13.04.1943
Neðri deild: 101. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 821 í B-deild Alþingistíðinda. (1055)

140. mál, dýrtíðarráðstafanir

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. — Það væri rétt að rekja hér sögu frv., sem nú liggur fyrir til umr., einkum þó eftir að það var afgreitt frá þessari hv. d. fjhn. d. var nokkurn veginn sammála, t.d. um tilmælin til alþýðusambandsins og um 3 millj. kr. til atvinnutrygginganna og um skipun mþn. til þess að rannsaka skattamálin, sem skilaði áliti 15. ág. þ. á. — Í fjvn. kom till. frá mér um það, að nýbyggingarsjóðurinn væri undir þjónustu hins opinbera, til þess að tryggja með því, að hann væri einungis notaður til nýbygginga, en lenti ekki í taprekstri útgerðarinnar eða öðru slíku. Enn fremur kom frá mér og fulltrúum Alþfl. í fjhn. till. um, að gert yrði ráð fyrir eignaraukaskattinum miklu hærri, eða um 15 millj. kr. En tími vannst ekki til þess að ganga frá þessu á sómasamlegan hátt, þar sem líka skorti á, að vinstri flokkarnir gætu komizt að samkomulagi á þeim tíma, sem afmarkaður var. Nokkur ágreiningur var um eitt höfuðatriðið, eignaraukaskattinn, hvernig ætti að nota hann. Það virðist mega orðið ganga út frá því sem gefnu, að hvenær sem minnst er á, að nota eigi eitthvað fé handa alþýðu þessa lands til þess að bæta kjör hennar og tryggja framtíð hennar, þá rísi Framsfl. öndverður og berjist með hnúum og hnefum móti öllu slíku. Það stendur ekki á þeim að koma fram með till. um skattaálagningu, en ef eitthvað af aurum á að fara til alþýðunnar, þá skal alltaf barið í borðið. Þess er skemmst að minnast hérna, að hv. þm. Framsfl. steindrápu allir till. um að verja 3 millj. kr. til atvinnutryggingar við afgreiðslu seinustu fjárlaga. Þá stóð Framsfl. sem einn veggur. Allir á móti.

Í sambandi við dýrtíðina er einna mest rætt um og barizt um tvennt, það er annarsvegar, hvernig taka eigi stríðsgróðann, og hins vegar, hvernig eigi að nota hann. Um afstöðu Framsfl. til hins síðarnefnda er þegar kunnugt, eins og ég hef þegar vikið að. Það var þegar séð, að ekki mundi nást samkomulag um 1.–3. kafla frv. eins og stj. gekk frá þeim, og alls ekki um 3. kaflann. Því var horfið að því ráði, eins og hv. frsm. fjhn. þessarar d. skýrði frá í framsöguræðu sinni, að stærstum hluta skattamálanna skyldi slegið á frest. Hvað gerist svo? Tveir sósíalista þm. koma fram með till. um 3 millj. kr. til alþýðutrygginga, sem var sama till. og felld var í vetur. Bæði þessi till. og aðrar till. hv. fjhn. eru samþykktar.

Svo kemur 3. umr. Þá gerist það, að Framsókn skríður saman við Sjálfstfl. hér í d. og gerbreytir því, sem fjhn. hafði lagt til og samþ. var við 2. umr. Og svo er þannig farið með frv., að það verður sem sagt hvorki heilt né hálft fyrir atbeina þessara flokka. sem komu með einar 4–5 skemmdartill., sem fóru þannig með frv.

Í 3. gr. er stj. fyrirskipað að leita samninga við Alþýðusamband Íslands og önnur sambönd launþega um það, er þar greinir, en í gr. eftir 3. umr. sést ljóslega, að þessar samningaumleitanir eiga helzt að víkja og þær á að eyðileggja samkv. því, sem hæstv. fjmrh. sagði, að sýnt væri, að stj. gæti ekki verið að beygja kné sin fyrir hverju verkalýðsfélagi.

Í 5. gr. gátu og þessir tveir flokkar komið sér saman um að bæta inn í atriði, sem mun verða smánarblettur mikill á þessum flokkum í sambandi við þetta mál. — Skilyrðið fyrir því, að 3 millj. kr. gangi í atvinnutryggingarsjóð, á samkv. gr., eins og þeir vildu hafa hana, að vera, að samkomulag náist við stéttasamtökin um kauphækkunina, sem vitað er, að verður ekki svo mikið seni reynt að ná í það samkomulag, hvað þá heldur að það takist. — Ofan á þetta tiltæki þeirra bætist svo það, að í 7. gr. bæta þeir ákvæði um, að þessar 2–3 millj. kr. skulu að jöfnu skiptast milli alþýðutrygginga og raforkusjóðs. — Þó að raforkusjóður muni nú vera búinn að fá 10 millj. kr. samkv. því, sem hæstv. fjmrh. gaf nýlega í skyn, þá á það ekki að nægja til að byrja með, heldur taka peninga honum til viðbótar, peninga, sem miklu meira ríður á, að séu notaðir til breyt. á alþýðutryggingarl. — Þetta voru þá „spekúlasjónir“ þessara manna, sem gerðu frv. allt illt, er þeir gátu. — Við atkvgr. sátu þm. Sósfl. og Alþfl. hjá, og þannig fór það til hv. Ed. En brátt þótti það sýnt, að þar beið frv. enn verri meðferð því að þar þurfti ekki nema hv. þm. S.-Þ. og einn til, og þar með lék það laust í höndum Sjálfstfl., sem gat þá gert við það hvað, sem honum sýndist, því að hversu slæm sem Framsókn er hér í þessari hv. d., þá er hún þó enn verri í hv. Ed.

Svo er hv. 2. þm. S.-M. sendur út af örkinni til þess að gráta krókódílstárum yfir því, að hv. þm. S.-Þ. tókst ekki að gereyðileggja frv. í Ed., og harmar hann það mjög, að Sósfl. og Alþfl. tókst að bjarga því, sem eftir var. — Já, ekki skal mig furða, þó að hv. þm. gráti yfir því. — Það er nú tryggt að 3 millj. kr. ganga til nauðsynlegra breyt. á alþýðutryggingarl. —

Það er ástæðulaust fyrir Framsfl. að vera að harma það, sem honum tókst ekki að eyðileggja í sambandi við þetta mál, og ég get fullvissað þann flokk um, að hann getur, ef hann vill, sýnt hvern hug hann ber til skattamálanna varðandi lækkun dýrtíðarinnar, því að strax á næsta þ. munu Sósfl. og Alþfl. bera fram skattafrv., og þar verður ekki eignaraukaskatturinn 21/2 millj., heldur 15–20 millj. kr., og um leið get ég sagt þeim flokki, að jafnframt verða gerðar kröfur um, að því fé, er fæst, verði varið til þess að tryggja afkomu alþýðunnar í landinu í bráð og lengd, að svo miklu leyti sem nauðsyn krefur.

Hv. 2. þm. S.-M. hefur lýst yfir því, að það muni ekki standa á Framsfl. að vera með slíku. Það er gott að vita, og ég mun síðar minna hann á þessa yfirlýsingu, og ég skora á hann að bæta því við, að það standi ekki á Framsfl. að verja því fé, sem kemur þannig inn, til þess að bæta afkomu almennings í kaupstöðunum, eins og þeir hafa styrkt raforkuveitur í sveitunum með 10 millj. kr. framlagi úr ríkissjóði á einu ári. Það væri æskilegt að fá það greinilega tekið fram við þessa umr., hvort Framsfl. sé reiðubúinn til þess að semja við Alþfl. og Sósfl. um það, til hvers þessu fé skuli varið.

Við höfum orðið þess varir í samningum milli flokka, að þótt það hafi ekki verið nema smáræði, sem Sósfl. hefur farið fram á, þá hefur Framsfl. heldur kosið að láta málin drepast í höndunum á sér en að slaka nokkuð til við verkalýðssamtökin. Það spáir því engu góðu. En sem sagt, Framsfl. mun fá tækifæri til þess að sýna, hvað hann vill gera. Það mun ekki standa á Sósfl. að hafa frumkvæði um að leggja á eignaraukaskatt, en hann mun setja það skilyrði, að mjög ríflegum hluta af honum verði varið til alþýðutrygginga og annarra svipaðra hluta. Það kann að vera, að það verði togstreita um það, til hvers honum skuli varið. Framsfl. er orðinn því vanur eftir 15 ára valdaferil að skipa fyrir um málin, og hann er ekki búinn að átta sig á því, að kröfur verkalýðsins til bættrar lífsafkomu eru orðnar það háar, að ekki verður slakað til gagnvart honum, og ef Framsfl. ekki vill samþ. að láta að þeim, þá verður að leita annarra leiða.

Hv. 2. þm. S.-M. var að tala um það, að það væri nauðsynlegt að rifja upp dýrtíðarmálin. Við erum reiðubúnir til þess. Við erum til með að rifja upp sögu dýrtíðarmálanna, gerðardóminn og yfirlýsingar þessa háttv. þm. um það, sem ráðh., að það væri nauðsynlegt, til þess að hægt væri að framkvæma kaupkúgunarlög hans, að koma á slíku samræmi milli framboðs og eftirspurnar á vinnuafli í landinu, að ekkert atvinnuleysi yrði til í þjóðfélaginu. Við erum reiðubúnir að rifja þetta allt upp, ef þessi hv. þm. álitur það heppilegt, og við erum líka reiðubúnir til þess að rifja upp skattamálin og feril Framsfl. í þeim frá árinu 1939. Líklega gefst enn betra tækifæri til þess á næsta þingi að láta Framsfl. sýna, hvað hann meinar, því að þá verður væntanlega tekin ákvörðun um það, hvernig stríðsgróðanum skuli varið.

Hv. 2. þm. S.-M. talaði um það, að með þeirri breyt., sem Ed. hefði gert á frv., væru skildir eftir í höndum stríðsgróðavaldsins í Rvík, 21/2 millj. kr. En hvað lengi hugsar hann að það verði? Ef t.d. eignaraukaskatturinn verður samþ. á næsta þingi, heldur hann þá, að það verði ekki hægt að ná þessu? Heldur hann, að sjóðirnir verði ekki kyrrir? En það er bara eitt skilyrði, sem við setjum. Verkalýðurinn verður að fá að ráða meiru um það, hvernig þessu fé skuli varið en Framsfl. þykir gott.

Það, sem unnizt hefur við það, sem samþ. var í Ed. eftir skemmdarverk Framsfl. og Sjálfstfl. við 3. umr. hér í Nd., er það, að nú er tryggt að 3 millj. kr. renni til alþýðutrygginganna, í stað þess, að ef skemmdarverkin hefðu fengið að halda áfram í Ed., þá hefði þetta aðeins orðið 1 millj. kr., eða jafnvel alls ekki neitt. Er þetta það, sem alþýðan hefur tapað? Hvað er það? Eru skattarnir tapaðir? Eru möguleikarnir til þess að ná þeim farnir? Nei, þeir eru enn þá til og það í enn ríkara mæli en gert var ráð fyrir í frv.

Hv. 2. þm. S.-M. var svo, eins og til þess að fegra málstað sinn ofurlítið, að reyna að búa til það, sem hann kallaði yfirklórsástæður. Meðal þeirra var sú, að skattarnir væru ekki taldir eiga heima í þessu frv. Það atriði hefur nú verið skýrt svo rækilega, að ég sé ekki ástæðu til þess að endurtaka það, hve mikil fjarstæða þetta er. En hitt er annað, að skattamálin voru illa undirbúin, og því hefur verið lýst yfir, að sett skyldi mþn. í þau mál, sem á að hafa skilað áliti fyrir 15. ágúst n.k., eða á sama tíma og samkomulagsn. í verðlagsmálum landbúnaðarins átti að skila álitinu. Það, sem veldur þessum harmagráti, er það, að Framsfl. hefur með því, sem gerðist í Ed., verið sviptur tækifæri til þess að eyðileggja þetta frv. Nú á að vera með þennan harmagrát út af slíku, og það á að dylja svikin, sem ekki komust fram, með því að bera okkur sósíalistum svik á brýn. Þeir menn eru undarlega gerðir, sem eins og þessi hv. þm. halda því fram, að þeir séu fylgjandi róttækum umbótum, en harma það svo, að 3 millj. kr. skuli veittar til alþýðutrygginga í stað einnar millj. kr. eða alls ekki neins.

En það er mikils virði fyrir alþýðumenn, sem hefur verið skammtað úr hnefa alla tíð, að nú skuli í fyrsta skipti ekki vera níðst á þeim og að þeir skuli nú í fyrsta skipti ekki þurfa að stynja undir oki kúgunarvaldsins. Það er algert nýmæli að ekki skuli fyrst og fremst ráðizt á þá, sem minnst eiga, en í stað þess skuli nú vera samþ. í því dýrtíðarfrv., sem verður afgr. á þessu þingi, að nú skuli þó lagðar fram 3 millj. kr. til þess að stuðla að því, að alþýðunni geti vegnað vel. Þessi umskipti eru fagnaðarefni öllum þeim, sem unna róttækum umbótum, og þeir munu halda áfram á þeirri braut og taka stríðsgróðann til handa alþýðunni í æ stærri og stærri stíl. Framsfl. getur þá sýnt, hvort hann vill standa með þeim, og hann skal ekki þurfa að kvarta undan því, að hann fái ekki tækifæri til þess að gera eitthvað fyrir alþýðuna. En ég gæti trúað því, að hann yrði fyrri til að semja við Sjálfstfl. um að setja ný gerðardómsl. og kaupkúgunarákvæði. Það mun verða höfð gát á slíku. Verkalýðsstéttin er ekki lengur í þeirri aðstöðu að þurfa að beygja sig fyrir öllu því, sem Framsfl. kann að dengja yfir hana, og hún mun halda áfram að knýja fram umbætur sér til handa á kostnað hátekjumannanna.

Það líða ef til vill ekki margar vikur, þar til Framsfl. fær tækifæri til þess að sýna, hvernig hann vill standa við þær yfirlýsingar, sem hv. 2. þm. S.-M. gaf hér áðan. En þegar á hólminn er komið, er ég hræddur um, að það fari öðruvísi, að þeir, sem þykjast róttækastir, sitji hjá, meðan hv. þm. S.-Þ. hefur forustuna og stefnir með þá beint í faðm afturhaldsins.