07.01.1943
Efri deild: 26. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 55 í C-deild Alþingistíðinda. (2514)

23. mál, nýjar síldarverksmiðjur

Frsm. minni hl. (Gísli Jónsson):

Herra forseti. Ég vil í upphafi ræðu minnar láta í ljós undrun mína yfir því, hvernig gamlir og góðir þm. geta gengið fram hjá öllum rökum í máli, einnig í n. Ég leiddi í sjútvn. óhrekjanleg rök að því, að það væri óheppilegt að setja þetta ákvæði inn í l., en meðnm. mínir hafa ekki viljað líta við þeim. Þau byggðust þó á áliti manns, sem á sínum tíma var falið að rannsaka þetta mál, Trausta Ólafssonar efnafræðings.

Ég mun nú sýna fram á, ef hv. d. vill hlusta á mál mitt, að það eru þrjú meginatriði, sem verða að vera fyrir hendi til þess, að unnt sé að koma upp lýsisherzlustöðvum á Íslandi, svo að viðlit sé, að þær geti borið sig samkv. rannsóknum óhlutdrægra aðila. Í fyrsta lagi þarf að vera fyrir hendi nægilegt hráefni, og það er sýnt af skýrslu Trausta Ólafssonar, að það er eitt af aðalskilyrðunum, að ekki þurfi að flytja hráefni á milli staða. Annað skilyrðið er nóg af ódýru rafmagni. Þar sem þarf að framleiða vetnisefnið til hreinsunar, má rafmagnið ekki kosta meira en 4 aura hver kwstund. Í þriðja lagi þarf að vera unnt að sameina rekstrarfé, mannahald og verksmiðjuhús og vélar í sambandi við hráefnavinnsluna. Nú er aðeins um tvo staði að ræða á Íslandi, þar sem nóg eru hráefni, sem sé Siglufjörð, fyrir 50 smál. stöð, og Hjalteyri fyrir 25 smál. stöð. Ef það er rétt hjá Trausta Ólafssyni, að ekki megi flytja hráefni milli staða, væri ekkert vit í því að setja upp eina stöð til vinnslu úr öllum hráefnunum, en hefta menn þar, sem betri eru skilyrði. Nú er það t.d. svo, að Hjalteyri væri, hvað rafmagnið snertir, líka góður staður, ef vonirnar rætast um virkjun Laxárfossanna. Sama er að segja um Raufarhöfn. Það eru miklar líkur til, að rafmagn komi þangað frá Dettifossi eða Goðafossi fyrr en nóg rafmagn væri fyrir slíkt á Siglufirði.

Það má að vísu segja, að þegar þessi rök eru flutt ráðh., ætti hann að veita leyfi samkv. þeim, en við vitum sorgleg dæmi um, að oft hefur gengið erfiðlega að fá ráðandi atvmrh. á hverjum tíma til að fara eftir slíku, og ég vil benda á, að það hafa verið uppi erjur í blöðum hér um leyfi til Siglufjarðarkaupstaðar til að stækka verksmiðjurnar. Ég tek þetta sem dæmi um, að á öllum tímum getur slíkt komið fyrir.

Það er yfirleitt engin þörf á að hafa þetta ákvæði í l. og er bara til trafala. Það mætti á sama hátt segja, að ekki væri rétt að leyfa mönnum, sem veiða í síldarverksmiðjur, að hafa flota nema með sérstöku leyfi ráðh., eða að ekki væri leyft þeim, sem hafa lýsisbræðslu, að hafa kaldhreinsunarstöð nema með sérstöku leyfi. Hér er aðeins um að ræða, að menn geti notað hráefnin til hins ýtrasta.

Það er áreiðanlega til blessunar, að ekki séu fleiri höft á atvinnurekstrinum en bráðnauðsynlegt er á hverjum tíma.

Ég held, að hér liggi allt annað til grundvallar hjá hv. flm. frv. en að hér sé hætta á ferðum fyrir ríkið. Ég held, að hér liggi til grundvallar sú gamla sóttkveikja Framsfl., að hér megi enginn hreyfa sig nema eftir valdboði ríkisstj. Ég held, að það sé meiri orsök til þess, að hann ber þetta fram, heldur en að það sé eitthvert sérstakt þjóðarböl, að einstaklingur stofni slíkt fyrirtæki. Það er auðvitað regin skoðunarmunur á þessu hjá okkur, en jafngamall þm. og hv. flm. er ætti að vera nægilega þroskaður til þess að víkja frá þessari biblíu sinni, þar sem svo sterk rök liggja fyrir sem hér.

Ég skal svo ekki orðlengja þetta frekar, en ég vil aðeins benda á það, að hvert spor, sem nú er stigið til þess að þrengja að atvinnuvegum landsmanna, miðar alls ekki að því að leysa það hlutverk, sem þinginu ber nú skylda til að leysa sjálfs sin vegna og þjóðarinnar.