04.03.1943
Neðri deild: 71. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 1171 í B-deild Alþingistíðinda. (2029)

51. mál, virkjun Fljótaár

Sigurður Kristjánsson:

Herra forseti. — Það er örstutt aths. — Það hefur verið mikið talað um það hér, að það eigi að brjóta hér algilda reglu, ef Siglufjarðarkaupstaður fær ábyrgð, sem nemur 100% stofnkostnaðar þessa mannvirkis. En ég man fyrst eftir, að þessi afföll komu til mála, þegar um hitaveitu Rvíkur var rætt, þá var ábyrgðin 90% stofnkostnaðar. En ég held, að ríkið hafi gengið í ábyrgð fyrir Sogsvirkjuninni að fullu. Annars ætla ég ekki að lengja umr. um þetta. En ég sé ekki, að það sé nein varúðarráðstöfun að fara að fella 15% af ábyrgðinni. Ég held, að það sé sama sem að setja fót fyrir fyrirtækið.