01.03.1943
Efri deild: 66. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 240 í C-deild Alþingistíðinda. (2821)

120. mál, kynnisferð sveitafólks

forseti (StgrA):

Ég vil vekja athygli hv. þdm. á því, að frv. á þskj. 473, sem endursent hefur verið þessari hv. d. frá Nd. sem 120. mál, er flutt var í þessari hv. d., virðist vera mjög mikið breytt frá því, sem það var í upphafi, þannig að nokkur vafi leikur á því, hvort það skuli meðhöndlað sem sama málið eða sem nýtt mál, og ég mun því taka til athugunar, hvaða meðferð málið skuli fá. Í frv., eins og það var upphaflega, er efnið það, að fé verði veitt úr ríkissjóði til styrktar kynnisferða sveitafólks. Í frv. nú á þskj. 473 er hins vegar kveðið svo á, að lagður skuli nýr skattur á kaupendur kjöts og mjólkur, og í 2. gr. frv. er farið fram á, að stofnaður verði sérstakur sjóður, og sá sjóður hafi það hlutverk að styrkja kynnisferðir sveitafólks. — Eins og sést á þessu, þá er hér um að ræða gerbreytingu á efni frv. Ég hef þess vegna kynnt mér, hvaða venjur hafa gilt á Alþ., þegar um slík mál er að ræða sem þetta, og hef ég lesið kafla úr riti eftir núverandi hv. 6. þm. Reykv., er nefnist Deildir Alþingis. Þetta rit er gefið út sem fylgirit með Árbók Háskóla Íslands, og er því hér um vísindarit að ræða. Fordæmi fyrir meðferð slíkra mála er mjög sitt á hvað. Dæmi er frá 1931 um meðferð eins frv. Þar komu fram brtt., sem gerbreyttu frv. Þessum brtt. var vísað frá samkv. till. Héðins Valdimarssonar. Í öðru lagi eru ýmis dæmi þess, að gagngerðar breyt. eru gerðar á frv., án þess að það hafi valdið truflun á meðferð þess. T.d. árið 1935, um fiskimálanefnd, og sama ár frv. um ríkisútgáfu skólabóka o.fl. dæmi.

Í þriðja lagi finnast fardæmi þess, að breyt. eru gerðar á frv., en þá er það gert að nýju máli og afgr. samkv. því með tilheyrandi umræðufjölda. Sem dæmi um þetta má nefna árið 1901 frv. til l. um skrásetningu skipa. Það var flutt í Ed., en við 2. og 3. umr. í Nd. var því breytt svo mjög, að þegar það kom aftur til Ed., þá var það metið þar sem nýtt mál og ákveðnar um það 3 umr. að nýju.

Sem sagt, þessi fordæmi leiða ekki í ljós neina ákveðna reglu, og niðurstaða höfundar rits þessa er sem hér segir: „Venjan um allt þetta er samt býsna reikul, enda verður að játa, að erfitt er að setja um þetta fastákveðnar reglur, þó að meginstefnan, sem fylgja verður, sé ljós, sem sé, að óheimilt sé að gerbreyta frv. svo, að úr því verði raunverulega nýtt frv.“

Hins vegar um það, hvaða úrræðum skuli beita í slíkum tilfellum, segir höfundur á þessa leið: „Ef frv. aftur á móti hefur áður verið fyrir þeirri d., sem það nú er komið í, og því er haldið fram, að hin deildin hafi breytt frv. svo mikið, að það sé ekki sama frv. sem í þessari d. var áður, þá sýnist rétt, að þessi d. eða forseti hennar geri það alveg sjálfstætt upp með sér, hvort svo sé eða ekki, og láti 3 umr. fara fram, ef um nýtt frv. er að ræða.“

Þar sem ekki eru neinar fastar reglur um þetta, þá vil ég ekki sem forseti d. úrskurða, hvort hér sé um nýtt frv. að ræða, heldur leita álits hv. þdm. um það atriði. Ég mun gefa kost á að ræða þetta atriði, og að þeim umr. loknum láta fara fram atkvgr. um það.