17.03.1943
Efri deild: 74. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 1123 í B-deild Alþingistíðinda. (1945)

126. mál, verzlun með kartöflur o.fl.

Frsm. (Páll Hermannsson):

Það er ekki rétt álitið hjá hv. þm. Barð., að forstjóri Græntmetisverzlunarinnar hafi sérstaka tilhneigingu til þess að brjóta niður l. um verðlag. En landbn. álítur, að það mundi draga dilk á eftir sér, ef kartöflur yrðu seldar með tvenns konar verði.

Landbn. hefur fylgzt með því, hvernig ýtt hefur verið undir landbúnaðarframleiðsluna, og fátt hefur komið Íslendingum betur í þessari styrjöld heldur en það, á hvaða stig þeir eru búnir að koma ræktun garðávaxta, og þá sérstaklega að því, er snertir kartöflurnar. Þetta vill n. og forstjóri Grænmetisverzlunarinnar ekki, að gangi til baka. Ég játa, að það er ósamræmi í orðalagi þessa frv., en landbn. álítur, að það mundi ekki verða til bóta að fara að breyta hér um, og mun fylgja frv. eins og það er. Hún álitur það aðalatriðið, að kartöfluframleiðslunni og kartöflusölunni í landinu, verði komið í sæmilegt horf eins og reynt er að gera með þessu frv. Ég held því, að það sé varhugavert að reyna að bregða fæti fyrir frv. Þó að á því kunni að vera agnúar, hefur það mikla kosti, og það mun sýna sig, að það sé verulega gagnlegt, þegar fram í sækir.