19.12.1942
Neðri deild: 22. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 65 í B-deild Alþingistíðinda. (200)

85. mál, dómnefnd í verðlagsmálum

Einar Olgeirsson:

Ég þakka hæstv. fjmrh., að svo miklu leyti sem hann hefur svarað þeim fyrirspurnum, sem ég lagði fram. Það er samt ljóst, að ríkisstj. hefur ekki gert sér grein fyrir því, hvaða afleiðingar ráðstafanir hennar kunna að hafa. En ég álít nauðsynlegt, að hún geri sér strax grein fyrir því, til þess að vera reiðubúin að grípa til gagnráðstafana, ef á þarf að halda. Ég skil ekki í því, að hugsunarháttur iðnrekenda, sem undanfarið hafa grætt mjög mikið, hafi tekið eða taki miklum breytingum við þetta frumvarp. Þótt hv. fjmrh. álíti, að þeir muni fúsir til að taka á sig þá byrði, sem þessi lög kunna að leggja á þá, þá er það engin trygging fyrir því, að þeir álíti það líka. Það getur komið fyrir, að þeir telji það ekki sjálfsagt og grípi til þess valds, sem þeir hafa til að stöðva iðnreksturinn eða fara í kringum lögin. Sá, sem stundar t.d. vélavíðgerð, getur sagt: „Ég geri það ekki, nema þú borgir mér svo og svo mikið“. (ÓTh: Er það þetta, sem er kallað smáskæruhernaður?) Já, atvinnurekendur hafa þekkt hann líka. Ég álít, að það þurfi að gera sér ljóst fyrir fram, að það kann að koma til slíkra aðgerða, og þá þarf stjórnin að vera búin að ráða við sig, hvaða vopnum á að beita gegn slíku. Ég get skilið, að ríkisstj. hefur ekki nú þegar hugsað svo langt, en til að stöðva dýrtíðina þarf að vera mögulegt að fylgja lögunum eftir til þess, að þeir, sem eiga framleiðslutæki og vilja ekki nota þau undir svona kringumstæðum, geti ekki sett stjórninni stólinn fyrir dyrnar. Það kemur kannske ekki til þess á þessum tveimur mánuðum, en það getur komið fyrir, þegar fram í sækir.