14.08.1942
Efri deild: 8. fundur, 60. löggjafarþing.
Sjá dálk 27 í B-deild Alþingistíðinda. (70)

30. mál, alþýðutryggingar

Frsm. (Bjarni Benediktsson) :

Allshn. hefur orðið sammála um að leggja til, að frv. verði samþ. Hér er að ræða um breyt. á því ákvæði 24. gr. alþýðutryggingal. frá 1937, að þeir, sem hafa yfir 4500 kr. árstekjur skattskyldar. skuli eigi njóta samlagsréttinda, nema þeir greiði tvöfalt gjald til samlagsins. Nú var sú breyt. gerð á síðasta þingi á reikningi skattskyldra tekna, að hætt var að draga frá tekju- og eignarskatt og útsvar. Þó að tekjur séu sömu og áður, geta menn því misst samlagsréttindi, sem þeir höfðu fyrir breyt. skattal. Mönnum láðist að breyta þessu, þegar skattal. voru afgreidd. Ríkisstj. sá sig því knúða til að gefa út um það brbl. 30. júní s. l. og hækka tekjumark þetta úr 4500 kr. í 5500 kr. Ég geri ráð fyrir, að þessi hækkun sé út af fyrir sig meiri en til jafns við það, sem skattskyldar tekjur hækka við afnám frádráttarreglunnar. En með hliðsjón af þeim breytingum, sem almennt hafa orðið á tekjum manna, er þessi 1000 kr. hækkun sjálfsagt ekki óeðlileg. Fyrir hönd n. mæli ég með, að frv. verði samþ. óbreytt.

Við umr. í n. kom það fram, að sumir nm. a. m. k. töldu ekki óeðlilegt að hækka markið meira, og sá nm., sem ritaði undir nál. með fyrirvara, áskildi sér rétt til að flytja um það brtt., ef svo sýndist á síðara. stigi málsins. En fyrir mitt leyti verð ég að lýsa yfir, að ég tel þetta ákvæði 24. gr. ósanngjarnt með öllu, þar sem hér ætti að vera um hreina tryggingarstarfsemi að ræða og tekjuhæð þeirra, sem tryggja sig, kemur ekki málinu við. Ég hef aldrei getað skilið, að það ætti við á þeim grundvelli, að sumir þyrftu að greiða helmingi meira en aðrir til að öðlast réttindi, og nú horfir svo, að mikill þorri almennings geti orðið fyrir því. Gagngerð endurskoðun þessara 1. er því fyrir dyrum, svo að ég tel ekki heppilegt að taka þetta eitt út úr og breyta frekar en gert er í brbl. En þegar breytt verður, þykir mér von til, að menn skilji, að hámark þetta á ekki rétt á sér.