11.01.1943
Efri deild: 28. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 912 í B-deild Alþingistíðinda. (1453)

12. mál, orlof

Frsm. (Guðmundur Í. Guðmundsson):

Herra forseti. — Allshn. hefur athugað þetta frv. og samþ. að leggja til, að frv. verði samþ. eins og það liggur fyrir, þó þannig, að gerðar verði á því tvær breyt. Fyrri breyt. við 4. gr. 4. málsgr. er aðeins leiðrétting á setningaskipun, sem hafði ruglazt ofurlítið. Hin. breyt., sem n. leggur til, að gerð verði á 9. gr., er efnisbreyt. Samkv. 9. gr. er gert ráð fyrir því, að orlof skuli veitt í einu lagi á tímabilinu 1. júní til 15. sept. Þó er gerð sú undantekning frá þessu, að ráðh. sé heimilt með reglugerð að víkja frá þessum ákvæðum, ef nauðsynlegt þykir að því er snertir sérstakar starfsgreinar. Nú hefur n. orðið sammála um, að hjá a.m.k. tveim atvinnugreinum, þ.e. síldarútveginum og landbúnaðinum, sé nauðsynlegt að binda ekki orlof við þetta umrædda tímabil, þar sem það sé nokkurn veginn óframkvæmanlegt fyrir þessar atvinnugreinar að veita orlof á þessu tímabili. N. er því sammála um, að taka skuli upp í 9. gr. frv. ákvæði um, að ráðh. skuli setja reglugerð um að veita þeim mönnum, sem vinna við þessar atvinnugreinar, orlof á öðrum tímum árs. Fyrra undantekningarákvæðið stendur þó óhaggað eftir sem áður, ef það skyldi koma í ljós, að nauðsynlegt væri fyrir fleiri starfsgr. að víkja frá ákvæðum þeim, sem sett eru í 1. málsgr. 9. gr. frv. Með þessum breyt. hafa nm. orðið sammála um að samþykkja frv. Allir nm. hafa þó áskilið sér rétt til þess að flytja frekari brtt. við frv., og einn þeirra (HermJ) áskilur sér rétt til þess, að fylgi hans við frv. verði undir því komið, hvernig brtt. hans verði tekið.

Póst- og símamálastjórnin hefur óskað að ræða þetta frv. í einstökum atriðum með það fyrir augum að fá gerðar á því nokkrar breyt. Ég hef nú í gærkvöldi og morgun rætt nokkuð við póst- og símamálastj. um þessi atriði, en mér hefur ekki enn unnizt tími til þess að skýra meðnm. mínum frá þessu, en ef frv. verður samþ. til 3. umr., mun ég að sjálfsögðu skýra þeim frá því, áður en frv. kemur til 3. umr. En ég vil taka það fram, að allar aths. póst- og símamálastj. eru mjög smávægilegar, og skilst mér, að það mætti að mestu leyti koma þeim fram með reglugerð.

Þá vil ég aðeins minnast á brtt. þá, sem hv. þm. Barð. hefur borið fram við 16. gr. frv. Hún kom fram, eftir að allshn. hafði athugað frv., en þetta atriði var rætt í n., en þó ekki tekin nein afstaða til þess. Mér virðist þó hugur nm. hníga í þá átt, að ekki væri rétt að takmarka ákvæði 16. gr. frekar en gert er í frv. Þessi gr. gerir ráð fyrir því, að mönnum sé heimilt að vinna fyrir kaupi í öðrum starfsgreinum en þeirri, sem þeir taka orlof í. Orlof getur komið að fullum notum, þótt menn vinni að öðrum starfsgreinum í orlofi sínu. Orlof skrifstofumanna t.d. gæti komið að góðum notum, þótt þeir ynnu að landbúnaði í sumarleyfi sínu. Einmitt með þetta fyrir augum tel ég enga ástæðu til þess að breyta 16. gr. frv.

Ég ætla svo ekki að orðlengja þetta meira, en legg til að frv. verði samþ. til 3. umr.