07.09.1942
Efri deild: 24. fundur, 60. löggjafarþing.
Sjá dálk 335 í B-deild Alþingistíðinda. (439)

80. mál, stjórnarskipunarlög

Bernharð Stefánsson:

Umr. eru nú þegar orðnar nokkuð langar, og skal ég reyna að vera stuttorður, en reyndar er þó ekkert að furða, þótt tveimur dögum af þingtímanum sé eytt vegna þessa máls, og mundi ekki mikið hafa þótt, ef það hefði verið tekið fyrr upp á þinginu.

Þetta frv. er nú augljós vonbrigði fyrir alla. Það er af því, að fyrir síðustu kosningar var því lofað af Sjálfstfl., að lýðveldi yrði stofnað nú í sumar, en með frv. er ekki um neina lýðveldisstofnun að ræða.

Allir flokkar voru sammála um samþykktirnar frá 17. maí 1941, og þjóðin stóð að baki þeim. Með þessum samþykktum höfðum við tekið öll okkar mál í okkar hendur og lýst yfir, að framtíðartakmarkið væri lýðveldi. Ég tel, að þjóðin hefði unað því, að við svo búið stæði fyrst um sinn, ef nýjar vonir hefðu ekki verið kveiktar með ótímabærum loforðum í vor. Og ég minnist þess, er kjördæmamálið var til 1. umr. í Nd., þá lýsti hæstv. forseti Sþ. þessari afstöðu greinilega, er hann sagði, að í rauninni lægi ekkert á að taka ákvarðanir um sambandsmálið. Það lægi skýrt fyrir, hvað Ísland hefði gert og ætlaði að gera. En að þetta mál var tekið upp í vor, var af því, að farið var að hrófla við breyt. á stjskr. Þess vegna hugsuðu menn sér þessa tilhögun. Það öngþveiti, sem þetta mál er nú komið í, er bein afleiðing af því, að fyrra málið var upp tekið, eins og tveir flokksbræður mínir hafa tekið fram hér.

Ég er sammála hv. þm. Barð. um, að æskilegt hefði verið, að sjálfstæðismálið hefði náð fram að ganga á þessu þingi. En ég er honum ekki sammála um annað. Brigzlyrðin í ræðu hans, er hvergi geta staðizt, eru sízt til þess fallin að fylkja mönnum um málið.

En sjálfstæðismálið hefur strandað á þessu þingi sökum þess, að stjórnin hefur ekki treyst sér til að framfylgja loforðunum frá í vor. Skal ég ekki deila á hana fyrir það. En til þess að láta sem eitthvað sé gert í málinu, er þetta frv. fram borið, sem vitanlega er þó ekki neitt sjálfstæðismál. Það er talið, að það eigi að flýta fyrir afgreiðslu sjálfstæðismálsins, er að henni kemur, og hæstv. forsrh. sagði í dag, að þetta frv. gæfi möguleika til þess, að málið yrði framkvæmt jafnsnemma og ættað var. Þetta er ekki rétt. Þetta frv. ber ekki í sér neina möguleika til jafnfljótrar afgreiðslu og orðið hefði, ef málið hefði fengið þá meðferð, sem ráðgerð var. Þetta er af því, að svo er ákveðið í frv., að auk samþykkis eins þings þurfi þjóðaratkvæðagreiðslu. Því verður ekki þessum tilgangi náð, sem stj. og stuðningsmenn frv. vilja vera láta, þetta verður mjög lítið fljótari leið en farin væri, er venjuleg breyt. á stjskr. væri gerð. Ég sé ekki, að fljótara sé að láta fara fram þjóðaratkvæðagreiðslu en kosningar. Það væri þá aðeins tíminn frá kosningum og fram að þingi, er sparaðist.

Okkur framsóknarmönnum hefur verið brigzlað um það hér af andstæðingum okkar, að frá okkur hafi ekki komið fram nein uppástunga um leið í þessu máli. Þetta er rangt. Tveir flokksbræður mínir hafa hér bent á leið, sem jafnan hefur verið farin, er lýðveldi hafa verið stofnuð hingað til, og gefizt vel.

Ég er ákaflega hræddur um, eins og nú standa sakir, að þetta frv., sem á að flýta fyrir lýðveldisstofnuninni, nægi ekki í því efni. Vel getur hugsazt, að við verðum að hafa hraðari hendur en þar er ráð fyrir gert. Hvernig var ekki með ákvörðun þingsins 10. apríl 1940? Þá hefði ekki verið hægt að láta fara fram þjóðaratkvæðagreiðslu, nema þá eftir á.

Ég hjó eftir því í ræðu hæstv. forsrh. í dag, að hann sagði, að yfirlýsingin frá 17. maí 1941 samrýmdist ekki sambandslagasáttmálanum og væri strangt tekið ekki lögleg. Ég held þetta sé rétt, og ég vil láta koma fram, að ég tel, að lýðveldi verði vart stofnað á löglegan hátt, jafnvel ekki eftir þessu frv. Og getur nokkur bent á dæmi um löglega lýðveldisstofnun samkvæmt eldri stjskr.?

Hv. 6. þm. Reykv. sagði, að eins mætti segja, að hér hefði orðið bylting 10. apríl 1940. Ég tel þýðingarlaust að þræta um meiningu orða. En ég hef ekki heyrt kallaða byltingu í Noregi 1905, er Norðmenn lýstu yfir því, að konungur Svía væri ekki lengur þeirra konungur. Þeir settu þá ekki á stofn lýðveldi, af því að þeir ætluðu að taka sér annan konung. En ef þeir hefðu ætlað að stofnsetja lýðveldi, þá hefðu þeir yfirlýst Noreg lýðveldi þann sama dag og þeir slitu konungssambandinu við Svía, enda þótt engin lýðveldisstjórnarskrá væri til.

Því hefur verið haldið fram, að Framsfl. hafi risið gegn þessu frv. Ég held, að það sé ekki rétt að orði komizt. Hér hefur verið deilt á stj. og andstæðinga okkar fyrir ýmislegt í sambandi við þetta mál, en Framsfl. hefur ekki lýst yfir því, að hann væri á móti þessu frv. Ég skal þó lýsa yfir því fyrir mitt leyti, þar eð ég hef ekkert umboð til að tala fyrir flokk minn, að ég tel ákvæðið um þjóðaratkvæðagreiðsluna mesta gallann á frv. Ég veit raunar, að það getur gefið málinu styrk út á við, ef mikil þátttaka næst. Að öðru leyti er þetta þýðingarlítið inn á við. Allir vita, að allir Íslendingar eru sammála um, að stofna eigi hér lýðveldi við fyrsta tækifæri. Um það þarf ekki að spyrja þjóðina fyrr en þá eftir á. Mér hefði því fundizt, að þessi stjskrl. hefðu mátt öðlast gildi á undan þjóðaratkvæðagreiðslunni, því að ekki er víst, að við höfum tíma til að bíða eftir henni, er að þessu kemur. En sjálfsagt er nú ekki hægt að breyta þessu ákvæði eftir þetta. En yfirleitt er það mín skoðun og Framsfl., að ein samþykkt Alþ. eigi og geti nægt til þess, að lýðveldið verði stofnað.

Ég sé svo ekki ástæðu til að lengja umr. með því að svara þeim hv. þingmönnum, er hér hafa talað.

Eina setningu sagði hv. 6. þm. Reykv., er ég hef oft heyrt fyrr. Hann talaði um sérréttindi Framsfl. Ég er alveg undrandi á því, að menn með fullu viti, sem hafa lesið stjskr., skuli stagast á þessu. Eftir henni hafa allir flokkar jafna aðstöðu til að vinna kjördæmin. Það er því ekki vegna neins sérréttindamissis, að Framsfl. hefur barizt gegn kjördæmamálinu, en það er nú útrætt mál.

Ég skildi hv. þm. Barð. svo, að ástæðan til sundrungar í þessu máli væri sú, að Framsfl. hafi ekki viljað vera með í því. Að hann skuli leyfa sér að segja þetta! Ég hef ekki orðið var við nein tilboð um þetta frá öðrum flokkum. Þetta eru rakalaus ummæli og sízt til þess fallin að fylkja mönnum um málið. Ég fullyrði, að ekki muni standa á Framsfl. að samþykkja fullt sjálfstæði Íslands, þegar þess er kostur, þó að hann sjái ekki ástæðu til að styðja hégómamál sem þetta frv. Ég ætla að minna hv. þm. á það, að um þetta frv., sem ekki er neitt sjálfstæðismál, erum við framsóknarmenn sammála hv. þm. Borgf. Hann sá ekki heldur ástæðu til að samþykkja þetta frv. Ef þeir áfella hann ekki, geta þeir ekki heldur áfellt okkur, það sama verður að ganga yfir báða.

Ég skal svo ekki eyða tíma hv. d. lengur.