09.02.1943
Efri deild: 51. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 1068 í B-deild Alþingistíðinda. (1799)

16. mál, fiskveiðasjóður Íslands

Frsm. (Gísli Jónsson):

Eins og hv. 1. þm. S.-M. lýsti, voru allar brtt. teknar aftur til 3. umr., til þess að reyna að fá samkomulag um þetta mál á milli flokkanna og enn fremur milli sjútvn. beggja d. Það var haldinn fundur með sjútvn. hv. Nd. um málið, og það kom fram frá meiri hl. þeirrar n., m.a. frá formanni n., sterk andstaða gegn því að breyta frv. í það horf, sem sjútvn. Ed. vildi vera láta. Ég finn mig knúinn til að lýsa því hér, að ég hefði sjálfur viljað breyta frv. í það horf, sem hv. 1. þm. S.-M. leggur til, með því að ég tel það miklu viturlegra. Og að ég fyIgi ekki brtt. hans hér í þessari hv. d., stafar eingöngu af því, að mikill meiri hluti þeirra manna, sem standa utan um þetta mál í báðum d., bera það fram og halda fast við það, að með því að samþ. brtt. hv. 1. þm. S.-M. sé málið í raun og veru drepið hér í hv. Ed. Það er eina ástæðan fyrir því, að ég vil ekki fylgja brtt. eins og hún er komin fram frá hv. 1. þm. S.-M.

Á sama hátt fullvissa þeir um og bera á því ábyrgð, að frv. gangi fram með þeirri breyt., sem lagt er til á þskj. 326 frá sjútvn., en það er skilyrði mitt fyrir samþykki við frv., að sú brtt. gangi fram. Verði hún felld, greiði ég atkv. gegn frv., hvernig sem um málið fer á eftir. Tekið skal fram til að fyrirbyggja misskilning, að verði brtt. á þskj. 327 samþ. og féð ekki veitt sem styrkur, er brtt. á þskj. 326 þar með úr sögunni. Þó að nú verði samþ. styrkjaleiðin, mun ekki líða lengra en til næsta þings, áður en þetta mál verður tekið upp aftur. Þó að mönnum sýnist rétt að verja þessum 2 millj. svona, hafa menn varla áttað sig á því, að hér er verið að útbýta 1/3 útflutningsgjaldsins um aldur og ævi. Það verða gerðar sterkar tilraunir til að fá því breytt.

Ég tel mig þá hafa skýrt þau atriði þessa máls, sem hv. 1. þm. S.-M. ræddi um.