08.02.1943
Efri deild: 50. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 964 í B-deild Alþingistíðinda. (1604)

131. mál, útsvarsinnheimta 1943

Frsm. (Pétur Magnússon):

Frv. þetta hefur legið fyrir fjhn., og eins og nál. ber með sér, þá hefur n. orðið sammála um að mæla með því. Hv. 1. þm. Eyf. hefur þó e.t.v. einhverja sérstöðu.

Frv. þetta felur í sér það nýmæli, að ætlazt er til, að á yfirstandandi ári verði heimilt að innheimta hluta útsvaranna, áður en þau eru lögð á, eða á tímabilinu frá 1. marz til 1. maí. Í 2. og 3. gr. koma svo nánari ákvæði um innheimtuna.

Fjhn. mælir af tveimur ástæðum með frv. Önnur er sú, að hentugt þykir nú, vegna vaxandi gjalda, að sveitir og bæir geti fengið eitthvað af tekjum þessum, áður en niðurjöfnun er lokið, en í bæjum er henni ekki lokið fyrr en á miðju ári. Bæjarfélögin hafa því mjög litlar tekjur fyrr í helming ársins, nema fasteignagjöld og einhverjar eftirstöðvar útsvara frá fyrra ári. Ef bæjunum er ekki séð fyrir tekjum, þá þurfa þeir að safna skuldum fyrri hluta árs, en á því eru bæði ýmis vandkvæði og kostnaður.

Hin ástæðan er sú, að ekki getur talizt óhyggilegt að dreifa gjöldunum yfir allt árið fyrir gjaldendurna, því að ýmislegt bendir til, að tekjur manna muni e.t.v. fara eitthvað lækkandi þessu ári í krónutölu og muni því ekki betra að geyma að greiða gjöldin, því að flestir eyða tekjum sínum jafnóðum eða binda þær, en leggja ekki fé fyrir í þessu skyni. Fjhn. var því þeirrar skoðunar, að þessi tilhögun kæmi engu síður gjaldendunum í hag, en hún á aðeins að gilda fyrir þetta ár. Þó má vel verða framhald á þessu, ef reynslan mælir með því, en það getur aðeins orðið með nýrri löggjöf. Þess má geta, að ákvæðin í 2. gr. um dráttarvexti eru strangari en í núgildandi l. um útsvör. Þessu er þó ekki ástæða til að breyta. Þvert á máti verður það að standa til að tryggja, að menn greiði þetta á réttum tíma, því að annars væri alveg tilgangslaust að setja þessi l. Að svo mæltu vildi ég leggja til fyrir hönd n., að frv. næði fram að ganga.