27.01.1943
Sameinað þing: 15. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 183 í B-deild Alþingistíðinda. (457)

1. mál, fjárlög fyrir árið 1943

Forseti (GSv):

Áður en umr. hefst, skal ég leyfa mér að taka fram, að það er gömul venja, að almennar umr., svo nefndar eldhúsdagsumr., fari fram, þegar fjárlagafrv. kemur á dagskrá til framhalds 1. umr., enda er nú svo ráð fyrir gert í þingsköpum, 53. gr., er hefur að geyma ákvæði um útvarp þingræðna við þá umr. Þá hefur svo við borið oftar en einu sinni, að slíkar umr. hafa verið geymdar þar til á síðara stigi fjárlagameðferðar, enda hefur þá samþykki þingflokka komið til.

Nú hafa flokkarnir orðið ásáttir um, að eldhúsdagsumr. verði frestað að þessu sinni, en áskilja sér rétt til þess, að þær umr. fari fram síðar, á því stigi málsins, er um semst milli flokkanna, væntanlega að lokinni eða í lok 2. umr., og munu þá einnig koma til greina samningar um að breyta til um ræðutíma og umferðir frá því, sem ákveðið er í 53. gr. þingskapa.

Fordæmi er fyrir því, að yfirlýsing um samþykki þingflokka hefur verið látin nægja til slíkrar frávikningar frá fyrirmælum þingskapa, án þess að leita þyrfti formlegra afbrigða, og tel ég þetta samþ. án atkvgr., ef enginn mælir því í gegn. (Enginn þm. hreyfði andmælum gegn þessum frávikningum frá þingsköpum).

Þessar frávikningar teljast þannig samþykktar, eins og lýst hefur verið.