09.12.1942
Efri deild: 11. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 1240 í B-deild Alþingistíðinda. (2215)

37. mál, lögsagnarumdæmi Reykjavíkur

Flm. (Bjarni Benediktsson):

Það er dálítið erfitt að ræða mál við þm., sem hvorki hafa séð frv. eða grg. þess. En það kom fram í ummælum hv. þm. Str. (HermJ), að hann hafði hvorugt gert, enda lýsti hann yfir, að hann hefði ekki séð frv. Þessi atriði, sem hann spurði um, eru upplýst í grg. frv. Hann hefur ta'kif æri til þess að lesa frv., þegar það kemur til n., og efast ég ekki um, að hann taki þá vitneskju, sem þar kemur fram, til fullkominnar athugunar á vinsamlegan hátt.

Aths. hans hvíldu gersamlega á misskilningi. Það er alls ekki boðið í þessu frv., að Reykjavíkurbær eigi nú þegar að taka Grafarholt eignarnámi, heldur er aðeins farið fram á, að bærinn fái heimild til þess að taka það eignarnámi. Sú heimild verður þá að sjálfsögðu ekki notuð fyrr en Reykjavíkurbær telur hagkvæmt að gera það. Það er ekki nýjung í l., að heimild til eignarnáms standi mörg ár áður en hún er notuð.

En ef hv. þm. Str. vill forðast aukna verðbólgu, næði það náttúrlega ekki nokkurri átt að ganga að því samningstilboði, sem kom fram og getið er um í grg. frv. og þar er tekið upp, vegna þess að það verð, sem Reykjavíkurbæ er boðið Grafarholt fyrir, er að áliti þeirra manna, sem fara með mál þetta fyrir bæjarins hönd, langt úr hófi fram. En auðvitað skal ég ekkert segja um, hvað matsmenn mundu segja um það. Ég skal heldur ekki rekja þetta frekar hér, en ég hygg, að um þetta atriði málsins verði ekki skiptar skoðanir. Þetta verð er a.m.k. margfalt hærra en bærinn hefur á þessu ári keypt alveg samsvarandi eignir fyrir. Svo að ef ætti að forðast aukna verðbólgu, sem hæpið er, að einstök jarðakaup hafi mikil áhrif á, en að sjálfsögðu á að taka tillit til, þá var því tilboði, sem getið er í grg. frv., sjálfhafnað, því að það var svo langt fram úr því, sem mönnum hefur fram að þessu komið í hug að gjalda fyrir jarðir í nágrenni bæjarins. Hv. þm. þurfti því ekki að spyrja, hvort tilboðið hafi komið fram. Í grg. er það berum orðum tekið upp. En því var sem sagt hafnað af þeim sökum fyrst og fremst, að verðið, sem þar var rætt um, fór svo mjög fjarri því, sem Reykjavíkurbær gat hugsað sér að ganga inn á. Og það var ljóst, að þetta verð var ekki nefnt út í bláinn, heldur vegna þess, að eigandi Grafarholts taldi, að hann hefði raunverulegt kauptilboð í jörðina með þessu verði. Af þessu var ljóst, að frekari samningstilraunir voru þýðingarlausar. Enn fremur átti samkv. tilboðinu svo mjög að skerða það landrými, sem bærinn taldi sér þörf á að fá undir lögsögu sína og í umdæmi, að ekki þótti aðgengilegt.

Ég efast ekki um það, að þetta, sem í frv. er farið fram á, komi í framkvæmd að vissu leyti illa við þann eða þá hreppa, sem hér eiga hlut að máli. Fram hjá því verður ekki gengið. En þegar þess er gætt, að verðmæti þessara jarða er algerlega háð afkomu Reykjavíkurbæjar og velmegun bæjarins, — því að verðmæti jarðanna, sem liggja nærri Rvík, er að því leyti sem það er meira en annarra með sömu landgæði, eingöngu af því, að þær eru nærri bænum, — þá sýnist ekki óeðlilegt, að Rvík fái lágmark þess, sem telja má fólki hennar til velsældar nauðsynlegt í framtíðinni.

Það er rétt, að eftir þeim till., sem í frv. eru, verða tveir hólmar inni í lögsagnarumdæmi Rvíkur, sem tilheyra ekki lögsagnarumdæminu. Ég játa fyllilega, að að vissu leyti er það óviðkunnanlegt. Og ef hlutaðeigandi hreppur óskar eftir, að þessir hólmar verði lagðir undir lögsagnarumdæmi Rvíkur, þá er síður en svo, að Rvík hafi nokkuð á móti því. En að þeir voru skildir eftir var af því að það var vitað, að bærinn mundi ekki geta orðið eigandi þeirra í náinni framtíð, og það var ekki talin sérstök nauðsyn, að bærinn yrði eigandi þeirra. Þau eru heldur ekki ríkiseign, heldur í einkaeign. Þess vegna þótti ekki ástæða til að ásælast þessi lönd að svo stöddu. En ef hreppurinn telur þetta svæði betur komið hjá bænum, mun bærinn sízt hafa á móti því. En þó að þessi takmörk séu óviðkunnanleg, þá er þetta engin nýjung í l. Seltjarnarneshreppur er í mörgum slíkum eyjum, sumpart umflotinn sjó og sumpart umkringdur af landi Rvíkur. Hefur ekki komið í ljós annað en hreppsnefnd þess hrepps uni því vel. Áður fyrr var um nokkur ár nokkur hluti jarðanna Ártúns og Árbæjar í lögsagnarumdæmi Rvíkur, og var þá sá hluti Rvíkur að því leyti eyjar innan Seltjarnarneshrepps. Hér er því ekki um neina nýjung að ræða, heldur hefur það verið og er enn, að slíkar eyjar hafa átt sér stað innan lögsagnarumdæmis Rvíkur og annarra sveitarfélaga.

Að öðru leyti vil ég taka það fram, að ég tel sjálfsagt, ef frv. kemst til allshn., að það verði þá sent frá þeirri n. til umsagnar hlutaðeigandi hreppsn. og sýslun., og geri ég það að till. minni.

Ég get upplýst vegna fyrirspurna hv. landsk. þm., sem hér talaði, að hæstv. forsrh. hefur hvað eftir annað átt tal við mig um þetta mál og lagt fast að mér, að Rvík seildist þar ekki eftir meira en henni er bráðnauðsynlegt. Ég get einnig skýrt frá því, að eftir undirlagi hæstv. forsrh. hef ég allt frá því í sumar átt umræður um málið við hv. þm. Mýr. (BÁ), sem er eins konar fulltrúi hreppsins í þessu efni, enda þar búsettur —, þótt þær hafi til lítils orðið, og bæði af hvatningu hæstv. forsrh. og eigin hvötum hef ég lagt mikla stund á að ná samkomulagi. En undirtektir þessa hv. þm. og eigenda Grafarholts gerðu mér ljóst, að um samningagrundvöll var ekki að ræða. Ef hreppsnefndirnar hafa önnur boð, þegar umsagnar þeirra verður leitað, skal ég beita mér fyrir, að þau verði athuguð af sanngirni. En af bæjarins hálfu held ég ekki hafi skort á samningsvilja. Sú sáttatilraun, sem þm. spurði um, hefur því verið gerð; en því miður án árangurs. Vera má, að hreppabreytingar innan Kjósarsýslu verði nauðsynlegar, ef frv. nær fram að ganga, en það geta hrepparnir gert með samþykki sýslunefndar, án þess að til atbeina Alþ. þurfi að koma. Loks skal á það minnzt, að í ræktunarl. er heimild fyrir kaupstaði að taka land í nágrenni sínu eignarnámi, ef það er nauðsynlegt til ræktunar. Hér er því ekki um neitt nýmæli að ræða. Umsögn Búnaðarfélags Íslands þarf þar að vísu að koma til, og veit ég þó ekki, hvernig núv. form. þess mundi taka undir þetta mál. Hann (BÁ) er aðili öðrum megin í þessu máli.

Ég er að sjálfsögðu fús að fallast á þær brtt., sem vit er í, og sama veit ég, að er vilji meðflm. í máli þessu. Hingað til hef ég miklu fremur orðið fyrir aðkasti, vegna þess að frv. gangi of skammt. Nú er sagt, að það gangi allt of langt, og kynni þetta að benda til, að hér hafi verið allvel ratað meðalhófið.