07.09.1942
Efri deild: 24. fundur, 60. löggjafarþing.
Sjá dálk 306 í B-deild Alþingistíðinda. (431)

80. mál, stjórnarskipunarlög

Forsrh. (Ólafur Thors):

Herra forseti! Þetta mál er hingað komið úr hv. Nd. Það hefur verið rætt þar allýtarlega, og að viðstöddum, að ég held, öllum hv. dm. hér. Ég sé því ekki ástæðu til umr. hér um málið.

Ég vísa um það til frv. sjálfs og umr. um það í gær. Það eina, sem ég vil taka fram, er það, að þessi leið, sem farin er vegna breyttra aðstæðna, felur í sér möguleika til jafnskjótrar afgreiðslu eins og þótt málið hefði verið fram borið í sinni fyrstu mynd. En frá því hefur verið fallið eftir ýtarlegar umr. við þm.

Ég geri ráð fyrir, að til álita komi að vísa málinu til n., en vænti, að það fái skjóta afgreiðslu, þar eð þingi á að slíta í dag.

Ég vona, að málinu þyki enginn ósómi sýndur, þótt því sé hraðað sem auðið er, með því að hv. þm. er málið svo kunnugt.