18.03.1943
Efri deild: 76. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 1226 í B-deild Alþingistíðinda. (2174)

111. mál, rithöfundarréttur og prentréttur

Magnús Jónsson:

Ég get stytt mál mitt vegna þess, að hv. 6. þm. Reykv. hefur sagt margt af því, sem ég hafði hugsað mér að vekja athygli á. En það eru náttúrlega engin rök með nokkurri lagasetningu að segja, að hægt sé að breyta því, sem áfátt kann að vera í löggjöfinni. Það er svo um alla löggjöf. Og ef vitað er, að vel vönduð og undirbúin löggjöf um eitthvert efni er á döfinni og vonandi á næstu grösum, þá er engin meining, ef ekki liggur líf við, að vera að setja um sama efni ófullkomnari löggjöf, til þess svo að breyta henni með hinni, sem þá er í undirbúningi. Og það eru engar líkur til þess, að þessi l., þó að frv. þetta yrði samþ., yrðu framkvæmd á undan hinni löggjöfinni, sem verið er að undirbúa um þetta sama efni. Það er sem sé í 3. gr. frv. ekki aðeins tekið fram, að ríkisstj. skuli setja reglugerð samkvæmt ákveðinni parti af þessari löggjöf, heldur koma þessi lög ekki til framkvæmda fyrr en þær reglur hafa verið settar. Og mér þykir ekki hugsanlegt, að ríkisstj., sem ætlar að sinna þessu og vissi, að verið væri að undirbúa löggjöf um það, sem ætti að leggja fyrir næsta þing, mundi setja reglugerð um málið fyrr en l. nm þetta efni eru orðin eins og þau eiga að vera til frambúðar. Mér virðist það því þýðingarlaust að leggja kapp á að fá þetta frv. fram nú. Menn vilja gjarnan hafa sitt mál fram. En mér finnst kenna hér dálítils ofurkapps, þegar þeir menn, sem eru fullkomlega samþykkir þeirri hugsun, sem á að ná með frv., setja sig á móti því, að málið komi fram í þingið vel undirbúið og lenda í deilum út af þessu frv.

Það má segja, að það sé trygging í því, að lagaprófessor og hæstaréttarmálaflm. eru flm. frv. En það liggur ekki fyrir, hvaða rannsókn þeir hafa lagt í þetta mál. Þeir hafa fengið þetta frv. í hendur sjálfsagt að mestu undirbúið af Bandalagi íslenzkra listamanna, og það liggur ekkert fyrir um, að þeir hv. þm. hafi gefið því sjálfstæða rannsókn, þó að þeir hafi litið á það. Hér er fyrrv. prófessor í lögum, sem sá annmarka á þessu frv. Og hvað eigum við hinir að gera, þegar þeir, sem eru prófessorar í lögum, eru ekki sammála um þetta?

Mér brá nokkuð, þegar fyrir nokkrum dögum kom maður til mín úr karlakór, og ég held úr stjórn félags þeirra, og bað mig um vernd gegn þessu frv. Ég kom alveg af fjöllum og sagði: Er þetta ekki eftir ósk ykkar? Nei, sagði hann, við erum ekki hér með. Tónlistarmenn eru ekki sama og karlakórar, þetta frv. er háskalegt fyrir okkur, ef samþ. verður. — Nú skal ég ekki segja nema þetta komi þannig niður á fleirum, ef það verður samþ. Og mér kom þetta mjög undarlega fyrir sjónir. Eins og menn vita, eru tónlistarmenn grein á Bandalagi íslenzkra listamanna. En karlakórar, sem eru fjölmennir og einhver líflegasta listagrein, sem til er á Íslandi, eru svo settir, að þetta frv., ef samþ. verður, mun ganga út yfir þá listgrein. Og ég vil láta taka tillit til þeirra, sem ekki eru listamenn, en halda listamönnunum uppi.

Það er sjálfsagt, að lögfræðingar geti kannske skorið úr þessu. En mér virðist b-liður 1. gr. vera ákaflega stíft orðaður, eins og hv. 6. þm. Reykv. minntist á. Ég skil ekki þann eignarrétt, ef ég má ekki láta taka mynd af listaverki. T.d. mætti ég víst ekki láta taka mynd af konunni minni, ef hún sæti nálægt þeim stað í húsi mínu, þar sem líkneski væri, nema með sérstöku leyfi eða með því að taka líkneskið burtu. Mér finnst öfgar í þessu. Mér finnst eðlilegt, að ekki mætti gera þetta í gróða skyni. Og mér finnst sanngjarnt, að ég mætti ekki lála taka mynd af listaverki og láta myndprenta hana og dreifa út vítt og breitt. Bæði gæti það skaðað listamanninn, ef ég léti gera þetta illa, og það gæti orðið til af bökunar og óvirðingar fyrir hann, ef ég léti búa til einhverja ómynd af listaverki hans og léti dreifa út. En mér finnst það ganga fulllangt að samþ. ákvæði frv. og vil a.m.k., að það sé prófað að bíða eftir hinu frv.

Það hefur verið talað um, að það væri nokkuð hart að mega ekki undir neinum kringumstæðum sýna opinberlega listaverk nema með sérstöku leyfi. En hvað liggur í þessu, að listamaður hefur eignarrétt á því, sem hann hefur gert, og getur sýnt það, sem hann hefur gert? Getur hann tekið það, sem er í annars manns eigu, og sýnt það? Það er sennilega ekki, að það sé litið svo á þetta ákvæði. En eftir orðalaginu getur stappað nærri því., að hann geti heimtað aftur mynd, sem hann hefur gert, til þess að sýna hana.

Ég skal ekki fjölyrða um þetta frekar. En mér sýnist það ákaflega einföld og eðlileg afgreiðsla á málinu að bíða eftir hinu væntanlega frv. um þetta efni, sem yrði þá betur undirbúið en þetta frv. er nú, og ég er undrandi yfir því, að ekki skuli allir geta fallizt á þetta. Mér virðist ekki gerandi leikur að því að setja þessi l., sem hér er stefnt að, til þess svo að fara að breyta þeim aftur kannske um leið og þau koma í gildi. Það er stundum talað um, að Alþ. breyti nokkuð fljótt l. sínum, og í þessu efni er að mér virðist óþarft svo að segja að ákveða slíkt fyrirfram, að þessum h skuli breytt fljótlega. Er þá betra að bíða.