22.01.1943
Efri deild: 39. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 998 í B-deild Alþingistíðinda. (1673)

4. mál, áfengislög

Gísli Jónsson:

Ég held, að alþjóð manna sé sammála um, að allt þetta mál í heild sé hið mesta vandræðamál. Frv. það á þskj. 244, sem hér er til umr., gerir lítið til eða frá. Ég vil vekja athygli þeirrar n., sem fær þetta frv. til athugunar, á því, hvort ekki sé ástæða til að endurskoða þessi l. öll. Einkum tel ég mikilvægt, að 19. gr. í 6. kafla þeirra sé framfylgt. Málin verða aldrei löguð með þeirri breyt. einni, er hér um ræðir.

Það kemst aldrei skipan á þessi mál, fyrr en tryggt er, að þeir, sem gæta eiga laganna, hlýði þeim sjálfir. Og eins er um aðra, sem ábyrgð eiga að bera í þjóðfélaginu, t.d. löggjafarþingið, og efast ég ekki um, að á þessu sé stór misbrestur. En þetta frv. er léleg bót á næstum enn þá lélegra fat.

Það þarf miklu heldur að skapa það almenningsálit, koma því inn hjá þjóðinni, að það sé vanvirða og ósómi að því að sjást undir áhrifum víns. T.d. er þetta sérstök skylda skólastjóra og kennara. En meðan þetta er ekki komið inn hjá almenningi, þá er lítið hægt að lagfæra með atkvgr.

Því veit ég ekki, hvort ég greiði atkv. með þessu frv. En ég vil skjóta því til allshn. að athuga, hvort hún geti ekki gert einhverjar róttækari breyt., er að gagni mega koma í þessum efnum, og þá mun ég greiða atkv. með þeim.