16.03.1943
Sameinað þing: 32. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 126 í D-deild Alþingistíðinda. (3639)

128. mál, þjóðleikhúsið

Jónas Jónsson:

Þessi till. er kannske skaðlítil, en hún er gagnslítil, og er ég sammála um, að ekki þurfi að vísa henni til n., því að ekki þarf tvær umr. Þjóðleikhúsn. er hér hinn eini rétti aðili. Hefur verið rætt við áhrifamenn innan setuliðsins um að fá húsið til afnota fyrir leikfélagið, en ekki tekizt. Höfum við hugsað okkur að bíða, þar til nýi sendiherrann kemur. Mundu því rök hv. flm. koma að litlum notum. Þeir hafa þvertekið fyrir að flytja úr því fram að þessu. Þeir segja sem svo: Íslendingar hafa látið húsið ónotað í mörg ár, og kemur okkur vel að hafa það.

Ég flutti till. fyrr í vetur um, að ríkissjóður fengi þjóðleikhúsinu aftur þann skatt, sem hann hefur tekið síðan 1932, en því ber. Við athugun kom í ljós, að hann er um 1 millj. og 700 þús. kr. En fjvn. saltaði till. mína. Allar líkur benda til þess, ef húsið verður ekki losað nú, sé vafasamt, hvenær það verði. En þessi till. er þýðingarlaus og breytir engu til eða frá.