05.01.1943
Efri deild: 24. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 454 í C-deild Alþingistíðinda. (3349)

64. mál, Vesturheimsblöðin Heimskringla og Lögberg

Flm. (Jónas Jónsson):

Hv. þm. Barð. hefur ekki áttað sig á aðaltilgangi frv., en þó er hans getið í grg. Það á að afla blöðunum allmargra kaupenda, svo að þau verði lesin víðast hvar á landinu. Till. um styrk er út af fyrir sig góð, en þá verða blöðin ekki lesin, og að því leyti er hans ágæta till. gagnslaus. Þetta er það, sem á milli ber, en hv. þm. virðist ekki hafa áttað sig á því.

Þá var þessi sami hv. þm. að tala um, að bæta mætti fleiri félögum og stofnunum í frv. Það kann vel að vera, að svo sé, og mun rannsókn málsins í n. sjálfsagt leiða það í ljós, og skal ég ekki hafa á móti því, að fleiri aðilum verði bætt í frv. sem kaupendum að blöðunum. Sé ég svo ekki ástæðu til að svara honum meira.

Út af ræðu þess manns, sem síðast talaði, ég man nú ekki enn þá númerið á honum (Forseti: 7. landsk.) — já, hv. 7. landsk. Hann var að gefa í skyn, að von væri á brtt. frá honum, og hann lét okkur nú heyra, hvernig hún ætti að vera. Vegna þess að þetta skyldi koma fram hjá hv. 7. landsk., vil ég leyfa mér að koma með aðra brtt., er mundi þá hljóða á þessa leið: Enda skuldbindi þau sig til að flytja ákveðið magn af skömmum úr Þjóðviljanum um Jónas Jónsson. Getur svo bæði hv. 7. landsk. og aðrir sagt sér það sjálfir, hversu mikil hæfa er í því. sem hv. 7. landsk. var að gefa í skyn, að væri tilgangur minn með frv.