13.04.1943
Efri deild: 99. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 811 í B-deild Alþingistíðinda. (1039)

140. mál, dýrtíðarráðstafanir

Jónas Jónsson:

Ég sé, að hér hefur verið útbýtt brtt. á þskj. 745 um útsöluverð mjólkur. Og ég vildi benda á það, að það er ýmislegt, sem mælir með því, að hún verði felld, ef hún kemur til atkvgr. Í fyrsta lagi það, að sams konar brtt. hefur komið fram í Nd., og það er ekki ástæða til þess að skapa fleiri ágreiningsefni milli d. heldur en þörf er á. Í öðru lagi er hún sjálfsagt komin fram vegna ókunnugleika þess, sem bar hana fram, vegna þess að það er sannarlega ekki ástæða til að lækka mjólkurverðið utan Rvíkur, þar sem það hefur verið miklu lægra þar heldur en hér. Mundi sú lækkun verða svo sem eins og verðlaun fyrir það, að bændur hafa á ýmsum stöðum úti á landi selt mjólkina miklu lægra verði heldur en þeir hafa þurft að selja hana fyrir á undanförnum tíma af sanngirni við kaupendur. Og enn fremur er ekki ástæða til að samþ. þetta, þar sem hér er verið að myndast við að hafa eitthvert hlutfall — þó lítið sé talað af sanngirni — milli kaups og verðlags, því að á það ber að líta, að kaup hefur hækkað meira úti um land hlutfallslega heldur en í Rvík. Svo það er ekki ástæða til þess að þrýsta niður mjólkurverðinu þar, sem því hefur verið haldið of lágu, samhliða því sem kaup á þeim stöðum hefur verið eins hátt eins og hér.

Ég ætla ekki að þreyta umr. um þetta. Menn geta séð, hvort þetta er hyggilegt og sanngjarnt, og sérstaklega þegar á það er litið, að það er vitanlegt, að kaup úti á landi verður líklega hærra í sumar heldur en verið hefur.