03.12.1942
Sameinað þing: 5. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 313 í D-deild Alþingistíðinda. (4063)

19. mál, þjóðleikhússjóður

Flm. (Jónas Jónsson):

Herra forseti: — Ein, og kunnugt er, var þessi sjóður tekinn til afnota fyrir ríkissjóð, eins og segir í grg., og hefur féð að mestu leyti gengið til almennra þarfa. Ég hygg, að núv. fjmrh. hafi lagt í hann nokkurt fé, en þó ekki nema lítinn hluta þess, sem í honum var. Það verður varla um það deilt, að eins og málið er undirbúið, verður að ljúka við byggingu Þjóðleikhússins, og er þá eðlilegt að greiða aftur í sjóð þess það fé, sem þar var tekið að láni. Ég hygg sérstaka ástæðu til að taka þetta mál fyrir nú, þar sem telja má, að brezka setuliðið hafi minni þörf fyrir húsið nú en þegar það tók það upphaflega til notkunar, þó að það hafi ekki enn fengizt til að flytja úr því. Ég hygg, ef ríkissjóður endurgreiðir nú þjóðleikhússjóði þessa fjárhæð, þá kunni það að hafa óbein áhrif í þá átt að losa þjóðleikhúsið. Mér þykir líklegt, að núverandi leigjendur kynnu þá miður við að halda húsinu frá réttri notkun heldur en áður. Það mátti segja, þegar herinn kom, að við hefðum ekki brýna þörf fyrir húsið. Það var búið að vera í vanhirðu í átta ár, og skilyrði voru ekki fyrir hendi til að nota það til hinna upprunalegu þarfa. Nú hefur þetta breytzt, og finnst mér þá ætti að byrja á því að endurgreiða sjóðnum áminnzta fjárhæð. Ég legg svo til, að till. sé vísað til fjvn.