08.04.1943
Efri deild: 92. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 289 í D-deild Alþingistíðinda. (4002)

160. mál, æskulýðshöll í Reykjavík

Hermann Jónasson:

Ég vil þakka hæstv. forseta fyrir þá sanngirni að fresta umr., þannig að ég geti komið að brtt., ef ég óska. Og ég mun ekki tefja málið meira en svo, að hægt mun verða að afgreiða það á morgun. Enda kom það fram og var staðfest af þeim hv. þm., sem síðast talaði, að þessi dagskrártill. er byggð á því, að ekki sé hægt að fá sum að þeim félögum, sem nefnd eru í upphafi þáltill., til þess að taka þátt í þessari starfsemi. Og eins og hæstv. forseti tók fram og er skiljanlegt, þá tekur tíma að athuga það, hvort sú staðhæfing er á rökum reist. Og það er ekki hægt á annan hátt en að tala við stjórnir félaganna til þess að fá um það að vita. Því að það er þýðingarlaust að tilnefna félög í þessu sambandi, sem svo neita að taka þátt í þessum undirbúningi, sem um hefur verið rætt, ef svo reynist, að þau muni gera það. En ég vil þó benda á það í sambandi þið þessa rökst. dagskrá, að þegar ég tók fram, að ég gæti ekki fylgt henni, þá var það af því, að eftir þeirri till. var málinu vísað til ríkisstj. og bæjarstjórnar, og ég benti á, að málið yrði ekki leyst nema með samtökum æskulýðsfélaganna, og féllst meiri hl. n. á að bæta því inn í á eftir, með tilliti til þess, að ekki sé vitað, hvaða þátt félögin séu fús til að taka í þessum störfum.

Mun ég við frh. umr. og þá væntanlega á morgun, gera nánar grein fyrir afstöðu minni til málsins, eftir upplýsingum, sem ég vil afla mér, samkvæmt því, sem ég hef tekið fram.