07.01.1943
Efri deild: 26. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 507 í C-deild Alþingistíðinda. (3478)

88. mál, útflutningsgjald

Flm. (Gísli Jónsson):

Herra forseti. — Með l. nr. 63 frá 28. jan. 1935 í 3. gr. er svo mælt fyrir, að útflutningsgjald skuli miðað við söluverð afurða með umbúðum, fluttra um borð í skip (fob) á hverri höfn, er þær fyrst fara frá, eða við söluverð erlendis (cif) að frádregnu flutnings- og ábyrgðargjaldi til útlanda og miðilsgjaldi. Þetta síðasta ákvæði hefur valdið nokkrum ágreiningi og erfiðleikum, ágreiningi um það, hvernig beri að reikna útflutningsgjaldið eftir þessum l. af fiski, sem skipin sjálf, sem flytja hann út, veiða hér við land. Það kemur ekki beint fram í þessum l. frá 1935, hvernig þetta skuli reiknast, því að það er auðséð á þeim l. yfirleitt, að þetta ákvæði, „eða við söluverð erlendis“, á ekki sérstaklega við þessa vörutegund, heldur mun það fremur eiga við þá vöru, sem seld er í umboðssölu og kannske ekki seld fyrr en mörgum mánuðum seinna en hún er flutt út, og vil ég rökstyðja það með því, að hér stendur „að frádregnu flutnings- og ábyrgðargjaldi til útlanda og miðilsgjaldi“. En ef þetta ákvæði hefði átt að gilda um þennan útflutta fisk, þá hefði einnig þurft að standa, að frádregnu löndunargjaldi ytra, sem er stór gjaldaliður, og fleira kemur þar til greina. Hér í þessum I. er ekki um að ræða sérstakt flutningsgjald með þessum skipum. Og til þess að finna reglu til að fara eftir í þessu efni hefur venjan verið sú að reikna skipunum ákveðna upphæð til frádráttar t.d. á hverjum degi, sem þau eru við að flytja út fiskinn. Þetta gjald var í fyrstu lágt, en eftir því sem kostnaður jókst, fór þetta gjald ört stígandi og tók sífelldum breyt. Það er því skiljanlegt, að hér þarf að kveða nokkru ákveðnar á í þessu efni. Og þetta frv. fer fram á, að við þessa 3. gr. l. frá 1935 bætist nýr málsliður, svo hljóðandi: „Ef skip flytur út eigin afla, skal miða gjaldið við útflutningsverð fiskjarins komins um borð í skip (fob), ef það er skrásett í landinu, annars við kaupverð frystihúsanna á sams konar fiski. Magn fiskjarins reiknast eins og það vigtast upp úr skipi á sölustaðnum“.

Árið 1941 held ég, að í raun og veru skapist í fyrsta skipti fast söluverð á útfluttum fiski með samningum við brezku herstjórnina. Og síðan, þegar búið er að samræma allt verð í fiski til frystihúsanna og það er sams konar verð og það, sem selt er fyrir til skipanna, þá skapast hér útflutningsverð á fiskinum. Og er það alveg spursmál, hvort dómstólarnir mundu ekki líta svo á, að það ætti að reikna eftir því verði, ef farið væri í mál út af þessu atriði. Ef hæstv. Alþ. fellst á þessa skýringu, þá á ekki að vera þörf á slíkum málshöfðunum, sem annars verða óhjákvæmilega milli þessara aðila.

Til stuðnings þessu máli vil ég benda á, að í l. nr. 98 frá 1941 í 5. gr. þeirra l. er einmitt skýrt svo mælt fyrir, að 10% útflutningsgjaldið skuli reikna af fob-verði vörunnar, og getur þá ekki verið átt við annað verð en það verð, sem fiskur er seldur fyrir hér til útflutnings á hverjum tíma. Og þar er ekki sleginn sá varnagli, að dreginn skuli frá kostnaður skipanna, heldur að gjaldið skuli reiknast eftir útflutningsverði, sem verði fast á hverjum tíma. Hér er um að ræða miklu stærri fjárhæðir en gamla útflutningsgjaldið var, og getur því orðið ágreiningur út af því. Og ég fæ ekki séð, að í raun og veru sé leyfilegt að reikna þetta útflutningsgjald eftir nokkru öðru heldur en hér er ákveðið í frv.

Vildi ég mælast til þess, að hv. þd. vildi hraða afgreiðslu þessa máls, svo að leyst verði úr þessu deiluatriði sem skjótast. En það mun verða beðið eftir því af útgerðarmönnum og jafnvel af hæstv. ríkisstj.; og hæstv. fjmrh. upplýsti mig um í gær, að talið væri æskilegt, að enginn úrskurður yrði felldur um þessi mál fyrr en séð væri, hvernig Alþ. liti á þessi mál.