11.01.1943
Efri deild: 28. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 513 í C-deild Alþingistíðinda. (3491)

98. mál, alþýðutryggingar

Gísli Jónsson:

Viðvíkjandi dæmi því, sem ég nefndi áðan, get ég tekið það fram, að aðilar voru tveir og báðir komnir yfir fimmtugt. Mér þótti þessi útkoma sérstaklega einkennileg, þar sem þeir voru báðir svona gamlir. Ég held, að ástæða væri til að athuga þetta mál nánar, því,að það er ekki lítið fé, sem nú er greitt fyrir stríðsslysatryggingar í landinu. Hins vegar vil ég benda á, að allmiklir erfiðleikar hljóta að verða á því að ná samkomulagi um þetta, þar sem nú er uppi mikil viðleitni á öllum sviðum um það að lækka hvers konar útgjöld og rekstrarkostnað og útvegurinn þolir ekki mikil útgjöld til viðbótar því, sem nú er. Ég vil því spyrja hv. frsm., hvort ekki sé til þess ætlazt, að þeir, sem njóta eiga þessara hagsbóta, því að hagsbætur verða það að teljast, taki nokkurn þátt í iðgjaldagreiðslum. Þessar upphæðir eru að vísu ekki mjög háar fyrir þá, sem hugsa í stríðstölum, en ástandið getur breytzt þannig, að þær verði taldar nokkuð miklar, og svo getur farið, að þær hljóti að hafa áhrif á kaupgjaldið. Ég mæli þetta Ekki af því, að ég sé á móti þessu fyrirkomuagi, sem hér um ræðir, því að ég vildi vissulega, að sem flestir þjóðfélagsþegnar gætu notið sem fullkomnastra trygginga. En þetta þarf eigi að síður nánari athugunar við.