29.03.1943
Neðri deild: 85. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 351 í D-deild Alþingistíðinda. (4196)

165. mál, menntaskóli að Laugarvatni

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. — Hv. þm. V.-Sk. og flm. þeirrar þáltill., er hér liggur fyrir, var að tala um það, er mál þetta var síðast til umr., hvað skeð hefði áður fyrir tilstilli Framsfl. í sambandi við þetta mál. Af því, sem ráða mátti af tali hans, kom skýrt í ljós, að hann vildi, að þau afskipti Framsfl. gleymdust sem mest og yfir þeim yrði þagað. En þótt svo sé, tel ég ekki ástæðu vera frá minni hálfu að rekja þær syndir Framsfl., er hann vildi láta liggja í gleymskunnar dái, því að aðrir hv. þm. hafa hér í d. skýrt og skorinort dregið þær fram í dagsljósið.

En eins og ég gat um, er þetta mál var síðast á ferðinni, lét ég í ljós ánægju mína yfir því, að fram skyldi komin tillaga um að rannsaka skilyrði á því að stofna einn menntaskóla til viðbótar þeim, sem fyrir eru. En ég tel ekki neina ástæðu vera til þess að draga dul á það, sem í raun og veru felst í þáltill. þessari, sem sé, að hér er lagt til, að alger stefnubreyt. verði á afstöðu Framsfl. til menntamála eins og hún hefur verið til þessa.

Því er hægt að slá föstu, að með þessari till. er þess óskað, að fjölgað verði stúdentum hér í þessu landi, en þessari stefnu hafa framsóknarmenn ákveðið verið á móti. Og í öðru lagi, ef skóli yrði settur á stofn á Laugarvatni, þá sé, og hv. þm. viðurkenndi það, „principelt“ verið að brjóta þá reglu, sem sorglega oft hefur komið niður og það hart á fátækara fólkinu, að það hefur ekki haft efni á því að senda börn sín í menntaskóla.

Hv. flm. var þá mikið að tala um jafnréttisaðstöðu fyrir alla til þess að sækja menntaskóla. Það er líka alveg rétt og sjálfsagt, að þetta sjónarmið fái að ráða, en það er líka annað jafnrétti, sem ekki síður veltur mikið á, og það er, að jafnframt fái að ríkja fyllsta samræmi í jafnrétti, hvað skoðanir snertir til stjórnmála og annarra félagsmála, t.d., að nemanda sé ekki synjað um aðgang að skóla, hvort sem það er um menntaskóla eða aðra skóla að ræða, bara af því, að hann aðhyllist sósíalistíska skoðun, og að kennara, sem hefur að öllu leyti hæfileika og getu til að kenna þær námsgreinar, er hann hefur lagt stund á og sérmenntað sig í, að honum sé neitað um kennarastöðu eingöngu á þeim grundvelli, að hann sé sósíalisti. — Það, sem því þarf að gera um leið og tryggt er jafnrétti hvað snertir aðgang að skólunum, er, að einnig sé tryggt, að nemendur og kennarar fái óhindrað að njóta námshæfileika sinna og starfskrafta, þótt þeir aðhyllist sósíalistiskt skipulag og sósíalistiska skoðun.

Það skeði hér fyrir stuttu síðan, að maður með ágæta hæfileika og mikla til kennslu, sótti um kennarastöðu við Samvinnuskólann, en hann var ákveðinn sósíalisti. Honum var gefið það svar, að honum væri velkomin staðan, ef hann bara breytti um stjórnmálaskoðun sína. Ég veit ekki til, að form. Framsfl. eða fl. sjálfur hafi fordæmt þetta athæfi, en það er einmitt slíkt sem þetta, er þarf að fyrirbyggja, sá sem ekki vill leiðrétta þess háttar kúgun, hann getur ekki vænzt þess, að tal hans um jafnrétti sé tekið alvarlega. Þetta er það, sem mig langaði til að taka fram út af ræðu hv. flm. En að endingu vil ég minna á, um leið og ég legg til, að þáltill. þessari verði vísað til menntmn., að á sumarþinginu var fram borin till. um að flytja Menntaskólann í Rvík upp að Skálholti, og stóð rektor menntaskólans, Pálmi Hannesson, þáv. þm., að þeirri till. Sá liður till., sem fjallaði um þetta, var auðvitað felldur, en annað atriðið í till., sem ég vil leyfa mér, með leyfi hæstv. forseta að lesa upp, var samþykktur og hljóðaði svo:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstj. að láta undirbúa og leggja fyrir næsta reglulegt Alþingi till. um framtíðarhúsakost og hentugan stað fyrir Menntaskólann í Reykjavík.“ Þessi þál. var samþykkt á Alþingi 8. maí 1942.

Mér vitanlega hefur ekki verið gert neitt í að rannsaka það, sem þál. fer fram á, og vildi ég í því efni spyrja þá hv. þm., sem hér eru viðstaddir og áttu þá sæti í ríkisstj., og enn fremur núv. hæstv. ríkisstj., hvort sá grunur minn, að ekkert hafi enn verið aðhafzt til þess að framfylgja þessari till., eigi ekki við rök að styðjast. — Ef um vanrækslu hefur hér verið að ræða, þá verður nú þegar að grípa skjótt til, því að ef álitsgerð stj. á að koma fyrir reglulegt næsta þing, sem ákveðið hefur verið, að komi saman 15. apríl n.k., þá verður þegar að hefjast framkvæmda, og vænti ég þess, að n. athugi þetta og sjái um, að rannsókn verði hafin. Ég legg sérstaka áherzlu á þetta vegna þess, að eins og tillögun um inngöngu í Menntaskólann í Rvík er nú háttað, tel ég hana algerlega óverjandi og óþolandi, þar sem árlegar hindranir standa í vegi fyrir því, að svo að segja blóminn úr æsku þessa bæjar fær ekki inngöngu í skólann og er þannig gert ókleift að ganga þá menntabrautina, er gefur tækifæri til háskólanámsins.