19.08.1942
Neðri deild: 9. fundur, 60. löggjafarþing.
Sjá dálk 46 í C-deild Alþingistíðinda. (735)

58. mál, skipaafgreiðsla Eimskipafélags Íslands h/f

Sveinbjörn Högnason:

Ég get ekki látið hjá líða vegna þess máls, sem fyrir liggur, og þeirra umr., sem fram hafa farið, að segja nokkur orð.

Það er verið að tala um það, sem mun rétt vera, að yfirvofandi sé íhlutun erlends valds um atvinnumál okkar og verkalýðsmál. Hæstv. forsrh. sagði hér með réttu, að þegar um það væri að ræða, og það, hvernig hægt væri að afstýra þeirri erlendu íhlutun, þá ættu allir flokkar að standa saman um það, sem og er rétt. Mig furðar þess vegna á því, að hæstv. forsrh. skuli ekki hafa tryggt sér það nokkurn veginn sæmilega hjá stuðningsflokkum sínum, að þessu máli verði þannig tekið, heldur er, þegar hættan vofir yfir, snúizt við því með hótunum og brigzlyrðum á aðra menn og talað um það, hverjum það sé að kenna, að vinnan við höfnina hefur nú verið stöðvuð. Hitt er eins og skipti minna að forðast þá árekstra, sem hér hafa orðið og eru stórhættulegir sjálfstæði okkar í atvinnumálum.

Ég vil benda á í sambandi við það, sem hv. þm. Ísaf. (FJ) sagði, að þessi vinnustöðvun væri að kenna gerðardómsl., að hæstv. forsrh. hefur fyrir nokkuð löngu skipað þeim dómi að fella ekki dóma í kaupgjaldsmálum. Samt sem áður dirfast sumir hv. þm., eins og hv. þm. Ísaf., að segja, að gerðardómsl. hafi verið valdandi þeim árekstrum, sem ætla að verða þjóðhættulegir, ef ekki er tekið í taumana. Samtímis segja þessir menn, sem hafa verið á móti gerðardómsl., að sigurinn sé unninn, þau l. séu nú úr sögunni, og nú séu það þeir, sem ætli að setja kostina, eins og sigurvegarar, um það, hvernig samið verði. Og kostirnir virðast þá vera þessir, ef ríkisstj. gerir ekki það, sem þeim þóknast, hverjar sem kröfurnar eru og án. þess að farnar séu nokkrar samningaleiðir til þess að komast hjá frekari vandræðum, þá sé þeim að mæta, það sé ekki annað en að viðurkenna vald sigurvegaranna.

Hv. síðasti ræðumaður (SigfS) talaði um viðurkenningu á þessu valdi. Ég held, að ef haldið væri áfram á þeirri braut, að eingöngu ætti að taka tillit til þess, hvað hver einstaklingur getur unnið þjóðinni mikið tjón með valdi sínu. þá held ég, að við getum fengið erlenda íhlutun mjög fljótt um mál okkar.

Það, sem einkennilegt er við þessar umr., er það, að flm. frv. þykjast hafa ríkisstjórnina svo í sinni hendi, að þeir geti komið fram við hana öllu, sem þeir óska. Þetta álít ég, að sé mjög athyglisvert fyrir hæstv. Alþ. Ef einhverjir samningsaðilar hafa ekki verið nógu liðugir til þess að lúta sigurvegurunum, þá þurfi ekki annað en að segja umboðsmönnum sínum að fara til ríkisstjórnarinnar og láta hana koma vilja sínum fram. Ég held, að þau mörgu orð og fögru um, að það þurfi að ná friðsamlegu samkomulagi og ríkisstjórnin ætli að beita sér fyrir því, að samið verði á friðsamlegum grundvelli og þá muni öllum hættum verða afstýrt, — ég held, að þessi mörgu orð fölni við ljós þess, sem komið hefur fram í umr. hér í dag. Hæstv. ríkisstjórn virðist vera gersamlega ráðþrota og vanmáttug, og ráð ríkisstjórnarinnar virðast vera öll í höndum þeirra manna, sem hér koma sem sigurvegarar og skoða sig sem umboðsmenn þeirra manna, sem telja sig geta með aðstöðu sinni komið einhverju til leiðar, sem geti valdið tjóni, ef þeim er ekki hlýtt.

Ég álít, að þetta sé mikið alvöruefni, hvernig þetta horfir við og hvernig á þessum málum er haldið. Og við, sem utan við stöndum, sjáum samkomulagið. Sumir hv. þm. stinga höfðinu ofan í sandinn og kenna gerðardómsl. um það, hvernig komið er málum hér við höfnina, og að það sé þá víst allra meina bót í því efni að afnema þau l. Við, sem utan við stöndum, sjáum vel, hvernig þau vinnubrögð eru, sem þessi samsteypa beitir, og hvað það er, sem þessir menn ætla að gera.