02.09.1942
Efri deild: 21. fundur, 60. löggjafarþing.
Sjá dálk 267 í B-deild Alþingistíðinda. (380)

28. mál, kosningar til Alþingis

Gísli Jónsson:

Út af ummælum hv. 9. landsk. þm. (SÁÓ) um, að Sjálfstfl. hefði snúizt í þessu máli, vildi ég mega segja þetta: Ég var undrandi yfir því, að þessi hv. þm. skyldi halda þessu fram, vegna þess að hann fullyrti, að Sjálfstfl. mundi tapa á því að hafa kjördagana tvo, í sveitunum. Ég gat ekki betur skilið ræðu hv. þm. en svo, að hann áliti, að kjósendur Sjálfstfl. mundu sækja kjörfund fyrri kjördaginn, en hinir sitja frekar heima, af því að það væri örðugra fyrir þá menn að komast á kjörstað. Hefur ekki þessi hv. þm. lært meira í sambýlinu við Sjálfstfl. en þetta öll þessi ár, sem hann hefur alltaf sett flokkshagsmunina fyrst og réttlætið og þjóðarhagsmunina á eftir? Og ef hann hefur ekki gert það, er tími fyrir hann kominn til að læra það, að í þessu máli hugsa sjálfstæðismenn ekki eins og hann. Það er líka ákaflega einkennilegt hjá manni, sem alltaf þykist vilja berjast fyrir réttlætismálum, að hann skuli nú ekki vilja berjast fyrir því, að menn fái að njóta réttlætis í dreifbýli landsins. Ég álít, að ef einhver þm. væri kominn á þing fyrir það eitt, að kjósendum í kjördæmi, sem hann hefði boðið sig fram í, hefði verið fyrirmunað að sækja kjörfund fyrir flokkshagsmunastreitu annarra manna, ætti hann ekki að sitja á þingi, þó að hann fengi meiri hl. við kosningar.

Ég vil nú í sambandi við það, að það virðist nú öruggt, að það verði samþ. hér í hv. d., að heimild verði til að hafa tvo kjördaga í sveitum benda á, að það er nauðsynlegt, að burt falli orðin í 1. málslið 1. málsgr. ákvaðis til bráðabirgða „eða kauptúns“, og mun ég bera fram skriflega brtt. við það atriði. Skal ég í stuttu máli gera grein fyrir þessari brtt. T. d. í Suðurfjarðarhreppi er ein kjördeild, og í hreppnum er Bíldudalur, sem er kauptún. Allur hreppurinn mundi ekki vilja hafa neinn annan kjörstað en Bíldudal, vegna þess að það er hægast að sækja til Bíldudals. Ef ákvæði til bráðabirgða væri samþ. án þess að breyta því eftir minni brtt., þá væru þessir menn útilokaðir frá því að geta haft tvo kjördaga í haust. Ég held ekki þessari breyt. fram vegna þessa hrepps vegna hagsmuna míns flokks, nema síður sé. En það er réttlætismál að laga þetta. Sama er að segja um Flateyjarhrepp. Þar er fjöldi íbúa, sem við kosningarnar í vor s. l. t. d. ekki gátu byrjað að kjósa, þeir sem þurftu á sjó að fara til Flateyjar, fyrr en kl. 4 á kjördaginn. Mér skildist áðan hjá hv. 2. þm. N.-M. (PHerm), að líkt stæði á um Vopnafjörð og um Bíldudal, ef ekki verður skipt hreppnum þar í fleiri kjördeildir. Ég tel því sjálfsagt, að þessi orð, sem ég greindi, falli burt.

Ég álít, að aukinn kostnaður, sem því fylgir að hafa tvo kjördaga í sveitum, séu smámunir í samanburði við það réttlæti, sem í því felst, sem dreifbýlinu er sýnt með því að gera kjósendum þar auðveldara að neyta kosningarréttar síns.