10.08.1942
Efri deild: 3. fundur, 60. löggjafarþing.
Sjá dálk 35 í B-deild Alþingistíðinda. (91)

7. mál, dómnefnd í verðlagsmálum

Steingrímur Aðalsteinsson:

Ég ætla ekki að hafa langt mál um frv. það, er hér liggur fyrir og væntanlega verður samþ. Ég fagna því sem verkamaður og fulltrúi þeirra, að sú viðurkenning er fengin á gerðardóminum í kaupgjalds- og verðlagsmálum, að nú er í ráði að afnema hann. Það er og vert í þessu sambandi að minna á það, að þessi viðurkenning er staðfesting á afstöðu sósíalista til gerðardómsins, sem börðust gegn honum strax í upphafi.

Það var ekki við öðru að búast en að svo færi, þar sem ekki einungis stærstu félagssamtök í landinu, heldur og þau þýðingarmestu, verkalýðssamtökin, voru gersamlega andvíg gerðardómsl., og það var líka fyrst og fremst fyrir andstöðu þeirra, að þessi l. náðu ekki fram að ganga. Þó er langt frá því, að l. þessi hafi verið áhrifalaus, eins og mönnum er ljóst, því að þau hafa skapað mikið misræmi í launum verkafólks í landinu, sem kemur fram í mismuni á kauplagi í þéttbýli og dreifbýli, þar sem kaupið hefur að mestu haldizt óbreytt. Þar sem nú ástandið í launamálunum er hvergi nærri bætt með afnámi gerðardómsl., liggur beint við, að um leið og þau verða afnumin, verði verkalýðsfélögum úti um allt land gefin heimild til þess af löggjafarvaldinu að segja upp gildandi kaupsamningum með viku fyrirvara, eins og verkamannafélagið Dagsbrún stakk upp á, að gert yrði, í bréfi sínu til Alþingis, og vil ég hér með skora á allshn. að taka í frv. þetta ákvæði, er fara í þessa átt.

Það ætti nú að vera orðið ljóst, að ógerningur er að ráða þessum málum til lykta án þess að hafa þar til samþykki verkalýðssamtakanna í landinu. Vil ég því mælast til þess, að stj. verði falið að taka upp samninga við þennan aðila. Vænti ég og, að tekið verði tillit til þessa í afgreiðslu málsins frá Alþingi.

Hæstv. ráðh. var að tala um skort á þegnskap. Geri ég ráð fyrir, að hann hafi átt við verkafólkið, að það ynni ekki fyrir óbreytt kaup að áhættusömu starfi. Ég skal ekki draga í efa, að skortur kunni að finnast á þegnskap meðal okkar Íslendinga. En ég vil algerlega mótmæla því, að andstaða verkalýðsins við gerðardómslögin hafi byggzt á því, að verkalýðinn skorti þegnskap. Ef um skort á þegnskap er að ræða í þessum efnum, þá kemur hann ekki fram gagnvart íslenzku þjóðinni, heldur gagnvart stríðsgróðamönnunum í landinu, því að það hefði verið fyrst og fremst þeirra gróði, ef tekizt hefði með þeim l. að ná þeim árangri, sem til var ætlazt, þ. e. að fá verkafólkið til að vinna þessi störf áfram fyrir óbreytt kaup, þrátt fyrir hina auknu peningaveltu og stríðsgróða, sem veltur inn í landið.

Ég mun ekki fjölyrða um þetta frekar, en bendi á, að það er ekki nóg að fella úr gildi það bann, sem gilti við kauphækkun, heldur verður um leið að setja ákvæði, sem heimila verkalýðsfélögunum að slíta þeim samningum, sem nú gilda við atvinnurekendur, sem eru orðnir úreltir vegna þess ástands, sem ríkt hefur undanfarið. Og ég vil enn fremur vænta þess í beinu framhaldi af afnámi þessa banns, að ríkisstj. fari ekki út á neinar slíkar hættulegar brautir í þessu efni, heldur taki upp vinsamlega samninga við verkalýðsfélögin til þess á þann hátt að leysa þau vandamál, sem fyrir liggja.