05.04.1943
Neðri deild: 90. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 437 í C-deild Alþingistíðinda. (3278)

122. mál, tímarit til rökræðna um landsmál

Frsm. minni hl. (Jörundur Brynjólfsson):

Ég vil nú ekki gera mikið til þess að lengja þessar umr. Ég tel, að þess gerist ekki þörf. Hv. þm. Hafnf., sem er flm. að þessu frv., virtist hafa trú á því, að. það gæti orðið að einhverju gagni að framkvæma það, sem frv. fer fram á, eins og hv. 1. flm. (JPálm) virðist líka halda. En ég verð að segja það, eftir því á hvaða grundvelli þetta er byggt, þá er það mikil oftrú. Það kom fram í ræðum hv. flm. beggja, að það var eins og þeir gerðu ráð fyrir því, að það yrði einhver hugarfarsbreyting hjá þeim, sem skrifuðu í blöð, bara ef út kæmi þetta tímarit, þó að það komi ekki út oftar á ári en gert er hér ráð fyrir., en á þó að vera framhald af umr. um mál, sem í blöðum hefur verið rifizt um. Ég get trúað, ef mönnum hefur ekki komið saman um málin í blöðum og á fundum, þá yrðu það hjáleitar röksemdir, sem birtust í þessu tímariti. Svo náttúrlega halda umr. um málin áfram utan við þetta tímarit í fullum krafti og hindrunarlaust. Og þá þarf ekki að efast um, hverjir hafi bezta aðstöðuna í þeim umr. Það eru þeir fjársterkustu menn, eða eins og ég sagði í fyrri ræðu minni þeir, sem ekkert þurfa að spara.

Ég ætla aðeins að víkja að því, sem hv. 1. flm. sagði. Hann tilnefndi eitt dæmi, málflutning hjá einum flokki, sem hann taldi, að þyrfti að koma leiðréttingu á. Sízt af öllu held ég, að þetta hefði átt að koma frá hv. þm. A.-Húnv., af því að hann er nú flm. þessa máls, þm. Austur-Húnvetninga, og án þess að ég vilji segja, að af hans hálfu standi sérstaklega á. En hann er einmitt þm. A.-Húnv. og ætti því ekki að minna á það, sem þar hefur komið fyrir í pólitík og kosningum.

Hv. þm. A.-Húnv. taldi það einn helzta kostinn við þetta tímarit, að með því væri tækifæri til þess að koma að leiðréttingu á málum. En ef ritstjórnin segði nei við einhverri leiðréttingu, hvað þá? Og ef leiðréttingin kæmi nú og úr því yrði deilumál, hvernig yrði þá þessu tímariti beitt?

Það hefur verið reynt að gefa út slíkt rit. Og í því pólitíska riti bar ekki mikið á því, að rifið væri niður í öðru orðinu það, sem annar vildi byggja upp. Þar var málflutningurinn ekkert lakari heldur en á öðrum vettvangi. En þessi pólitísku rit eru ekki mikið lesin, og menn leggja ekki sérstaklega mikið upp úr þeim, og þau hafa fljótlega dáið. Hv. þm. Hafnf. reyndi að koma aðalflm. frv. til liðs um þetta, og fannst mér þar vera heldur lítið á að græða. Hann vildi meina, að mín andstaða gegn málinu kynni að vera að einhverju leyti af því, að ég óttaðist, að illa tekist til um að rita í þetta tímarit. Nefndi hann í því sambandi rafmagnsmálin og sagði, að rafmagnið gæti líka verið hættulegt og jafnvel drepið menn, ef ógætilega væri að farið, en sagði, að samt sem áður mundi ég ekki vera á móti því, að sá aflgjafi kæmist út á meðal almennings. Það er rétt, að ég vil, að þetta verði. En hvernig vil ég gera það? Á þann hátt, að það verði mönnum til gagns og góðs og að reynt sé að búa svo um, að það drepi engan, heldur verði til nytsemdar. (EmJ: Það vil ég líka.) Og ég hef ekki ástæðu til að halda annað en að þeim mönnum hafi gengið gott til, sem reynt hafa að gefa út slíkt tímarit, en það hefur mislukkazt.

Hv. þm. Hafnf. sagðist ekki hafa skilið það, sem ég sagði, er ég vék að trúmálum. Ég held, að hann hafi ekki íhugað vel þann kafla ræðu minnar. Eða skilur ekki þessi hv. þm., að það er óviðurkvæmilegt og óheyrilegt, að ríkið standi að útgáfu rits, ef í því riti kæmu fram kennisetningar, sem miða til að rífa niður grundvallarskipulag, sel ríkið byggir á og ríkið vill vernda! Ég tók þessi atriði sem dæmi. Ríkið hefur ákveðið að vernda m.a. kristna trú í landinu, ef eitthvað, sem skrifað væri í þetta rit, sem væri þeirri trú til niðurrifs og kenninga hennar, þá væri óheyrilegt, að það sama ríki beinlinis kostaði útgáfu þess rits. Sama gildir um grundvallarskipulag í þjóðfélagsmálum okkar að öðru leyti. Það væri óviðurkvæmilegt, að ríkið sjálft kostaði útgáfu á því, sem miðaði að því að rífa það niður. En við útgáfu slíks rits sem þessa yrði slík hætta fyrir hendi, og væru það vinnubrögð, sem ríkið ætti ekki að stofna til.

En út af því fyrirkomulagi, sem í frv. er gert ráð fyrir, veik hv. þm. Hafnf. að því, að þessir fjórir flokkar, sem hafa fulltrúa á þingi, hefðu rétt til að birta greinar í þessu riti, af því að þeir hefðu svo marga fulltrúa á þingi. En það er nokkuð erfitt að spá nokkru fyrirfram um það eða sjá fyrir, hvað flokkarnir í þinginu verða margir í framtíðinni. Ef þessir fjórir flokkar, sem eru í þinginu, tækju höndum saman um stj. og annað þess konar, þá gæti vel hugsazt, að það væri skoðun ýmissa manna, að vinnubrögð og stjórnarfar þessara flokka væri alls ekki gott og jafnvel alveg óþolandi. Þeir, sem svo risu upp og mynduðu flokk til þess að vinna gegn slíkri samsteypu, geta þeir ekki einmitt átt fullan rétt á því að segja sitt álit í þessu tímariti? Ég segi ekki, að þetta komi fyrir, en gæti þetta ekki hugsazt? Við megum ekki miða allt við yfirstandandi augnablik.

Hv. þm. Hafnf. virtist leggja nokkuð upp úr því, sem ég sagði, að ég vildi ekki greiða götu öfgaflokkanna á þann hátt, að þeir gætu komið út skoðunum sínum með þessu móti. En ég er bara svo alveg sannfærður um það, að hver flokkur, sem er, mundi koma skoðunum sínum á framfæri, eins og flokkarnir gera nú, hvað sem þessu tímariti líður, utan við þetta tímarit, og það á enn áhrifameiri hátt heldur en í því.

Og um ritn. við þetta rit er það að segja, að hún á nú að stjórna, og er það þá að sjálfsögðu meiri hl, hennar, sem á að ráða því, hv að birtist í þessu riti. Skilst mér þá, að þar gæti komið til greina hlutdrægni.

Viðvíkjandi því, sem hv. þm. Hafnf. minntist á Eimreiðina, þá var það ekki tilraun, sem þar var gerð um þessa hluti. Það var aðeins tækifæri, sem flokkunum var gefið til þess að kynna stefnur sínar, og greinarnar voru eftir því, aðeins til að skýra stefnuskrár flokkanna. Það mátti því búast við því í slíkum ritgerðum, að það yrði „faglega“ gert, þar yrðu stefnuskráratriði flokkanna dregin sem gleggst fram, laust við ádeilur til annarra flokka.

Það eru nú orð í 2. gr. frv., sem ég ekki vel skil. Þar stendur í 2. málsl. 2. gr.: „Samtímis skal öllum hliðstæðum stjórnmálaflokkum í landinu ......“ o.s.frv. En fyrst er sagt í upphafi gr.: „Veita skal stjórnmálaflokkum þeim, er eiga a.m.k. þrjá fulltrúa á Alþ., kost þess eftir ákveðnum reglum að fá prentaðar í tímaritinu ritgerðir um ákveðin málefni, er alla landsmenn varða og orðið hafa að deilumáli milli flokka.“ En svo kemur: „Samtímis skal öllum hliðstæðum stjórnmálaflokkum í landinu gefinn kostur þess að fá í sama hefti birtar ritgerðir um sama efni og af jafnri lengd, miðað við orðafjölda.“

„Hliðstæðum stjórnmálaflokkum“ — ég ,veit ekki vel, hvað það er. (GSv: Sem standa við hliðina hver á öðrum.) Ég geri reyndar ekkert úr þessu ákvæði. Og það varðar reyndar minnstu um það. En viðkunnanlegla væri þó, að það skildist.

Svo er hér sagt í 3. gr.: „Hver stjórnmálaflokkur ber ábyrgð á þeim ritgerðum, er hann fær birtar í tímaritinu.“ Hvernig á að koma þeirri ábyrgð fram? Á allan flokkinn? Á að birta stefnu öllum meðlimum þess flokks, sem mál er hafið gegn? Hvernig er þetta hugsað? Það mundi þá kannske vera þessi maður, sem skrifað hefur í tímaritið fyrir hönd flokks síns, sem ætti að bera ábyrgð á þessu? Þetta eru nú kannske lítilvæg atriði.

Ég hirði ekki um að fjölyrða um þetta mal frekar. Hv. aðalflm. (JPálm) fannst ýmislegt, sem ég sagði, ekki snerta þetta mál. Ef hann yrði svo ógæfusamur að sjá þetta fóstur sitt komast á legg og til framkvæmda, þá er ég hræddur um, að honum þætti ekki aðeins lausar skrúfur í þessu plaggi, heldur er það alveg skrúfulaust, svo fráleitt er það.