18.01.1943
Neðri deild: 36. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 384 í C-deild Alþingistíðinda. (3145)

94. mál, húsaleiga

Páll Þorsteinsson:

Það eru aðeins örfá orð. Hv. 6. landsk. telur, að ég hafi ekki farið rétt með þær tölur, sem ég tilgreindi um, hvaða borgun væri tekin af heildarafla hvers báts. Hann taldi, að ég hefði sagt, að greitt hefði verið 1/12 af heildarafla, þegar kaupfélagið hefði komið á þennan stað fyrir 9 árum. Þetta er misskilningur. Fyrst eftir að útgerðarstöðin var reist, var hún í höndum eins manns, og þá mun gjaldið um nokkurt skeið hafa verið 1h2, en var komið í 1/15, þegar kaupfélagið eignaðist hana. Síðar var það lækkað niður í 1/25, og þó segir hann, að tölurnar, sem ég birti um heildargreiðslur bátanna, séu fjarri lagi. Ég tók fram, að ég hefði leitað sérstaklega upplýsinga, eftir að þetta mál var flutt, hjá þeirri stofnun, sem kunnugust var þessu máli, og ég hef enga ástæðu til að efast um, að hún hafi gefið mér réttar tölur. Hins vegar er skylt að hafa það, er sannara reynist, ef eitthvað kemur í ljós, sem sýnir, að hér skakki verulegu, en meðan ekkert sannast í því efni, held ég fast við þær upplýsingar, sem ég hef fengið frá þessari stofnun.

Hv. þm. bendir á, að nú muni meðaltalsleiga vera kr. 2500 á bát, og skakkar það nokkru frá því, sem ég sagði, að meðaltalsleiga hefði verið í fyrra 3 þús. Af 26 bátum, sem voru gerðir út frá þessari verstöð síðasta vetur, mun gjaldið af 2/5 hlutar bátanna hafa verið undir eða um 2 þús., en meðaltalsleiga af þessum 26 bátum er mér sagt, að hafi verið 3 þús. kr.

Þá vék hann að því, að kapphlaup væri um að komast að þeirri verstöð, smæstu bátarnir yrðu útundan, en aðallega væru það stærstu bátarnir, sem kæmust að. Þarna gefur auga leið, hvort um okur er að ræða, þegar þeir bátar, sem mest afla og mest greiða í leigu, sækja mest á um að komast þarna að til að fá útgerðaraðstöðu.

Það er rétt, að þetta umboðsgjald hefur ekki komið til fyrr en síðustu tvö ár, en eins og ég lýsti í fyrri ræðu minni, þá er þetta samningsatriði milli þeirra aðila, sem hér eiga hlut að máli. Annars hygg ég, að slík umboðslaun séu greidd víðar, þar sem ekki eru samtök milli útgerðarmanna um að annast sölu á fiskinum, en eins og ég sagði, þá er þetta samningsatriði milli þeirra, sem hér eiga hlut að máli. Ég benti á, að stjórn kaupfélagsins ásamt framkvæmdarstjóra þess væri réttkjörinn aðili að koma fram fyrir kaupfélagsins hönd og útgerðarmenn ættu að kjósa samningsaðila frá sinni hálfu. Hv. 6. landsk. þm. vill gera mikið úr því, að hér sé aðeins um einn einstakan mann að ræða, sem setji útgerðarmönnum stólinn fyrir dyrnar á Hornafirði. Ég hygg, að þessi hv. þm. tefli á tæpasta vað, ef hann ætlar sér að draga nafn ákveðins manns inn í umr. hér á þingi. Ég get bent honum á, að kaupfélagsstjórinn mætti ekki einn fyrir félagsins hönd til samninga við verkamenn í haust, heldur var þar og mættur formaður kaupfélagsstjórnarinnar, Þorleifur Jónsson, fyrrv. þm., sem var um skeið forseti þessarar hv. d., og ég hygg, að hv. þm. geti um það borið af gömlum kynnum við hann, hvort mundi vera frágangssök að ná samningum við hann, eða ætlar hv. þm., að þessi gamli þm. sé svo sérstaklega herskár í ellinni. Ég legg áherzlu á, að þetta er fyrst og fremst samningsatriði, og frá mínu sjónarmiði er eðlilegast að reyna að ná svo hagkvæmum samningum, að báðir aðilar megi vel við una, og ég er sannfærður um, að það er hægt að leysa þetta þannig með einföldum samningum.

Þá minntist hann á, að hann hefði staðið í samningamakki. Það er aukaatriði, en ég held, að annar maður hafi þar verið stórtækari, sem sé Benedikt Guttormsson bankastjóri.

Hann vill ekki fallast á, að grundvöllurinn undir þessu frv. sé ótraustur og vitnaði þar í 2. gr., þar sem gert er ráð fyrir að meta aflahlutann til verðs með tilliti til, að leigan hækki ekki. Ég hef veitt þessu athygli, að leigan á ekki að hækka, en það stendur hvergi, að hún eigi nokkurn tíma að lækka eða hvernig þi skuli verða með aflahlutann og verðlagning hans.

Ég hef þá komið með þær helztu aths., sem ég tel þörf á á þessu stigi málsins, og skal ekki hafa um þetta fleiri orð að svo stöddu.