hv. þm. Hann er mjög lítið kunnugur starfsaðferðum flokka, nema því, sem viðgengst í rússneskum byltingaflokkum. Í þeim skóla er hann upp alinn, og annað skilur hann ekki, og ber að virða honum til vorkunnar. En það er náttúrlega velgerningur að reyna að kenna honum eitthvað, ef hann á hér einhverja setu, um að það er hægara að vinna landi sínu eitthvert gagn með öðru móti en því að rígskorða sig við einhverjar útlendar fyrirmyndir og útlendar ofsakenningar, sem ekki hafa staðizt stundinni lengur í sínu eigin föðurlandi, hvað þá heldur þegar þær eiga að festa rætur á erlendum vettvangi.

Hv. 4. landsk. var víst að tala um, hvernig komið væri nú í atvinnumálum og fjármálum vegna þess, að þessi dæmalausi gerðardómur var settur og kaupgjald bundið, en hins ekki gælt að hefta stríðsgróðann. Það var ekki lítið bætt úr, þegar flokksmenn hans og þm. jafnaðarmanna komu til! Hvað gerir sú ríkisstj., sem nú situr? Hún afnam allar hömlur um stríðsgróðann, hvort sem hann var geymdur erlendis eða hér, — allt skyldi féð laust í umferð, allt skyldi flæða yfir landið, það sem búið var að binda erlendis, tugir og hundruð milljóna króna. Þessu mátti öllu demba yfir, um leið og öll höft voru afnumin, bæði gerðardómurinn og annað. Ekki furða, þótt hv. þm. tali um, að öðrum sé að kenna, að ekki var gert meira! Og hvað unnu þessir flokkar mikið með að skattalögunum, sem Framsfl. kom fram á síðasta þingi? Í hverju studdu þeir það mál? Ég þekki ekki annað en að þeir reyndu að þvælast fyrir og tefja málið.

Ég vildi óska þess, ef þessi hv. þm. á eftir að eiga hér setu, að honum lærist að haga orðum sínum eitthvað nær veruleikanum en hann hefur nú gert.

Þá vil ég víkja örfáum orðum að hv. frsm. meiri hl., sem sagði fylgismönnum þessa frv. hafa verið sýnd vansæmd með því að skrifa þeim slíkt bréf sem Framsfl. hefði gert Ég get skilið, að þessi 1. flm. frv. álíti sæmd sína í veði um, að frv. nái fram að ganga, hvort sem það nú er til góðs eða ills fyrir þjóðina. En ég vil segja hv. þm. það, að Alþ. ber skylda til að hugsa meira um sæmd og gagn þjóðarinnar heldur en um sæmd Ásgeirs Ásgeirssonar, hv. þm. V. Ísf. Og ef þessi hv. þm. og flm. og fylgjendur þessa frv., sem ætla að knýja það fram, halda, að sæmd þeirra og heiður þeirra í málinu sé það, sem mestu máli skiptir, þá fara þeir algerlega villir vegar, — eru þá meira að segja komnir út á þá hálu braut, að vafasamt er, þó að þeir bjargist á sína vísu í sambandi við þetta mál með því að halda áfram út í kosningar og upplausn, hvort þeirra sæmd er og verður nokkru sinni borgið í nútíð eða framtíð.

Það, sem komið hefur fram í svörum hv. andstæðinga um það ófrávíkjanlega skilyrði Framsfl. fyrir því, að samstarf geti orðið um þau úrlausnarefni, sem mest kalla að, að þetta mál verði lagt á hilluna, — að við gerum þetta af flokkslegum ástæðum, er algerlega rangt og út í bláinn. Ég er persónulega þeirrar skoðunar, að eins og nú er komið, séu það flokkslega séð mestir hagsmunir fyrir Framsfl., að mál þetta verði afgr. nú. Það er þegar séð af þeim kosningum, sem fram hafa farið, ekki sízt í tvímenningskjördæmunum, að mestar líkur eru fyrir því, að afleiðingin af breyt. verður raunverulega engin breyt. milli flokka. Það er alveg víst — og það gerum við framsóknarmenn okkur ljóst —, að fylgismenn þessa máls, sem stefna fyrst og fremst að því og eru alráðnir í að rífa niður fylgi Framsfl., þeim mun aldrei detta í hug að byrja á þessu á nýjan leik á sama grundvelli. Það skilur hvert mannsbarn, sem séð hefur úrslit þessara síðustu kosninga. Þess vegna er alveg augljóst mál, að fyrir Framsfl. eru það hreinir og beinir flokkslegir hagsmunir, að málið sé afgr. eins og nú er stofnað til. Framsfl. mun tapa sáralitlu af þeim styrkleika, sem hann hafði áður, þegar gert verður upp eftir kosningarnar í haust, — það er fyrirsjáanlegt. En það eru aðrir flokkar, sem hafa tapað, og þeir mundu á engu meira græða flokkslega heldur en að hætt verði við málið og tekin upp vinnubrögð, sem hver einasti hugsandi maður með þjóðinni vonast eftir og krefst, að verði tekin upp. Og það er fullkomlega rangt hjá hv. þm. V.-Ísf., að það sé hægt að afgr. þetta mál og taka upp úrlausnarefnin, sem fyrir liggja og krefjast aðgerða, og vinna að þeim. Og það veit hv. þm., að þetta er alveg vísvitandi rangt hjá honum, því að svo lengi er hann búinn að starfa í íslenzkum stjórnmálum (hvort það er nú til happs eða óhapps, skal ég ekki um dæma), að hann veit það, að þegar fram undan eru á næsta leiti kosningar, er Alþ. í raun og veru næstu mánuðina á undan óstarfhæft til að taka úrlausnarefni, sem geta komið misjafnlega niður á einstaklingum. En það er eins og hver maður veit, að engar slíkar gagngerðar ráðstafanir geta komið að haldi, nema þær komi einhvers staðar illa við. Það munu allir kannast við, sem unnið hafa í sambandi við kosningar, hversu erfitt er að taka ákvarðanir slíkra erfiðra úrlausnarefna rétt fyrir kosningar, og þannig mun þetta vera hjá öllum lýðræðisþjóðum. Þá er ekki hægt að sameina kraftana. Enda er líka vitað að öðru leyti, að þótt þetta sé samþ. hér á Alþ., þá er e. t. v. ekki endanlega búið að útkljá, hverjar afleiðingarnar verða. Það er búið að stofna til styrjaldar, en síðasta þætti hennar er ekki lokið fyrr en næstu kosningar hafa farið fram. Því að það að tala um „friðarkosningar“ eftir gerbreyttu því skipulagi, sem kosningarnar fara fram eftir, er vitanlega hrein fjarstæða. Það er óhugsandi að hafa það í gegn með friði og spekt að þvinga í gegn svo róttæka röskun. Ef á að halda áfram til enda, þá getur styrjöldinni ekki orðið lokið fyrr en þetta er komið í kring. Og það, sem úrslitum veldur, liggur ekki hjá okkur í Alþ., heldur í höndum kjósenda þeirra kjördæma, sem hefur verið veitzt að með þessari breyt. Og það eru þau, sem gefa endanlegan úrskurð, hverjum veitist hinn flokkslegi sigur að lokum. Það gæti auðvitað orðið hreinn ósigur fyrir þjóðina, sem upp úr því öllu saman verður, sem ég er og sannfærður um, ef halda á áfram með þetta mál, eins og tímarnir eru nú.

Hér er því um tvær megin hugsanavillur að ræða hjá fylgjendum frv.: Að það sé Framsfl. einhverjir sérstakir flokkshagsmunir að láta málið niður falla. Og í öðru lagi, að það sé hægt að taka upp samstarf, áður en þetta mál er endanlega útkljáð. Þegar frestun á alþingiskosningum var síðast ákveðin, var það ekki eingöngu gert vegna ytra ástands, heldur líka hættunnar innan frá, að við megnuðum ekki að standa saman gegn hættunum utan frá, ef við lentum í illvígum deilum og flokkadráttum.

Hv. frsm. meiri hl. var að tala um margnefnd sérréttindi Framsfl. Þetta er nú svo löngu útskýrt mál, að það er frekar til gamans að viðhafa slík orðatiltæki nú orðið. Ég held þessi hv. þm. viti, að ekki er um sérréttindi að ræða fyrir nokkurn flokk, því að í stjskr. er öllum flokkum veittur sami réttur til að keppa um fylgi kjósenda. Það virðist vera farið að tala mikið um sérréttindi í þessu landi. Ætli það væri ekki nauðsynlegra á slíkum tímum, eins og ólgan er í okkar þjóðfélagi, að við reyndum að afnema sérréttindin í eignamálunum? (Rödd frá áheyrendum: Og svo eru það mjólkurmálin!) Já í mjólkurmálunum hefur verið reynt að gera þetta og orðið mikið ágengt. Ætli væri ekki rétt að afnema sérréttindin, eins og eitt félag hafði sérréttindi til að verzla með mjólk áður og græddi milljónir króna? Ætli það væri ekki rétt, eins og þessi góði áheyrandi minnti á með því að skjóta fram í, að feta sig áfram á þeirri braut að afnema sérréttindin? Ég fyrir mitt leyti er alveg sannfærður um, að ef tekin verða sérréttindin af stærstu stríðsgróðamönnunum, teknar mjög ríflega milljónirnar af þeim, af því að þeim ber engin sérréttindi í raun og veru, þá mundi það vega mikið til að jafna aðstöðuna í þjóðfélaginu og lægja ólguna og æsinguna sem nú er. En bankastjórar hafa ekki sýnt mikla viðleitni í því efni. En það er alveg víst, að sú misjafna aðstaða milli einstaklinga um eignir og afkomu gerir miklu meiri glundroða og óánægju heldur en hvernig kosningarétturinn er, ef allir standa jafnt að vígi í landinu að sækja þær kosningar. En allar bollaleggingarnar í þessu efni eru í sjálfu sér ekki til mikils, þegar talað er fyrir lokuðum eyrum. Því að það heyrir maður og sér af svörum flokka við málaleituninni um það að sameina átökin og á málsvörninni yfirleitt, að blindnin er nákvæmlega sú sama, og jafnvel meiri, en þegar byrjað var á þessu máli. Og það er mjög líklegt, að þessir menn og þessir flokkar verði ekki sjáandi fyrr en styrjöldin innan lands er leidd til lykta. En mér kæmi þá ekkert kynlega fyrir, þótt þeir sæju þá ekki alveg til fulls þann pólitíska og flokkslega gróða, sem þeir ætluðu vera á borðinu fyrir framan sig, og að þar væri heldur ekki hátíðamatur, eins og einn hæstv. ráðh. bjóst við, að væri verið að matreiða fyrir hann og flokk hans.

Ég mun nú hafa nægilega bent á þær blekkingar, sem hafðar eru í frammi um þetta mál, hversu menn reyna að loka bæði sínum eigin augum og augum þjóðarinnar fyrir þeim verkefnum, sem hún á við að glíma nú. Það er nákvæmlega sama upplausnin og ábyrgðarleysið, sem stjórnmálamenn þessara flokka reka hér innan veggja Alþ., eins og þeir eru að álasa öðrum í byggðum og bæjum landsins og segja, að þeir kunni ekki fótum sínum forráð.