13.04.1943
Neðri deild: 101. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 825 í B-deild Alþingistíðinda. (1058)

140. mál, dýrtíðarráðstafanir

Frsm. (Ásgeir Ásgeirsson):

Herra forseti. — Það mætti ætla, eftir þeim umr., sem hafa farið hér fram í kvöld, að fulltrúar Framsfl. hefðu verið á móti brtt. fjhn. og brtt. ríkisstjórnarinnar og á móti frv. yfirleitt frá upphafi.

Hv. 2. þm. N.-M. sagði núna, að það væri ekkert annað gert til þess að lækka dýrtíðina en það, sem væri á kostnað bænda, en ég hef þó ekki orðið var við neinar brtt. til lagfæringar á því. Í fjhn. tókum við fullt tillit til þeirra, sem þar töldu sig fulltrúa bændanna og þar átti Framsfl. fulltrúa, sem var samþykkur brtt. n., en nú er svo að heyra frá þeim flokki sem ekkert tillit hafi verið tekið til bænda. Það var nú svo, að í fjhn. urðum við að taka mörg tillit, og það var sérstaklega eitt, sem við tókum tillit til viðvíkjandi bændum, en það var það, að þeir fengju ekki minna fyrir kjöt og mjólk en vísitala hvers tíma segði til. Ég varð ekki var við annað en fulltrúar bænda í fjhn. væru þar sammála okkur hinum, sem erum ekki eingöngu bændafulltrúar.

Nú er mikið um það rætt, hvort eigi að taka varasjóðsréttindin af hlutafélögum og samvinnufélögum eða ekki. Þetta var samningsatriði í fjhn. en hefur nú verið gert að deiluatriði, og nú virðist það vera aðalatriði, en það var litið rætt í n., og n. taldi, að till. ríkisstj. um þetta væru illa undirbúnar og að heppilegra væri að þessi mál væru rannsökuð af n. Ég varð ekki var við neinn ágreining um þetta, fyrr en málið kom hér út í d. Og um hvað er deilt? Um það, hvernig eigi að ráðstafa 2 millj. kr., sem sumir halda fram, að séu tapaðar, ef þær verða ekki teknar nú þegar. Nei, þetta fé liggur áfram í varasjóðum fyrirtækjanna. Þetta um varasjóðina er nú gert að aðalatriði, en ekki hitt þótt frestað sé að leggja skatt á hæsta stríðsgróðann, en um það hefur Framsfl. ekki borið fram neina till. Það er höfuðatriði, en það er ekki tekið fyrir, heldur er þessi hundaþúfa valin til þess að klifra upp á og gera hávaða og reyna að vekja sundrung. Þetta getur aldrei orðið neitt höfuðatriði, en hitt er höfuðatriði, að settar verði reglur um varasjóðina og að þær reglur verði varanlegar, en til þess þurfa þær að vera betur undirbúnar en gert hefur verið. Ég sé ekki betur en hér sé verið að blása sig út yfir algeru aukaatriði og með því að koma í veg fyrir það, sem verið var að reyna, en það er að koma á fjögurra flokka samstarfi um tilraun til þess að komast að niðurstöðu um það höfuðatriði að koma vísitölunni eitthvað niður. En til þess að koma slíku samstarfi á þarf að taka tillit til fleiri en Framsfl. eins. Ég er þeirrar skoðunar, að ef ekki sé tekið tillit til allra, þá séu allar till. til samkomulags og þar með stjfrv. dautt. Og því má ekki taka út úr frv. þau atriði, sem ekki koma beint við höfuðtilgangi frv. og heppilegra er að geyma, til þess að þau geti fengið betri undirbúning? Það má mikið vera, ef þetta litla atriði er ástæða til þess, að sumir hv. þm. geti sagt það, að hér sjái þeir eitthvert hyldýpi spillingarinnar opnast í þinginu.

Þessi höfuðástæða, sem nú er flutt fyrir því, að það hafi mátt til að taka varasjóðina nú þegar til þess að leysa dýrtíðarmálið, var ekki látin gilda, þegar gerðardómslögin voru í gildi. Engin slík ákvæði voru þar. Þá var hægt að skipta þessu niður í tvenn lög. Ég tel það hafa verið galla á stjfrv. að hafa þetta í einu frv., í stað þess að skipta því niður í tvennt. Það hefði síður valdið truflun. Þetta hefur líka komið greinilega í ljós. Það hefur komið greinilega í ljós, að fjhn. sá rétt, þegar hún komst að þeirri niðurstöðu, að það mundi trufla meðferð málsins í þinginu, ef haldið væri fast við l. kafla stjfrv. á þessu stigi þessara mála, því að allar aðaltruflanir, sem orðið hafa og nú seinast í hv. Ed., stafa einmitt frá því, að þetta tillit var ekki tekið við atkvgr. hér á einum fundi. Frv. hefur spillzt og þær heimildir, sem stj. fær, vegna þessarar meðferðar málsins og vegna þess bardaga, sem hefur komið inn í meðferð þessa máls.

Það er ekki ástæða til að tala mjög mikið um þetta nú á síðustu stundu. Það hefur nú verið hafin herferð, sem kemur manni alveg að óvörum, eins og þessar ræður, sem haldnar hafa verið hér við eina umr. í Nd. En ég hefði búizt við því, og ýmsir aðrir þm., að hægt hefði verið að hafa samkomulag í þessu máli, úr því sem komið var, þannig að það gæti verið nokkurs konar fjögurra flokka samkomulag um þetta mál. En skilyrðið fyrir því, að hægt væri að koma slíku á, var það, að enginn einn flokkur stofnaði til samkeppni við aðra flokka í þessu máli. Mér finnst undarlegt, að samvinnumenn virðast nú við þessa umr. vera þeir, sem einna sterktrúaðastir séu á skefjalausa samkeppni í íslenzkum stjórnmálum.