11.01.1943
Efri deild: 28. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 511 í C-deild Alþingistíðinda. (3488)

98. mál, alþýðutryggingar

Flm. (Haraldur Guðmundsson):

Þetta frv. er í höfuðatriðum samhljóða frv., sem flutt var hér á síðasta þingi af tveim dm. Aðalefni þess er, að í viðbót við þær bætur, sem greiddar eru fyrir dauðsföll og örorku samkvæmt alþýðutryggingalögunum, verði greiddar þær uppbætur, sem greinir í 1. og 2. gr. frv., en það eru þær bætur, sem nú eru greiddar þeim, sem tryggðir eru með stríðstryggingu, en hún nær aðeins til sjómanna, sem fara um hættusvæðin annaðhvort á millilandaskipum eða kringum land. Annað nýmæli er í bráðabirgðaákvæðinu og 3. gr., sem fela í sér fyrirmæli um, að þær bætur, sem greiddar eru samkv. þessari gr., skuli greiða sem svarar til vísitölunnar 150 á hverjum tíma.

Það ber öllum saman um það, að megingalli alþýðutryggingalaganna sé í raun og veru sá, hversu dánar- og örorkubætur eru lágar. Þær eru lægri hér en víðast hvar í nágrannalöndunum. Þær hafa að vísu ver ið hækkaðar stig af stigi, en þó ekki meira en svo, að fullar örorkubætur nema aðeins rúml. 16 þús. kr. og dánarbætur til ekkju nokkuð yfir 8 þús. kr. Nú er það svo, að þeir, sem tryggðir eru fyrir stríðsslysum, fá tvöfaldar bætur. Með 1. og 2. gr. frv. er ætlazt til, að dánar- og örorkubætur samkvæmt alþýðutryggingal. verði hækkaðar til samræmis við bætur samkv. l. um stríðsslysatryggingar sjómanna.

Mjög oft er, að vafi getur leikið á um það, hvort slys beri að telja til stríðsslysa eða ekki. Hins vegar getur oft skapazt óánægja, þegar um tvö slys er að ræða, sem gerast ef til vill um líkt leyti og með svipuðum hætti, og annað er bætt samkv. stríðsslysatryggingu sjómanna, en hitt aðeins samkv. alþýðutryggingal. Kjaramunur í slíkum tilfellum er svo mikill, að ekki verður afsakað. Segjum, að tveir bátar farist sama dag og annað slysið teljist stríðsslys, en hitt ekki, þá fá aðstandendur manns á fyrrnefnda bátnum rúmlega 30 þús. kr., ef um meðalfjölskyldu er að ræða, en aðstandendur manns af hinum aðeins 12 þús. kr. Það er að vísu rétt, að stríðsáhætta manna er misjöfn eftir því, hvert starf þeir stunda, en réttur aðstandenda til bóta hlýtur hins vegar að vera hinn sami, hvort sem fyrirvinnan ferst af styrjaldarvöldum eða öðrum orsökum.

Þá er í frv. gert ráð fyrir því, að bætur samkvæmt 1. og 2. gr. frv. verði greiddar með verðlagsuppbót, er svarar til þess hluta vísitölunnar, sem er umfram 150 stig. Ég ætla, að vísitalan hafi verið 146 stig, þegar l. um stríðsslysatryggingar gengu í gildi, en nú mun hún vera komin upp í 172 stig.

Um það er ekkert hægt að segja með vissu, hve mikill kostnaður mun verða af þessu. Ef miðað er við árin 1936–39, áður en slys fóru að koma fyrir af stríðsvöldum, lítur út fyrir, að iðgjöld sjómannatrygginganna verði að hækka um 4–5 krónur á viku, en munu nú vera um 6 kr. Þau mundu með öðrum orðum hækka upp í 10 kr. að minnsta kosti. En um þetta er að svo stöddu ekki hægt að gera neina skynsamlega áætlun.

Ýmsir hafa látið í ljós þá skoðun, að óheppilegt sé, ef þessar bætur hækka mjög, að greiða þær allar í einu til aðstandenda. Ég tel, að þessi skoðun eigi allmikinn rétt á sér. Er ef til vill rétt að breyta þessu í lífeyrisgreiðslur. En áður en slík breyting yrði gerð, þyrfti helzt að fara fram ýtarleg endurskoðun á löggjöfinni í heild.

Að svo mæltu legg ég til, að frv. verði vísað til hv. allshn., og er ég fús að láta henni í té öll þau gögn í þessu máli, sem ég hef yfir að ráða.