04.12.1942
Neðri deild: 9. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 341 í C-deild Alþingistíðinda. (3046)

21. mál, virkjun Andakílsár

Flm. (Pétur Ottesen):

Mér þykir ástæða til fyrir hönd okkar flm. þessa frv., að vera þakklátur fyrir undirtektir hv. 1. þm. Árn. (JörB), sem ég tók svo, að féllu á þá lund um það, er tekur til undirbúnings á þessum málum, að hann vildi, að það færi fram alhliða athugun á því, hvernig haga skyldi framkvæmdum yfirleitt í rafveitumálum. En athugun á þeim málum má alls ekki vera þröskuldur í vegi þess, að hæstv. Alþ, sinni slíkum málum nú sem þessu. Því að eftir því sem þetta mál liggur fyrir leikmanns augum er auk þess eftir því, á hvaða lund álit þeirra verkfræðinga, sem um mál þetta hafa fjallað með okkur flm., er um málið, þá muni niðurstaðan falla á þá lund, sem hér er gert ráð fyrir í frv., að virkjun verði þegar hafin á Andakílsfossum og að það geti fallið saman við þá stefnu, sem hér hefur verið rætt um, um virkjun stórra en fárra fallvatna. Aðferðin við þessa virkjun er áætluð þannig, að háspennulína komi til Akraness og Borgarness, og álitsgerð um þetta, sem gerð er af Rafmagnseftirliti ríkisins, skulum við sjá um, að komist í hendur þeirrar n., sem hv. 1. þm. Árn. er formaður í og nú hefur rafmagnsmálin til athugunar. Sú n. hefur einmitt samvinnu við Rafmagnseftirlit ríkisins, auk þess sem hún að sjálfsögðu ber þessi mál undir aðra sérfræðinga á þessu sviði til þess að geta aflað sér sem beztra gagna um þetta mál. Við skulum þess vegna, flm. þessa frv., leggja allar þessar áætlanir upp í hendur n., svo að ekki þurfi á því að standa, að fyrir liggi öll gögn á þessu þingi, sem hægt er að draga út frá allar nauðsynlegar ályktanir í sambandi við afgreiðslu þessa máls.