18.12.1942
Efri deild: 19. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 877 í B-deild Alþingistíðinda. (1303)

59. mál, þingfararkaup alþingismanna

Gísli Jónsson:

Herra forseti. — Ég skal vera stuttorður um þetta mál. Mér finnst ekki nema sanngjarnt, að einhver úr hópi þeirra þm., sem eiga heima í Rvík, láti til sín heyra um þetta frv. Ég vil leyfa mér að lýsa yfir, að ég er frv. fylgjandi og vil, að það sé tekið til rækilegrar athugunar, því að mér finnst í því felast mjög sanngjörn krafa frá þeim, sem koma utan af landsbyggðinni.

Ég vil skjóta því til þeirrar n., sem fær málið, að hún taki til athugunar, hvort ekki sé hægt, a.m.k. þar til öðruvísi verður ákveðið, að forsætisráðherrabústaðurinn verði að einhverju leyti tekinn til þessara þarfa. Það hefur verið skipt um forsrh., þó að hann hafi ekki skipt um bústað, og fyrrv. forsrh. flutti aldrei í bústaðinn, en ég skal ekki segja, hvort núv. forsrh. gerir það. Það mun hafa verið meiningin á sínum tíma að. tryggja forsrh. bústað, þar sem verið gætu veizluhöld stöðu hans vegna. Mér finnst athugunarvert, hvort ekki má samræma þetta, að nota forsætisráðherrahúsið til veizluhalda, sem koma við embætti ráðherrans, en nota húsið uppi sem nokkurs konar íbúð fyrir alþm. utan af landi, sem gætu þá ef til vill einnig fengið nokkra aðhlynningu á þessum sama stað. Ég vil skjóta þessu til n., hvort ekki mætti samrýma þetta, þar til teknar væru ákvarðanir um byggingu þingmannabústaðar.