19.02.1943
Sameinað þing: 27. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 303 í D-deild Alþingistíðinda. (4037)

105. mál, virkjun Lagarfoss

Jörundur Brynjólfsson:

Þegar mþn. hóf starf sitt, átti hún tal við Jakob Gíslason, forstöðumann rafmagnseftirlits ríkisins, um það, sem vakti fyrir n., að rannsakað skyldi. og var talað um heildarrannsókn um landið allt. Beindist þá talið að helztu vatnsföllunum og þeim, sem mestar líkur væru til að yrðu látin framleiða raforku, m. a. Lagarfoss. Nokkru síðar þurfti Jakob Gíslason að hverfa af landi burt í erindum ríkisstj., og gat n. því miður ekki notið hans góðu starfskrafta lengur.

Ég veit ekki, hvort ég tók rétt eftir því hjá hv. 6. landsk. þm., að forstöðumaður rafmagnseftirlitsins hefði ráðlagt honum að flytja þáltill. Það er ekki í hans verkahring að gera það, svo að það eru engar upplýsingar. Rafmagnseftirlitið er í þjónustu ríkisins, og með allri virðingu fyrir starfsmönnum þess kynni ég betur við, að þeir væru ekki að fullyrða neitt. Þekkingu þeirra eru takmörk sett eins og annarra manna, og þeir hljóta að verða að leggja til grundvallar fyrir áliti sínu sérþekkingu þá, er þeir hafa, og kunnugleika á þessum málum. Það er ágætt að gefa ráð til þess, hvað skuli rannsakað á næsta sumri, en þó að Alþ. gerði frekari samþykktir nú, er það engin aukin trygging um það, sem gert verður á næsta sumri. Svo margar till. má bera fram, að ógerningur verði að sinna þeim á næsta ári. Jakob Gíslason benti á, að ekki væri hægt að leysa nema nokkurn hluta af þessu nú, það væru ekki til verkfræðingar til þess. Hvað fyrst verður tekið, skal ég ekki um segja, en ég hefði haldið, að rafmagnseftirlit ríkisins færi eftir því, sem húsbændur þess skipuðu fyrir. Það hefur ríkisstj. í sinni hendi.

Ég kann ekki við, að það sé látið skína í það hér, að hér sé eitthvað nýtt á ferðinni, sem hafi ekki áður verið á minnzt. Hvort till. kann að verða til að flýta fyrir framkvæmdum, skal ég láta ósagt, en hitt veit ég, að það, sem rafmagnseftirlitið segir, gefur enga tryggingu um framkvæmdir.

Mþn. í raforkumálum mun af sinni hálfu leggja allt kapp á það, að unnið verði að þessum athugunum á næsta sumri, eftir því sem frekast er hægt og mannafli er til og menn óska, að hæstv. ríkisstj. láti framkvæma slíkar athuganir.