20.08.1942
Neðri deild: 10. fundur, 60. löggjafarþing.
Sjá dálk 363 í B-deild Alþingistíðinda. (478)

51. mál, nýjar síldarverksmiðjur

Frsm. (Finnur Jónsson) :

Mér hefur verið tjáð, að í Krossanesi liggi gamlar lýsisbirgðir, svo að ekki sé rúm fyrir meira en 500 smálestir til. viðbótar. Ef það er rétt, var útilokað að taka verksmiðjuna á leigu á þessu sumri. Í öðru lagi vil ég taka fram, að það var mjög hæpið, að hægt yrði að setja nýju verksmiðjuna á Raufarhöfn af stað vegna fólksleysis, og eldri verksmiðjan þar er ekki rekin af þeim sökum. Sólbakkaverksmiðjan var rekin um tíma, en ekki var það hægt nema aðra vaktina. Það hefði vitanlega verið þýðingarlaust að fá á leigu Krossanesverksmiðjuna til viðbótar á þessu sumri, þótt ekki hefði verið lýsi þar. Í verksmiðjustjórninni var 1937 lagt til, að ríkið reyndi að kaupa Krossanesverksmiðjuna, m. a. til þess að draga úr síldveiðum Norðmanna hér við land. En þar sem sú verksmiðja er í rauninni undirstaða þess atvinnuvegar þeirra hér, hef ég litla trú á, að þeir séu útfalir á hana.

Verksmiðjustjórnin lagði upphaflega til, að 10 þús. mála verksmiðja yrði á Húsavík. Síðan var tekin upp 5 þús. mála verksmiðja á Skagaströnd, án þess að ástæða þætti til að breyta heildaraukningunni, sem ráðgerð var, og var þá lækkað á Húsavík. Þar á nokkuð langt í land, að hafnarmannvirki verði gerð, sem nægja. Þau munu kosta — ekki hundruð þúsunda, heldur milljónir. Ef þm. vilja koma þessu máli fram á þinginu, vildi ég beina því til þeirra, sem flutt hafa brtt., að ekki mun aðeins tími til þess einu sinni, heldur mörgum sinnum, áður en byrjað verður að reisa verksmiðju á Húsavík, að fá hana aukna, ef næg rök mæla þá með, og skiptir þá engu, hvort þessari breyt. er komið inn í frv. nú eða ekki.

Ef byrjað er að hnýta upp á þetta frv., þá er hætt við að of margir komi fram með till. um að bæta við, svo að frv. verði það að falli nú á þessu þingi. Ég legg því til, að hv. þm. gangi inn á samkomulagstill. sjútvn. og atvmrh. og samþykki frv. í þeirri mynd og láti þar við sitja.

Viðvíkjandi aths. hv. þm. V.-Húnv. (SkG), er hann gerði út af því, að reikningar frá 1940 hefðu komið svo seint sem raun bar vitni um, þá er ástæðan sú, að uppgjör kom svo seint frá viðskiptanefnd fyrir afurðasölu verksmiðjanna. Þessi dráttur á birtingu reikninganna er þess vegna ekki verksmiðjustjórninni að kenna. — Mér skildist á hv. þm. V.-Húnv., að honum þætti ekki nógu vel séð fyrir hagsmunum verksmiðjanna í núgildandi l. Ég er hv. þm. ekki sammála um þetta. Ég benti á, að meiri hluti verksmiðjanna er aðeins þriggja til sjö ára gamall, en þó er það nú svo með hag þeirra, að þær, sem kostuðu 8 millj. kr., hafa nú greitt sig svo mikið niður, að skuldir þeirra eru nú aðeins 2½ millj. kr. Það er því alveg einstakt, hvað jafnungt fyrirtæki hefur greitt sig niður.

Hv. þm. V.-Húnv. sagði, að verksmiðjurnar hefðu ekki grætt árið 1940. Þetta er rétt að því leyti, að þá var síldin lögð upp til vinnslu, en þó er ekki þar með sagt, að verksmiðjurnar hafi ekki hagnazt. Gjöld þau, sem verksmiðjurnar reikna sem rekstrarkostnað, eru samningsbundnar afborganir, sem námu árið 1940 kr. 323274.00, fyrningargjald kr. 221976.00 og varasjóðsgjald kr. 514761.00. Svo að þótt verksmiðjurnar hafi ekki hagnazt af viðskiptamönnum, þá var brúttóhagnaður þeirra í kringum eina milljón kr., að meðtöldu fyrningargjaldi. — Ég er því ekki sammála hv. þm. V.-Húnv. um, að eigi sé vel séð fyrir hag verksmiðjanna, t. d. nemur varasjóðsgjaldið mjög miklu. Þetta ár er það 0.90 kr., sem sjómenn og útgerðarmenn greiða af hverju máli í þann sjóð. Ég tel mjög vafasamt gagnvart útgerðinni í landinu að fara lengra. Það er rétt, að árið 1941 fengust ekki þær tekjur, sem áætlaðar voru, en ástæðan er sú, að það ár var mjög óhagstætt fyrir verksmiðjurnar. Afli var lítill, undir meðallagi, og auk þess var síldin svo rýr, að jafnlítið lýsi hefur ekki fengizt síðan árið 1931, þegar verksmiðjurnar tóku fyrst til starfa. Af þessari ástæðu vantaði verksmiðjurnar 134600 kr. til þess að geta lagt fullt gjald í varasjóð. En þrátt fyrir þessa lélegu veiði, þá gátu verksmiðjurnar þó greitt sínar afborganir, kr. 340660.00, 255 þús. kr. í fyrningarsjóð og 85 þús. kr. í varasjóð, og má það teljast gott, þegar á þessu ári fóru saman öll verstu óhöpp, sem fyrir verksmiðjurnar geta komið.

Út af því, sem hv. þm. V.-Húnv. sagði um gengistap, þá vil ég taka það fram, að samningsbundnar afborganir teljast með rekstrarkostnaði og afborganir af gengistani eru færðar á rekstrarkostnað.

Ég mun svo ekki fjölyrða um þetta frekar, en vil ítreka þau tilmæli mín til hv. dm., að þeir haldi sig við samkomulagstill. sjútvn. og atvmrh. og bæti engu þar ofan á.