08.01.1943
Sameinað þing: 14. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 323 í D-deild Alþingistíðinda. (4126)

67. mál, bætur vegna fjárskaða

Eysteinn Jónsson:

Ég er nú ekki kunnugur þeim atburðum, sem þarna hafa gerzt vestra. En ég hef heyrt það, sem hv. flm. sagði, og sömuleiðis lesið það, sem í grg. þáltill. segir um þann atburð.

En ég vil benda á í sambandi við þetta mál, að fyrir nokkru síðan skeði það á Austurlandi, að snjóflóð féll úr fjalli og hafði með sér talsvert mikið af fénaði, enn fremur varð annað mikið tjón af því flóði. Ég hafði með höndum athuganir á því fyrir þá, sem þar áttu hlut að máli, hvort bætur kæmu til greina fyrir þetta tjón. En þær hafa, enn sem komið er, ekki komið til greina. Vil ég hafa samband við þá n., sem þetta mál fer til, til þess að bera saman, hvort hér muni ekki um hliðstæður vera að ræða að bæta það tjón, sem í þáltill. getur, og hitt, sem ég nú minntist á.