04.02.1943
Efri deild: 47. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 962 í B-deild Alþingistíðinda. (1599)

131. mál, útsvarsinnheimta 1943

Flm. (Bjarni Benediktsson):

Ég held, að hv. síðasti ræðum. lifi í einhverjum annarlegum heimi. Hann fullyrðir hér, að allir húseigendur (GJ: Ég sagði húsráðendur) bæru ábyrgð á sköttum þess fólks, er búa í húsum þeirra. Það getur verið, að hann sé að hugsa um einhverja slíka till., en ég kannast ekki við, að neitt slíkt sé í gildi nú.

Af sama skilningi voru hin önnur hvatvíslegu urð hans töluð hér áðan, og þarf ég ekki að vera að eltast við öll einstök atriði í þeim.

Hér er hvorki staður né stund til þess að ræða um fjármálastj. Reykjavíkurbæjar, og ætti ekki að þurfa að blanda henni inn í deilur hér.

Ég vil aðeins leyfa mér að benda á, að allar aðrar sveitarstj. hafa hækkað sveitargjöld sín vegna verðbólgunnar síðari hluta ársins, sem gerir það að verkum, að verk, sem þá kostaði 1 kr., kostar nú 2 kr. — Það er almennur misskilningur, sem víða kemur fram og meðal annars nú áðan hjá hv. þm. Barð., sem sýnir, að hann er ekki kunnugur þessum málum, er verið er að ræða, að bæjar- og sveitarfélög séu einhverjir stríðsgróðamenn. Bæjar- og sveitarfélögum er einungis heimilt að innheimta gjöld í sjóði sína sem samsvarar útgjöldum á hverju ári. Þetta er svo gert með því einkum að leggja á útsvör í samræmi við útgjöld áætluð í byrjun hvers árs. Tekjurnar eru því ákveðnar fyrir fram og takmarkaðar, en gjöldin geta tekið stórkostlegar sveiflur á árinu. Hjá ríkinu fara tekjur eigi síður fram úr áætlun en gjöld. Hjá sveitarsjóðum eru það gjöldin ein, sem verulega geta hækkað, en tekjurnar standa í stað.

Á síðast liðnu ári fór á þennan veg. Tekjurnar stóðu í stað, en gjöldin stórhækkuðu.

Það má kannske ásaka bæjarstj. fyrir það að hafa ekki hækkað bæjargjöldin strax og verðbólgan óx, en það er þá líka sú eina léttúð, sem hægt er að ásaka hana um. En bærinn þurfti ekki á því að halda. Hann hafði nóg fé í sjóði til þess að standast útgjöld síðastliðins árs.

En útgjöld sveitarfélaganna verða í ár allt að því helmingi hærri en í fyrra. Það er þess vegna ekki við því að búast að þau hafi afgangs frá fyrri árum handbært fé til þess að standast útgjöldin fram yfir mitt ár nú.

Nauðsyn sveitarsjóðanna er því ótvíræð. Og það er fullkomlega rangt að segja að frv. brjóti í bág við hagsmuni gjaldenda. Frv. er ekki sízt nauðsynlegt vegna gjaldendanna sjálfra. Má þá m.a. benda á, að það er engan veginn hagkvæmt fyrir almenning að þurfa, ef stj. tækist að vinna eitthvað á dýrtíðinni með lækkaðri vísitölu, á sínum tíma að greiða háa skatta eftir á til bæjarog sveitarfélaganna. Með tilliti til almennings er það skýlaus nauðsyn, að þessi gjöld séu innheimt jafnóðum.

Það ætti því að vera óþarft að ræða þetta mál frekar frá því sjónarmiði, að hér sé verið að gera almenningi rangt til. Mér þykir leitt, að þessi ímyndaða grýla skuli vera til í huga hv. þm. Barð. varðandi þetta frv., og ég vona, að hann átti sig á þessu, að það er ímyndun tóm, sem ekkert hefur við að styðjast, að hér sé verið að einhverju leyti að ganga á rétt gjaldendanna í landinu.