06.01.1943
Sameinað þing: 13. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 267 í D-deild Alþingistíðinda. (3925)

20. mál, kjarnafóður og síldarmjöl

Helgi Jónasson:

Sú sorglega staðreynd hefur komið hér fram í dagsljósið, sem vitað var um áður, að síldarmjöl vantar mjög tilfinnanlega út um allt land. Og ég held, að það sé nærri von, að svo hafi farið. Það var ekki til þessa máls stofnað á Alþ. í sumar til þess að það yrði til þjóðar heilla. Byrjunin var þannig. Því var ekki gleymt af blöðum Sjálfstfl. í sumar að tala um þann mikla velvilja í garð bænda, sem hin fyrrv. ríkisstj. hefði til síns ágætis, sem kæmi fram í lækkun verðs á síldarmjölinu, og öllum almenningi fannst það sjálfsagt, eins og á stóð: En því var þá bætt við strax, að í ramsfl. hefði eiginlega verið á móti þessu máli, hv. þm. Str. (HermJ) hefði staðið upp til andmæla gegn þessari verðlækkun. Þetta voru fyrstu, en ekki síðustu ósannindin, sem fram komu af hálfu Sjálfstfl. í þessu máli. Ég játa, að ég var svo auðtrúa, að ég hélt, að ríkisstj. meinti vel í þessu máli með lækkun verðsins á síldarmjölinu og hún ætlaði að hjálpa almenningi í þessu efni á komandi vetri. Þær vonir hafa nú brugðizt. Og nú fyrst förum við að sjá, að til þessa máls var stofnað í allt öðrum tilgangi. Það áttu sem sé að fara fram kosningar í haust, og þá veitti ekki af að skinna upp á bændafylgi Sjálfstfl., sem hafði sýnt sig að vera mjög lítið við kosningarnar á síðasta vori. Ég hef þá trú, að þetta mál hafi verið tekið upp til þess, sem nú er líka komið fram. Því að hefði ríkisstj. meint það, sem hún sagði, að þetta væri af umhyggju fyrir bændum landsins, þá hefði ekki farið svo, sem komið er á daginn. Hvað varð um sildarmjölið, sem til var rétt fyrir kosningarnar í haust, að því er tilkynnt var af stjórnarvöldunum í útvarpið kvöld eftir kvöld fyrir kosningar? Því að þegar fyrstu tölur nar um kosningaúrslit í kjördæmunum voru lesnar upp í útvarpinu, þá kom einnig auglýsing í útvarpinu um það, að menn gætu ekki fengið nema tiltölulega lítinn hluta af því síldarmjölsmagni, sem þeir höfðu pantað. Um þetta vil ég fá upplýsingar, áður en málið er til lykta leitt. Ég býst við, að flestir bændur hafi trúað því í haust, að til væri nóg síldarmjöl og að þeir mundu fá það, sem þeir höfðu pantað, enda var því óspart haldið fram af blöðum Sjálfstfl. í haust. Og keppinautur minn við kosningarnar í Rangárvallasýslu hv. 2. þm. Rang. (lngJ) sagði í haust við bændur: „þið skuluð koma til mín, ég mun hafa nóg síldarmjöl.“ En ég býst nú við, að hann vanti nú síldarmjöl alveg eins og aðra.

Það var stofnað til þessa máls að verðlækka síldarmjölið alveg í ákveðnum tilgangi, ekki vegna bænda, heldur til þess að skinna upp á bændafylgi Sjálfstfl. fyrir kosningarnar í haust.