01.03.1943
Efri deild: 66. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 249 í C-deild Alþingistíðinda. (2838)

120. mál, kynnisferð sveitafólks

Magnús Jónsson:

Herra forseti. — Ég þarf ekki að bera af mér neinar sakir, heldur miklu fremur bera fram þakklæti til hv. þm. Str., en hann hlóð á mig lofi óverðugan.

Ég hef nú setið á ærið mörgum þingum, en ég minnist þess ekki að hafa séð aðra eins breyt. á einu frv. eins .og þá að fella niður allar þrjár gr. frv. og setja átta nýjar í staðinn. Það var hér eitt sinn á ferðinni frv., sem var fyrst ein gr., en svo var annarri bætt víð, og síðan var sú fyrri felld niður, og var þá raunverulega komið nýtt frv., en hér er þó um enn stórfelldari breyt. að ræða, þar sem hér eru felldar niður allar gr. frv. og teknar upp miklu fleiri nýjar gr. í staðinn, og það man ég ekki eftir, að hafi komið fyrir áður. En ef svona aðferð á að fara að tíðkast, þá er mikil hætta á ferðum og það er alveg gagnstætt því, sem hingað til hefur átt sér stað hér.

Ég verð að játa, að ég skildi ekki vel, við hvað hv. þm. Str. átti, er hann var að tala um, að úrslit þessarar deilu mundu sýna, af hve miklum heilindum menn hefðu fylgt þessu máli. Það má vera, að hann áliti, að þegar flm. greiði atkv. með því, að málið fái fulla meðferð, þá greiði þeir atkv. á móti málinu sjálfu. Ég veit ekki, hvernig hann ætlar sér að gera þannig ályktun um úrslit málsins af því, hvernig meðferð það fær. Honum finnst málinu hafa verið sýnd velvild í Nd., en hér telur hann, að það eigi fjandskap að mæta. Ég tel það engan fjandskap .við málið að vilja sýna því þann sóma að láta það fá fulla meðferð hér. En hér er vissulega um nýtt mál að ræða, þar sem hér á að fara að leggja nýja skatta á landbúnaðarafurðir, en áður var aðeins um að ræða beint framlag úr ríkissjóði. Ég ætla nú ekki að gera hv. þm. Str. neinar getsakir, úr því að hann var svona velviljaður í minn garð áðan. En ef hann vill láta keyra hér í gegn málsmeðferð, sem er á móti vilja dm., þá getur hann með því espað til andstöðu við málið, og það getur vitanlega haft áhrif á úrslit þess.

Það væri heldur ekkert óeðlilegt, þótt hv. þm. Str. væri á móti þessu máli, því að hér er um allt annað mál að ræða en það, sem hann var flm. að upphaflega.

Ég vil svo að lokum þakka hæstv. forseta fyrir þolinmæðina og það, hve hann hefur sýnt mikla lipurð við að veita leyfi til aths., en það mun heldur ekki vera eins strangt, þegar rætt er um þingsköp eins og ef rætt væri um þingmál.