13.04.1943
Efri deild: 98. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 769 í B-deild Alþingistíðinda. (1012)

140. mál, dýrtíðarráðstafanir

Bernharð Stefánsson:

Eins og sjá má á nál. á þskj. 744, er ég ósammála meðnm. mínum um afgreiðslu málsins, þótt ég skrifi undir nál. með fyrirvara. Skal ég játa, að þessi skoðanamunur er það mikill, að ég hefði getað gefið út sérstakt nál. En af því að samkomulag var gott, bæði nú og áður, þótti mér ekki rétt að skilja mig frá meðnm. mínum, einkum af því, að öll n. mælir með því, að frv. verði samþ. Skoðanamunurinn liggur aðallega í því, að meðnm. mínir vilja gera allvíðtækar breytingar á frv. Sumir vilja binda samþykkt þessara brtt. við samþykki sitt á frv. endanlega. En ég ræð d. til að samþykkja frv. óbreytt.

Til þeirrar afstöðu minnar að ráða d. til að samþ. frv. óbreytt liggja tvær meginástæður. Um aðra þeirra gat ég rækilega í gær. Hún er sú, að ég tel málinu stefnt út í fullkomna tvísýnu með því að senda það til Nd. með víðtækum brtt. Því er yfirlýst og það liggur í hlutarins eðli, að þinginu verður slitið eftir hádegi á morgun. Brtt. mundu valda umr. í Nd. og tímatöf, óvíst hve langri. Verð ég að segja, að með þessu móti sé verið að stofna afgreiðslu málsins í óvissu. Ef það yrði sent Nd. aftur, gæti svo farið, að fyrir því ætti líka að liggja að fara til Sþ.

Ég skal játa, að ég er ekki alls kostar ánægður með frv. eins og það er nú. Mér þykir of skammt gengið í því að gera virkilegar ráðstafanir til að hamla dýrtíðinni og fá hana lækkaða, ef kostur er. Við ráðum ekki við annað en að gera sjálfsagðar ráðstafanir með löggjöf um þessi efni vegna verðlags, sem skapast á vörum á innlend um markaði. Gagnvart erlendu verðlagi er varla annað að gera en að verja fé úr ríkissjóði til jöfnunar og verndar. Ég óttast, að verð útlendra vara fari bráðlega hækkandi og að ekki veitti af því að gera fullkomnar ráðstafanir til að halda dýrtíðinni í skefjum innan lands, svo að dýrtíðarvísitalan þyrfti ekki að hækka, þótt vörur hækkuðu.

Ég er ekki í vafa um, að Nd. mundi draga úr þeim ráðstöfunum, sem stjórnin mundi gera í þessu efni. Þess vegna er það, að þótt ég játi fúslega, að ég er ekki fyllilega ánægður með frv. eins og það liggur fyrir, þá tel ég hins vegar, að í dýrtíðarmálunum sé það mikið unnið með því eins og það nú liggur fyrir, að það væri hreint og beint óhappaverk, ef Alþ. kæmi í veg fyrir samþykkt þess, þótt ekki sé mikið eftir af hinu upphaflega frv. ríkisstj.

Það er ákveðið, að tvær fjölmennustu stéttir landsins, bændur og verkamenn, geri tilraun til þess að semja um verðlag og kaupgjald í landinu. Ef samúð og skilningur af beggja hálfu ríkti, gæti það áunnizt, að hið óheilbrigða kapphlaup milli verðlags og kaupgjalds, sem ríkt hefur að undanförnu, hætti. Þetta tvennt hefur, ef svo má að orði kveða, skapað dýrtíðina. Vitanlega er ekki hægt að ráða við dýrtið þá; sem skapast af verðlagi útlendra varna, en það er nú svo komið, að hún er orðin allmiklu hærri en vísitalan gefur tilefni til.

Þótt um smágalla á frv. sé að ræða, er ekki rétt að tefla því í hættu nú, því að þeir gallar standa til bóta, og gæti annað þing, sem kemur saman í þessari viku, tekið þá til athugunar. Enginn veit, hve lengi það kann að sitja, en ekki ætti að þurfa að bíða þess lengi, að þeir gallar, sem á frv. finnast, væru lagaðir.

Hv. Nd. ætti það skilið, að málinu væri vísað frá. Ed. ætti ekki að láta bjóða sér það að afgreiða mál þetta á einum degi. En málsins vegna er ekki viðeigandi að hafa þá aðferð.

Hin ástæðan er sú, að ég er ósamþykkur þessum brtt. frá meiri hl. fjhn., og ég tel mikla hættu á því, ef þær yrðu samþykktar, að frv. dagi uppi hér á Alþ. eða nái ekki samþykki þingsins. — Ég get sagt það, að ég er frekar samþykkur brtt. hv. þm. Barð.

Ég játa, að 1.–3. brtt. hv. meiri hl. eru frekar þýðingarlitlar, frekar blæbreyt. en efnisbreyt., sem þar er um að ræða. Ég sé ekki, að það hafi hina minnstu þýðingu, hvort þessar 3 millj., sem um ræðir, ganga til alþýðutrygginga, samkv. alþýðutryggingalögunum, eða hvort stofnaður verður slíkur sjóður, eins og frv. fer fram á. En óneitanlega eru það aðalatriði þessa þriggja brtt., að með þeim er gerður meginmunur á tveimur fjölmennustu vinnandi stéttum í landinu. — Það á að mega lækka verðlag innlendra afurða. Að vísu er sagt, að það sé ekki á kostnað bænda, en það snertir þá þó og hefur óneitanlega áhrif á hagsmuni þeirra, en nú á að slá föstu, að ekki megi setja lagastaf, sem verklýðssamtökin séu við bundin. Að vísu skal ég játa, að þetta atriði hefur litla þýðingu, en blærinn er sá, sem ég hef nefnt. —

Aðaltill. hv. meiri hl. fjhn. er auðvitað sú, að 7. gr. frv. falli niður, og það er efnisbreyt. á frv. Út af því, sem hv. frsm. meiri hl. sagði viðvíkjandi afstöðu minni til þessarar gr., þá játaði ég að vísu í n., að efni þessarar gr. ætti betur við í skattal., en ég vildi þó fylgja frv. óbreyttu og tel vel forsvaranlegt að láta greinina standa, og efnislega er ég henni samþykkur.

Ég tel því rétt að fara nokkrum orðum um þessa. margumtöluðu 7. gr. frv. Því er haldið fram, að 7. gr. frv., eins og hún er nú, dragi úr möguleikum útgerðarinnar til þess að leggja fé í nýbyggingarsjóð, og eitt dagblað hér í bænum óð uppi með hinu mesta offorsi, eftir að þessi gr. var sett í frv. í hv. Nd., og sagði, að þetta væri árás á sjómannastétt landsins. Hvað, sem um þetta kann að mega segja, þá sjá þó allir, sem lesa 7. gr. frv. og vita eitthvað um hag útgerðarfyrirtækja, að þetta gildir ekki um langflest útgerðarfyrirtæki í landinu, heldur jafnvel hið gagnstæða. Skv. frv. er gert ráð fyrir, að allt varasjóðstillag útgerðarfélaga renni í nýbyggingarsjóð, en samkv. núgildandi l. skal aðeins helmingurinn renna þangað.

Að því er snertir takmarkanir 7. gr. á skattfrelsi, þá snerta þau ákvæði aðeins fá útgerðarfélög í landinu, og þau félög hafa safnað miklum eignum. Ég tek þetta aðeins fram til leiðréttingar, en ekki í því skyni, að ég sé að neita því, að eins vel færi á að hafa þessi ákvæði í skattal. En ég tel þó tilvinnandi að láta þau koma í þessu frv., heldur en að fá þau sennilega alls ekki. Þá vil ég enn fremur benda á, að skv. frv. nú eru nýbyggingarsjóðshlunnindi einstakra útgerðarfélaga aukin, og sérstaklega er þetta til hagsmuna fyrir smáútgerðarfélögin.

Ég held því að „Mogginn“, sem óður og uppvægur hélt því fram, að framsóknarmenn og kommúnistar hefðu ætlað að drepa útgerðina með þessu, hafi hlaupið á sig.

Hvað snertir afnám skattfrelsis annarra hlutafélaga, sem rætt er um í 7. gr., þá er það að segja, að þau ákvæði eru samhlj. stjórnarfrv., og út af þeim ákvæðum var engin misklíð, þegar stjórnarfrv. var lagt fram, og því skyldi það þá vera nú, þótt þessi gr. sé aftur tekin upp í frv.? Eins og ég sagði áðan, þá tel ég eins gott að hafa efni 7. gr. í öðrum lögum, en vil aðeins benda hv. þdm. á, að ef menn eru sjálfum sér samkvæmir, þá hljóta þeir að sjá, að þessi gr. verður sett inn í frv. aftur í hv. Nd., þó hún verði felld úr því hér í hv. d. Þessi gr. var borin fram af fulltrúum Sósfl. í hv. Nd. og ég vil spyrja hv. fulltrúa Sósfl. í fjhn. þessarar d., hvort hann vilji ábyrgjast, að flokksmenn hans í Nd. vilji éta ofan í sig það, sem þeir samþykktu þar. Ef svo er, þá er öðru máli að gegna, og þá mun óhætt að afgreiða frv. svona breytt til hv. Nd.

Ég heyrði á fundi fjhn. í gærkvöld, að hv. meðnm. mínir væru vongóðir um, að frv. yrði samþ., þótt þær breyt. yrðu á því gerðar hér í hv. d., sem þeir fara fram á. — Ef svo er, þá breytir það miklu, en ég vil spyrja þá, hvort þeir geti ábyrgzt þetta.

Ég heyrði, að hv. frsm. meiri hl. lagði á móti brtt. hv. þm. Barð. Sennilegt er, að samþykkt þeirra verði frv. jafnt til falls sem brtt. fjhn., og er ég að því leyti á móti þeim, en eins og ég sagði í upphafi ræðu minnar, þá mun að sumu leyti vera lítið með meira víðsýni á málið í þeim brtt. heldur en í brtt. hv. meðnm. minna.