04.03.1943
Neðri deild: 71. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 1029 í B-deild Alþingistíðinda. (1745)

33. mál, greiðsla íslenzkra afurða

Ingólfur Jónsson:

Ég hafði eigi ætlað að taka til máls, en till. frá hv. 1. þm. Árn. gefur mér tilefni til þess. Hún fjallar um meðferð á þeim vörum, sem kaupmenn og kaupfélög taka í umboðssölu og þessir aðilar og viðskiptamenn mega sjálfir ráða verði á. Býst ég við, að mörgum þyki hart, að settar séu reglur, sem heimila að taka vöruna með valdboði og láta segja sér, að svona skuli menn hafa það og ekki öðruvísi, en ekki eins og viðkomendum þykir heppilegast. Hv. þm. A.-Húnv. talaði um, að félagsmenn gætu sjálfir ráðið miklu hér um. Skal það látið ósagt, en félagsmenn kjósa fulltrúa.

Ég tel rétt, að samningsrétturinn sé ekki tekinn af þessum aðilum. Það, sem menn verða að gera sér ljóst, er, að þær vörur, sem oft eru teknar í umboðssölu, liggja oft árum saman, t.d. nú ull, sem er tveggja ára og kannske ekki seljanleg. Ef þeir, sem liggja með slíka vöru, væru skyldaðir til að greiða hana, þá mundi það koma þungt niður á félagsmönnum sjálfum.

Talað hefur verið um, að kaupfélög, rekin í sveitum, ættu að koma á kontant verzlun, og tel ég það rétt þar, sem hægt er að koma því á. Gæti það t.d. verið nauðsynlegt fyrir bændur, sem hafa lausaverzlun og gera upp eftir fyrri hluta árs.

En það er ætlun mín, að ef samningarétturinn yrði tekinn af þessum fyrr nefndu aðilum með lögum, mundi mörgum kotbóndanum þykja þröngt fyrir dyrum.