13.04.1943
Neðri deild: 101. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 817 í B-deild Alþingistíðinda. (1054)

140. mál, dýrtíðarráðstafanir

Eysteinn Jónsson:

Herra forseti. — Þetta frv. er nú komið til okkar aftur hér í hv. d. frá Ed. og hefur tekið miklum stakkaskiptum. Þau tíðindi hafa nú gerzt, að þrír af flokkum þingsins hafa nú gert samkomulag um það, hversu þetta mál skuli afgreitt. Þetta samkomulag er í framkvæmdinni svo vel skipulagt, að áður en atkvgr. var lokið við 3. umr. í Ed. um málið, þá var frv. prentað eins og það mundi líta út eftir 3. umr., samkv. því, sem bandalagið, sem um afgreiðslu þessa máls hafði skapazt þar, hafði gefið upp, að verða mundi um afgreiðslu frv. Á þessu hefur að vísu sá kostur verið, að hægt hefur verið að byrja þennan fund hér í hv. d. fyrr en ella. En þetta er dæmi þess, hve náið samstarf hefur tekizt á milli þeirra þriggja flokka, sem bundizt hafa samkomulagi um afgreiðslu málsins.

Með tilliti til þessa má segja með réttu, að það hafi ekki mikla þýðingu að ræða þetta mál nú hér í hv. d., þegar þannig er ástatt, að vitað er, að þetta samkomulag er fyrir hendi, og þar sem lýst hefur verið yfir af talsmönnum tveggja þessara flokka, Alþfl. og Sósfl., í hv. Ed., að samkomulag sé milli þeirra og Sjálfstfl. um þá afgreiðslu, sem orðin er. En eigi að síður vil ég nú þreyta hv. þdm. með því að vekja athygli á nokkrum atriðum í sambandi við þetta mál og meðferð þess hér í þinginu. Mér finnst ýmislegt í þeirri sögu vera þannig, að það sé ómögulegt annað en að vekja athygli á því, um leið og síðasti fundur er háður á Alþ. um málið í þessari hv. d.

Því hefur verið mjög á lofti haldið af ýmsum stjórnmálaflokkum, reyndar öllum stjórnmálaflokkum í landinu að undanskildum Sjálfstfl., að ef takast ætti að fá nokkra lausn á dýrtíðarmálinu, eins og það hefur verið kallað, þá væri það eitt skilyrði, sem væri frumskilyrði og óumflýjanlegt til þess, sem sé að á undan eða jafnhliða hverri lausn á þessu máli, sem væri, yrði að fara fullnægjandi lausn á skattlagningu stríðsgróðans. Hæstv. ríkisstj. hefur sýnilega í frv. sínu tekið til greina þessi sjónarmið flokkanna og látið því 1. kafla frv. fjalla um þær undanþágur, sem mest hefur verið krafizt af hálfu verklýðsflokkanna. En það vakti strax nokkurn ugg hér á þingi, að þegar afgreiða skyldi málið frá þessari hv. d., þá skiptu fulltrúar Alþfl. og Sósfl. um stefnu og ákváðu, að dýrtíðarmálin skyldu afgreidd, án þess að skattamálin yrðu tekin með. Undir eins og vitanlegt var orðið, að meiri hl. fjhn., sem skipaður er fulltrúum Sjálfstfl. og verklýðsflokkanna, mundi leggja þetta til, lögðum við tveir framsóknarflokksmenn fram till., sem fóru mjög í sömu átt og till. hæstv. ríkisstj., þá að fella niður varasjóðshlunnindi útgerðarfélaga þeirra, sem mestum varasjóðum hafa safnað, og veita smáútvegsmönnum aukin hlunnindi. Þegar þessar till. okkar voru fram komnar, fór að kenna nokkurs óróleika í herbúðum sósíalista á Alþ., og voru þá tveir menn gerðir út af örkinni af þeirra hálfu til að sýna. að þeir vildu standa við orð sín. Þeir lögðu nú fram till., sem fóru mjög í sömu átt og till. hæstv. ríkisstj. og till. okkar hv. 2. þm. N.-M. Þó að lítið bæri á milli, tóku þeir ekki upp þinglega stefnu, þannig að till. þeirra væru fluttar sem brtt. við okkar brtt. og reynt þannig að færa þær í það horf, er þeir vildu hafa, heldur fluttu þeir brtt. sínar inn í frv. miklu aftar en okkar brtt. Þetta var gert til þess eins að sýnast án þess að eiga á hættu, að nokkuð yrði samþ. í málinu. Það var sem sé tilgangur þeirra að fella okkar till. með aðstoð Sjálfstfl., og gerðu þeir ráð fyrir, að við mundum þá fella þeirra till. eftir á, svo að þeir yrðu stikkfrí, eins og krakkarnir segja. Eftir það átti svo að segja, að Sósfl. hefði vissulega viljað framkvæma sína stefnu í skattamálunum, en Framsfl. drepið till. hans. En við höfðum nokkurn grun um það, hvað fyrir þessum hv. þm. vakti. Á till. okkar og þeirra var ekki sá munur, að ástæða væri til að láta hann sér fyrir brjósti brenna, ef raunverulegum áhuga á málinu hefði verið til að dreifa. Við samþ. þess vegna þeirra till., þótt þeir hefðu fellt till. okkar. Maður skyldi nú ætla, að þeim hefði þótt þetta æskileg málalok. En gleði þeirra yfir því var blandin, eins og brátt kom í ljós. Hv. 7. þm. Reykv. hafði farið að barma sér yfir því, að sósíalistar hefðu aldrei þessu vant svikið í dýrtíðarmálinu. En við 3. umr. málsins gerist svo það, að hv. 2. þm. Rang. flytur brtt. þess efnis, að fé það, sem fengist vegna 7. gr. frv., skyldi renna í raforkusjóð, en ekki til alþýðutrygginganna, eins og Sósfl. hafði ákveðið. Og þegar þessi till. kemur fram, rís fulltrúi sósíalista, hv. 2. þm. Reykv., upp og lýsir yfir því, að ef hún verði samþ., muni Sósfl. greiða atkv. gegn 7. gr., að skattfrelsi stórútgerðarinnar verði látið niður falla, en Sósfl. er brennandi af áhuga fyrir rafmagnsmálunum, eins og kunnugt er!

Hv. 2. þm. Reykv. lýsir yfir því, að ef þessi óhæfa verði samþ., að féð renni í raforkusjóð, þá muni flokkur hans greiða atkv. á móti 7. gr. Hann telur með öðrum orðum betra, að stórgróðamenn í Rvík sitji með féð en það renni í raforkusjóðinn. Á þennan hátt kom það í ljós, að Sósfl. var aðeins að leita að átyllu til að geta drepið sitt eigið fóstur, og átyllan var ekki sterkari en það, að fénu skyldi varið í áhugamál þeirra nr. 1 í stað áhugamála þeirra nr. 2. Var auðséð samspil Sósfl. og íhaldsins í þessu, að Ingólfur Jónsson skyldi látinn bera fram þessa brtt. Þetta samspil var svo klaufalegt, að engum gat dulizt það. Ég lagði þá fram till. um það, að fénu skyldi skipt þannig, að helmingur rynni í raforkusjóð, en helmingur til alþýðutrygginganna, og náði hún samþ., eins og kunnugt er. En hv. 2. þm. Reykv. tók svo nærri sér kveinstafi hv. 7. þm. Reykv., um það, að Sósfl. hefði svikið, að hann ætlaði að koma því til leiðar, að till. þeirra hv. þm. Siglf. og hv. 6. landsk. yrði felld, þó að það tækist reyndar að koma í veg fyrir, að þessu fóstri hv. fyrrnefndra þm. yrði grandað.

Og nú hófst síðari þáttur málsins í hv. Ed. Það þarf ekki að taka fram, að sjálfstflmönnum leið illa, meðan á þessu stóð og óráðið var, hvort sósíalistar mundu treystast til að ganga á móti fyrri stefnu sinni eða heykjast á því. En Sjálfstfl. hefði engar áhyggjur þurft að hafa af því máli. Niðurstaðan varð sú, að sósíalistar og sjálfstflmenn sömdu um það í Ed. með samþ. Alþfl. að fella úr frv. ákvæði það um afnám skattfrelsis stórgróðamanna, sem flutt var af þm. sósíalista hér í deild.

Nú er fróðlegt að rifja upp fyrri afstöðu Alþfl. og Sósfl. í skattamálum og dýrtíðarmálum. Alltaf þegar leitað var samstarfs við þá í þeim málum, þóttust þeir ekki geta tekið þátt í slíku samstarfi, vegna þess að of skammt væri gengið í skattamálunum. Þeir fundu raunar ekki svo mjög að skattstiganum sjálfum, sem nam um 90%, þegar komið var upp í 200 þús. kr. tekjur, en þeir sögðu, að þessi skattstigi væri ekki til í raun og veru, gróðamenn hefðu svo mikil hlunnindi ýmiss konar, að með því væri skattstiginn gerður að engu. M.ö.o., þeir báru það fyrir sig, að þau hlunnindi væru veitt, sem nú var í ráði að afnema. Þeir höfðu lofað kjósendum sínum að afnema þessi hlunnindi. En nú, er hæstv. ríkisstj. leggur fram till. um þetta og Framsfl. lýsir sig fúsan að fylgja þeirri till., hvað gera þá þessir flokkar? Þá semja þeir við Sjálfstfl. um það, að þessi hlunnindi skuli látin gilda. Þeir samþ. að fella úr frv. till. sinna manna í Nd. um afnám þessara hlunninda. Þeir höfðu líka fundið að því oft og mörgum sinnum, að óheimilt væri að leggja útsvar á alla þá tekjuupphæð einstaklinga eða félaga, sem umfram væri 200 þús. kr. En skyldu þeir hafa komið fram með till. um það, að þetta yrði lagfært? Nei, ekki heldur.

Hvaða átyllu hafa svo þessir menn til að réttlæta framkomu sína? fyrsta tylliástæðan er sú, að með 7. gr. hafi verið þrengdur óhæfilega kostur útvegsins á því að safna fé í nýbyggingarsjóð. En samkv. þessari 7. gr. voru í raun og veru aukin nýbyggingarsjóðshlunnindi allrar smáútgerðar og tvöfölduð öll nýbyggingarsjóðstillög hjá öllum útgerðar- og hlutafélögum, sem ekki hafa komið varasjóði sínum upp í eina millj. kr. Það var í lófa lagið að ná samkomulagi um að hækka þetta takmark nokkuð, svo að félögin gætu fengið meira í nýbyggingarsjóð. Önnur tylliástæða Alþfl. og Sósfl. í þessu sambandi er sú, að þeir hafi með þessu samkomulagi við Sjálfstfl. um að fella niður aukna skatta á stórgróðamenn unnið það, að lögð skuli til hliðar þriggja millj. kr. upphæð, sem ganga eigi til alþýðutrygginganna. En helmingur af því fé, sem átti að koma í ríkissjóð samkv. ákvæðum 7. gr. eftir 3. umr. í Nd., átti einmitt að ganga til alþýðutrygginganna. Væri ekki rétt að draga að minnsta kosti þann helming frá þessum þrem millj. kr., þegar þeir eru að tala um það, sem áunnizt hefur með því að fella niður 7. gr.? Og væri ekki rétt fyrir þá að minnast þess, að þeir þurftu ekki að vera í neinum vandræðum með að tryggja þetta fé til alþýðutrygginganna? Ekki stendur á Framsfl. að samþ. það. Og það hefði verið útlátalaust, að einhver hluti af viðreisnarskattinum hefði farið til alþýðutrygginga. Framsfl. hefði aldrei skoðað huga sinn um að samþykkja till. sósíalista. ef það hefði ekki kostað það að fella niður 7. gr. frv., sem þeir fluttu sjálfir með Sjálfstfl. — Þessir menn ættu því ekki að vera að gera sig digra út af þessum Júdasarpeningum, sem þeir eru alltaf að flagga með í sambandi við þetta mál, að þeim hafi nú tekizt að ná í 3 millj. kr. í alþýðutryggingarsjóðinn.

Þá er það 3. tylliástæðan, sem er nú hin skemmtilegasta af öllum, og hún er sú, að skattar eigi ekki heima í dýrtíðarfrv. og þess vegna eigi að taka þá burtu, segja þeir nú. — Ég hef áður rakið það hér, hverju flokkarnir hafa haldið fram um þetta atriði, en það er, að fyrst og fremst ætti að ganga í það að skattleggja stríðsgróðann. Hafa sósíalistar eigi síður en aðrir, — því að það mega þeir eiga. — haldið þessari stefnu mjög á lofti, að fyrst og fremst ætti að leggja skatta á stríðsgróðann. — En hvað skeður svo þegar á á að herða? Þegar svo langt er loksins komið, að dýrtíðarfrv., m.a. um skattlagningu stríðsgróðans, hefur gengið í gegn um aðra d. hv. Alþ. og er komið til hinnar, þá uppgötvast það bara á einni nóttu, að það, sem allt til þeirrar stundar hafði verið talið það sjálfsagðasta til lækkunar á dýrtíðinni, á alls ekki heima í dýrtíðarfrv. og er fellt burtu. — Og ekki tekur betra við, ef athugað er, hvernig þetta ákvæði, sem fellt var burtu, var inn í frv. komið, en það voru tveir sósíalistar, sem gerðir voru út af örkinni með það ákvæði, en í Ed. er það svo fellt af flokksbræðrum þeirra. —

Er hægt að hugsa sér öllu meiri hringlandahátt í meðferð þýðingarmikilla mála, og hvað á þessi leikaraskapur að þýða? — Ég vorkenni þessum vesalings mönnum, sem flokkur þeirra leikur svo grátt, og ég er hissa á, að þeir skuli ekki rísa öndverðir gegn þessu framferði. —

En ef Sósfl. er óánægður með þetta frv., hví flytur hann þá ekki sérstakt frv.? — Nei — það er allt á sömu bókina lært hjá þessum flokki. Hann er nú augsýnilega kominn í svo mikil vandræði með sjálfan sig og athafnir hans svo mótsagnakenndar, að hann getur ekki lengur dulið málefnasvik sín og aumingjaskap. Er þetta hátterni þeirra allt meiri og minni ráðgáta, sem e.t.v. upplýsist síðar. —

Eftir sem áður segjast þó þessir hv. þm. Sósfl. vera brennandi af áhuga fyrir því að skattleggja stríðsgróðann og að það skuli gert á næsta þ. Þetta þ. hefur nú staðið síðan í desember f. á., og í þessa fimm mánuði hafa þeir haft tækifæri til þess að koma þessu áhugamáli sínu í framkvæmd. Eftir allan þennan tíma hafa þeir þó komizt að þeirri niðurstöðu, að nú eigi að Játa til skarar skríða á næsta þ. Við skulum sjá til, hvað setur, en eftir því, sem á undan er gengið, verður maður að álykta, að alllangan tíma þurfi nú til þess að hugsa sig um, þegar til framkvæmdanna á loksins að koma. —

Þessi loddaraleikur sósíalista, sem þeir nú eru að leika í sambandi við þetta mál, er ekkert gamanmál, heldur er hér um að ræða mikið alvörumál fyrir þá, sem veitt hafa þessum þm. brautargengi og umboð sitt á Alþ. —Það getur verið að einstaka þm. skemmti sér að þessu framferði sósíalista hér á hv. Alþ., en kjósendurnir geta ekki hlegið að því. Þeir hlæja ekki að því, er þeir, sem þeir trúðu að mundu vinna samkv. yfirlýsingum sínum, bregðast svo gersamlega þeim málstað, er þeir voru hingað kosnir til þess að flytja. Því er það frá sjónarmiði kjósendanna allt annað en gamanmál, sem hér er á ferðinni. —

Að lokum vil ég benda á eitt atriði, sem sýnir, hversu hyldýpið hjá sósíalistum er mikið á bak við allt þetta. — Við skulum bara segja sem svo, að Alþfl, hefði verið einn um þá afstöðu, sem Sósfl. tekur núna. Hvað hefðu þá þm. Sósfl. sagt? Heyríð þið ekki slagorðin í þeim? Svikin við málstaðinn! Svikin við kjósendur! Undirlægjuháttur! Aumingjaskapur! Þjónusta við Kveldúlfsvaldið ! —

Þessi furðulega afstaða Sósfl. nú mun viðar vekja athygli og almenna undrun heldur en hér á Alþ. Úti um allt land munu menn furða sig á þessu samkomulagi Sósfl. og Kveldúlfsvaldsins um verndun stríðsgróðans í höndum einstakra manna. — Með þessu framferði sínu, hafa þm. Sósfl. sýnt, að ekkert mark er á ummælum þeirra takandi, hversu digurbarkalega sem þeir kunna að mæla. — Þó að þm. Sósfl. brosi nú bara að því, sem þeir eru að leika hér, þá er það eitt víst, að þeir munu ekki gera það, er þessum leik lýkur.