06.04.1943
Sameinað þing: 39. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 178 í D-deild Alþingistíðinda. (3795)

161. mál, síldarmjöl til fóðurbætis

Bjarni Ásgeirsson:

Ég ætla ekki að fara að deila við hv. þm. Ísaf. (FJ) né aðra, hvorra hlutur sé meiri í stofnun og rekstri síldarverksmiðjanna, ríkisins eða sjómannanna. Ég hygg, að beggja hlutur sé góður, samstarf þeirra mikið og gott. Þó að ríkið hafi ekki styrkt verksmiðjurnar með óafturkræfum framlögum, hefði þeim ekki orðið komið upp án fjárhagsaðstoðar þess og frumkvæðis. Síðan hafa sjómenn tekið við með þeim dugnaði og framtaki, sem þeir eru kunnir fyrir.

Ég tel enga þörf að samþ. hina skrifl. brtt. Þó að menn kunni að greina á um hárfínustu skilgreiningar á lagaákvæðunum, sem þar er vitnað í, hefur ekki orðið neinn ágreiningur um það hingað til, hvernig fara bæri eftir þeim. Núv. atvmrh. treysti ég vel til að ráða fram úr því og vantreysti engum atvmrh. til þess að óreyndu. Það er að vísu rétt hjá hv. þm. Ísaf., að samkv. l. ber að reka síldarverksmiðjurnar sem eins konar samvinnufyrirtæki, þannig að sjómenn beri það úr býtum, sem fyrir afurðirnar fæst að frádregnum kostnaði og lögbundnum sjóðstillögum. Þá mætti kalla þetta verð, sem sjómönnum ber, framleiðslukostnað afurðanna, sem við beri að miða í verðlagningu á innanlandsmarkaði. En nú hefur síldin yfirleitt verið keypt föstu verði, og þá er enn hægara að reikna út það, sem kalla verður kostnaðarverð. Það ætti ekki að þurfa að vefjast fyrir neinum ráðh. að finna þetta kostnaðarverð og fara eftir því með hliðsjón af markaðsverðinu erlendis. Ráðh. hefur valdið til að ákveða, eftir hvoru skuli meir farið, en tilgangur lagagr. er vafalaust sá, að hlutur bænda verði sem beztur eða þeir fái, eins og hv. 2. þm. N.-M. sagði, nokkurt hagræði af fóðurbætissölunni, án þess að níðzt sé á öðrum framleiðendum og þeir skattlagðir.