19.01.1943
Efri deild: 36. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 102 í C-deild Alþingistíðinda. (2596)

32. mál, þingsköp Alþingis

Frsm. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. — Allshn. hefur haft þetta mál til meðferðar, og n. er sammála um, að brýn þörf sé til umbóta í þessu máli frá því, sem er nú. Það er vitað mál, að fæstir þm. gefa sér tíma til að lesa ræður sínar, eins og þær koma frá hendi þingskrifara. Þá þykir á því nokkur misbrestur, að þannig sé ávallt gengið frá ræðum, að sæmilega sé við hlítandi.

Ýmsir kvarta yfir því, að ræður þeirra séu sumpart ekki í samræmi við það, sem þeir hafa flutt, að sumpart sé svo mikið úr þeim fellt, að það sé alls ekki rétt mynd af því, sem þm. hafi sagt. Af þessum ástæðum þykir mega telja umræðuhluta Alþt. lélega heimild um það, sem í raun og veru gerist á þingi, og mætti segja, að það væri ekki til mikils að prenta slíkar ræður, sem svo væri ástatt um. Hins vegar er að gæta þess, að sumir halda því fram, að ræðurnar yrðu ekki alveg í samræmi við það, sem gerðist í þinginu, þó að hv. þm. yfirfæru þær, sem var föst regla, að þm. gerðu áður, vegna þess að þar kæmi frekar fram það, sem þm. vildu sagt hafa, en ekki í raun og veru það, sem þeir hefðu sagt. En Alþt. eiga að sjálfsögðu að bera með sér, hvað menn hafa í raun og veru sagt. Þess vegna halda sumir því fram, að það sé nauðsynlegt, að reyna að finna einhver ráð til þess, að þingræðunum verði náð betur niður heldur en fram að þessu hefur verið og þær verði prentaðar samkv. því. Að sú aðferð yrði t.d. við höfð, að þær væru teknar niður á hljóðnema og síðan skrifaðar upp eftir honum í ró og næði, þannig að meiri líkur væru til þess, að næðist það, sem þm. hefði sagt, heldur en með öðru móti. Það mun hafa verið lítillega athugað, hvort þetta væri framkvæmanlegt. Það hygg ég, að sú athugun hafi ekki verið gerð til hlítar.

N. taldi æskilegt, að ýtarleg rannsókn færi fram á því, hvort slík aðferð yrði ekki fundin, e n hins vegar mundi litið gagn í þeim Alþt., þar sem ætti að sleppa svo miklu niður, eins og yrði, ef þetta frv. væri samþ., og þá væri nærri einlægara að fella prentun umræðuhluta Alþt. niður. Við vitum, að það er gamalt deilumál, hvort ástæða sé til að prenta ræðupart Alþt. eða ekki. Ég tel tvímælalaust, að rétt sé að prenta umræðuhlutann, því að þar er að fá mjög mikil gögn fyrir pólitíska sögu landsins og eins réttarlega sögu þess, þannig að ég mundi telja það mikið tjón fyrir seinni tímann, ef þessi mikilvæga heimild væri ekki fyrir hendi, jafnvel þó að játa verði, að varðandi hina daglegu pólitísku baráttu hafi prentun Alþt. nú minni í þýðingu heldur en oft áður. En af því að ég tel, að Alþt. geti haft mikla þýðingu sem heimild, verður að reyna að gera þau sem allra öruggasta heimild um það, sem raunverulega hefur fram farið á hæstv. Alþ. Og þó að það sé vissulega athugandi, hvort þetta frv. kunni að leiða til þess, eða sú leið, sem í frv. er bent til, þá þykir það, eins og ég sagði, vera nokkuð hæpið og útgáfa Alþt. þá verða nokkuð einkennileg, ef ræðum sumra hv. þm. vær í alveg sleppt, en annarra teknar upp, eingöngu eftir því, hvort hv. þm. hefðu haft tíma eða aðstæður til þess að lesa handritin yfir. N. játar meginhugsun þá, sem kemur fram í frv. um nauðsyn til úrbóta í þessu efni, en getur ekki fallizt á, a.m.k. án frekari rannsóknar, að sú leið, sem í frv. getur, sé farin. Þess vegna vildi n. beina frv. til hæstv. forseta Alþ. í samráði við skrifstofustjóra Alþ., sem allra manna bezt þekkir bæði ágallana á núverandi framkvæmd í þessu efni og hverjar ráðstafanir kunni að vera líklegastar til þess að ráða bót á þeim, og getur um það dæmt, hvað í þessum efnum er framkvæmanlegt. N. taldi eðlilegast, að þessum aðilum yrði falið að rannsaka málið betur en fram að þessu hefur verið gert og á grundvelli þeirrar rannsóknar að bera fram breytingafrv. á þessu ákvæði þingskapanna. Vonast ég til þess, að hv. þd. geti fallizt á þá rökst. dagskrá, sem n. af þessum ástæðum bar fram.