12.08.1942
Neðri deild: 5. fundur, 60. löggjafarþing.
Sjá dálk 386 í B-deild Alþingistíðinda. (563)

24. mál, raforkusjóður

Sveinbjörn Högnason:

Ég vil byrja með því að lýsa ánægju minni yfir iðrun þeirri, er komið hefur fram í Sjálfstfl. með komu þessa frv. á Alþ. Þó verður að játa það, að ekki er alveg víst, að hér sé um beina iðrun að ræða af hendi þess flokks, þar sem það eru nýliðar hér á Alþ., er það bera fram.

Á síðasta þingi voru athugaðir möguleikar á tekjuöflun til raforkuframkvæmda og Sjálfstfl. boðið að koma með till. í því efni, er honum þætti líklegast, að næði fram að ganga. Og hann kom með þá till. að afla tekna úr ríkissjóði, en frv. strandaði samt, og Framsfl. stóð með því, að það mál næði fram að ganga.

Það, sem einna mest er áberandi í frv. þessu, er, að í því er sáralítið annað en það, sem Framsfl. hefur lagt til þessara mála áður. Á síðasta þingi vildi Framsfl. leggja til hliðar af tekjum ríkissjóðs til myndunar framkvæmdasjóðs, en það strandaði enn sem fyrr á Sjálfstfl.

Frv. þetta gefur að vísu ekki glæstar vonir um heilindi í þessu máli, þar sem vitnað er í sem aðalforsendur fyrir frv. þessu till. Jóns Þorlákssonar frá 1929, sem hvergi nærri komu við jörðina og hafa þess vegna legið í þagnargildi síðan.

Það er og eitt, sem þarf að athuga í sambandi við raforkumál sveitanna, um leið og veitt er fé til þeirra mála, og það þarf jafnframt að rannsaka allar aðstæður, áður en hafizt er handa til framkvæmda, og það er ekki nóg að ausa fé í sjóð og úr honum aftur án þess að rannsaka, á hvern veg því verður bezt varið.

Ég skal svo ekki hafa um þetta fleiri orð að þessu sinni. Aðeins ætla ég að taka fram, að ég vona, að hv. flm. hafi í þessu máli tryggt alvöru og festu meira en verið hefur til þessa hér á þingi og sýni, að þeir vilji raunhæfar framkvæmdir, en komi ekki fram sem leikarar.