09.09.1942
Neðri deild: 22. fundur, 60. löggjafarþing.
Sjá dálk 281 í B-deild Alþingistíðinda. (398)

80. mál, stjórnarskipunarlög

Pétur Ottesen:

Mér þykir rétt að gera nú við 1. umr. grein fyrir afstöðu minni til þessa máls. Alþingi það, er nú situr, var kvatt til funda í byrjun fyrra mánaðar, til að ganga frá breytingum á stjórnarskránni. Kosningar þær, sem fram fóru 5. júlí s. l., leiddu það í ljós, að breytingar þær á stjórnarskránni, sem gerðar voru á síðasta þingi, höfðu að baki sér meiri hluta kjósenda, og hefur þetta þing nú gengið að fullu frá þeirri stjórnarskrárbreytingu. Væsta sporið, sem stíga átti á þessu þingi í sömu átt, kemur fram í þeirri þáltill., sem samþ. var á síðasta þingi um skipun milliþingan. til að gera tillögur um breytingar á stjórnskipunarlögum ríkisins, sem hæstv. forsrh. las hér upp, þegar hann reifaði þetta mál.

Efni þeirrar till. var, eins og hæstv. forsrh. hefur lýst, að kosin yrði 5 manna milliþingan. til þess að gera tillögur um breyt. á stjórnskipunarl. ríkisins í samræmi við yfirlýstan vilja Alþingis um, að lýðveldi verði stofnað á Íslandi, og nefndin skili áliti nógu snemma til þess, að málið geti fengið afgreiðslu á þingi því, er nú situr.

Það voru ærin vonbrigði fyrir alþm., sem komu til þings í þeirri trú, að mál þetta væri undirbúið til afgreiðslu, eins og ákveðið hafði verið, þegar þeir voru, strax eftir að þing kom saman, boðaðir á fund í sameinuðu þingi, sem haldinn var fyrir luktum dyrum, þar sem þeim var tilkynnt, að komið væri fram nýtt viðhorf í þessu máli, sem hefði orðið þess valdandi, að málið hefði ekki verið lagt fram, eins og ráð hafði verið fyrir gert.

Forsrh. hefur nú rakið gang þessa máls og reifað þetta nýja frv., sem er mótað af hinu nýja viðhorfi. Eins og frv. þetta ber með sér, er afgreiðsla þessa máls, með þeim hætti, sem stofnað var til og verða átti, lögð á hilluna á þessu þingi. Hins vegar greiðir frv. götu þess, að flýtt verði fyrir afgreiðslu málsins síðar, þar sem samþykkt eins þings nægir til þess, að það öðlist gildi sem stjórnskipunarlög.

Í grg. frv. og ræðu forsrh. er algerlega gengið fram hjá því að gera grein fyrir því, hvað felist í hinu nýja viðhorfi, sem valdið hefur straumhvörfum um afgreiðslu málsins. Eins og það er skoðun mín, að hið nýja viðhorf sé engan veginn þess eðlis, að við eigum að hopa frá settu marki um ákveðna afgreiðslu þessa máls nú, þá lít ég svo á, að það sé óviðurkvæmilegt og ekki verjandi gagnvart þjóðinni að halda því leyndu, hvert hið nýja viðhorf er. Því fyrr, sem þetta er upplýst, því betra. Bæði af þessum sökum og til þess að rökstyðja afstöðu mína til afgreiðslu þessa frv., þá segi ég það hér hiklaust, að þessi straumhvörf í afgreiðslu málsins stafa af íhlutun erlends valds. Stjórn þess ríkis, sem tekið hefur að sér hervernd hér á landi, hefur farið fram á það, að endanlegri afgreiðslu málsins verði frestað nú.

Það er athyglisvert, að ýmislegt bendir til, að íhlutun hins erlenda valds geti verið að einhverju leyti fram komin fyrir danskan áróður, og meira að segja liggur nærri, eftir því, sem fyrir liggur, að álykta, að hafin hafi verið eftirgrennslan eða njósnir hér á landi um afstöðu Íslendinga til þessa máls og því, sem upp úr því krafsi hefur hafizt, komið á framfæri við stjórn Bandaríkjanna, bersýnilega í þeim tilgangi að gera tortryggilegan áður yfirlýstan einlægan vilja og álit Alþingis á málinu.

Það er skoðun mín, að við eigum að afgreiða þetta mál nú, þrátt fyrir það, sem fram hefur komið, eins og ráð var fyrir gert á síðasta þingi og gengið var út frá við síðustu kosningar. Undanhald í málinu getur ekki stafað af öðru en ótta við, að afgreiðsla þess geti haft hættulegar afleiðingar fyrir okkur, — að stjórn Randaríkjanna kunni að láta okkur gjalda þess.

Slíkar getsakir í garð Bandaríkjastjórnar geta að mínum dómi ekki haft við nein rök að styðjast. Þykir mér því rétt að athuga þessa hlið málsins nokkuð nánar.

Er þá fyrst þess að gæta, að Bandaríkin hafa tekið í sínar hendur forustuna í baráttunni fyrir rétti smáþjóðanna, einstaklingsfrelsi og lýðræði. Auk þess má benda á það sem ekki óverulegt atriði í þessu máli, að stjórn Bandaríkjanna gerði samning við ríkisstjórn Íslands á síðast liðnu ári.

Í þessum samningi lýsir Bandaríkjastjórn því yfir, að samningurinn sé gerður með fullri viðurkenningu á fullveldi og sjálfstæði Íslands, og til enn fyllri viðurkenningar á réttarstöðu Íslands gengur Bandaríkjastj. inn á, að bæði ríkin skiptist strax á diplómatískum sendimönnum. Enn fremur skuldbinda Bandaríkin sig til að beita öllum áhrifum sínum við þau ríki, er standa að friðarsamningunum að loknum núverandi ófriði, til þess að ófriðarsamningarnir viðurkenni algert frelsi og fullveldi Íslands. Þá lofa Bandaríkin að hlutast ekki til um stjórn Íslands, hvorki meðan herafli þeirra er í landinu né síðar, og að Bandaríkin skuldbinda sig til að styðja hagsmuni Íslands á allan hátt, sjá landinu fyrir nógum nauðsynjavörum og tryggja nauðsynlegar siglingar, og loks lýsir forseti Bandaríkjanna því yfir, að þau skilyrði, sem sett eru af hálfu forsrh. Íslands, séu fullkomlega aðgengileg fyrir ríkisstjórn Bandaríkjanna. Þessi atriði í samningnum og fleiri sýna skýrt og ótvírætt, að hér er ekkert að óttast, því að auk þess, sem slíkar refsiaðgerðir brjóta í bág við þær hugsjónir í alþjóðamálum, sem Bandaríkin berjast fyrir, þá er síður en svo ástæða til að ætla, að stjórn Bandaríkjanna fari, þegar til alvörunnar kemur, að ganga á gefin loforð og gerða samninga.

Ég skal svo ekki fara fleiri orðum um þetta, en lýsi yfir, að ég mótmæli öllu undanhaldi í málinu og tek engan þátt í afgreiðslu þess á öðrum grundvelli en þeim, sem lagður var á síðasta Alþingi.