07.04.1943
Neðri deild: 92. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 263 í C-deild Alþingistíðinda. (2890)

174. mál, skipun læknishéraða

Helgi Jónasson:

Herra forseti. — Mér finnst það rétt hjá hv. þm. Snæf., að það sé kannske ástæða til þess, að þessir hreppar á Snæfellsnesi, sem hann hefur tilgreint, skeri sig úr og myndi læknishérað út af fyrir sig. En ég vil benda á, að þetta nýja hérað, sem á þarna að mynda, mundi verða eitt með fámennustu héruðum landsins, en í slík héruð er venjulega erfitt að fá lækni, og get ég ímyndað mér, ef þetta hérað yrði myndað, að enn erfiðara yrði að ná til læknis en nú, á meðan þessir hreppar tilheyra stærri læknishéruðum. Það er eins og um þau fámennu héruð, sem fyrir eru. Það er helzt ekki hægt að fá neinn lækni til að þjóna þeim. Ég vil því beina því til hv. þm. að athuga vel sinn gang og hvort íbúar þessara héraða mundu verða nokkuð betur settir. þótt frv. þetta yrði að lögum.