08.02.1943
Neðri deild: 52. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 511 í B-deild Alþingistíðinda. (728)

116. mál, húsaleiga

Félmrh. (Jóhann Sæmundsson):

Herra forseti. — Ég hafði satt að segja búizt við, að allshn. mundi flytja brtt. við þær brtt., sem hún hefur skilað, en ég sé, að svo er ekki.

Áður en lengra er gengið, vil ég enn á ný vekja athygli á því, að ég álit óheppilegt eins og n. hefur gengið frá 5. gr. frv., þar sem er heimildin um skömmtun húsnæðis. Þar segir svo í brtt. n., með leyfi hæstv. forseta:

“Bæjar- og sveitarstj. getur, þegar alveg sérstaklega stendur á, ákveðið að taka til ráðstöfunar handa húsvilltu fólki, tiltekna hluta af íbúðarhúsnæði, sem afnotahafi getur að mati húsaleigunefndar án verið og unnt er að skipta úr. Veita skal afnotahafa íbúðar minnst þriggja daga í rest, áður en fólki er ráðstafað í hluta af íbúð hans, til að ráðstafa því sjálfur til húsnæðislausra innanhéraðsmanna“.

Í fyrsta lagi álít ég þennan frest of stuttan, og þar að auki álít ég þetta óheppilegra fyrirkomulag en gert er ráð fyrir í frv. eins og það kom frá stj. Þar segir svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Þó getur afnotahafi ráðstafað þessum hluta húsnæðisins til handa þeim innanhéraðsmanni, er hann kýs, og hefur húsaleigun. (fasteignamatsn.) þá sams konar ráðstöfunarrétt á því húsnæði, sem þannig losnar.“

Eins og hv. þd. man, þá sagði hv. frsm. í umr. á laugardaginn, að það hefði fallið niður af vangá hjá n. að fella þetta inn í till. hennar, en ég tel, að það megi alls ekki vanta, því að það er langtum vænlegra til heppilegrar lausnar, að húseigandi, sem á að taka húsnæðið frá, fái að ráðstafa því til kunningja sinna eða skyldmenna eða kjósa sér sjálfur fólk í það, heldur en eins og lagt er til í brtt., að þurfi að úthluta því innan þriggja daga til húsnæðislausra innanhéraðsmanna. Ég held, að hægt væri að framkvæma þetta með meiri vinsemd, ef því væri hagað eins og sagt er í frv. stj.

Þá er það viðvíkjandi brtt., sem n. hefur lagt til við 3, gr. Þar ætlast n. til, að inn í l. málsgr. komi, að leigusala sé heimilt að leigja alþm. og nemendum í föstum skólum. Ég vil leggja til, að þetta ákvæði komi inn í 2. málsgr., sem mundi þá hljóða þannig:

„Þegar alveg sérstaklega stendur á, getur húsaleigun. veitt undanþágu frá upphafsákvæði þessarar gr. um tiltekinn eða ótiltekinn tíma, svo sem alþm. og nemendum í föstum skólum.“ Eins og ég benti á í d. á laugardaginn, þá væri nokkur hætta á, ef þessi viðbót væri sett í 1. málsgr., að hægt væri að leigja húsnæði alþm. eða nemendum, án þess að húsaleigun. þyrfti að veita til þess leyfi, og þá er ekki loku fyrir það skotið, að þeir, sem fengju húsnæði þannig, gætu haldið því árið um kring, þó að þeir þyrftu ekki að nota það nema lítinn hluta af árinu. Ég held því, að heppilegt sé að fella þetta inn í 2. málsgr., en ekki þá 1., og mun ég leggja fram skrifl. brtt. um þetta atriði.

Hv. 2. þm. Eyf. og hv. þm. Snæf. hafa flutt brtt. um að bæta aftan við 2. gr. “enda sé húseiganda áður veittur þriggja daga frestur til þess að leigja húsnæðið innanhéraðsfólki til íbúðar,“ en í þessari gr. segir, ef íbúðarhúsnæði er tekið til annarrar notkunar en íbúðar, sé húsaleigun. rétt að skylda húseiganda að viðlögðum allt að 200 kr. dagsektum í ríkissjóð að taka upp fyrri notkun húsnæðisins, og hafi húsaleigun. heimild til að ráðstafa húsnæðinu samkvæmt reglum þeim, er segir í 5. gr. Aftan við þetta leggja hv. þm. til, að sé bætt við, að húseiganda sé veittur þriggja daga frestur til að leigja húsnæðið innanhéraðsfólki til íbúðar. hetta er ekki fullnægjandi. Ef þessi till. yrði samþ., yrði að standa þar „ húsvilltu innanhéraðsfólki“, því að annars gæti húseigandi, þegar húsaleigunefnd kæmi og segði honum, að hann yrði að leigja húsnæðið til íbúðar, flutt þangað einhver húsgögn og leigt húsnæðið rétt til málamynda, án þess að nokkur byggi þar raunverulega, og mundi það þá á engan hátt bæta úr húsnæðisskortinum. Ég legg því til, að þessi brtt. verði felld og gr. samþ. óbreytt eins og hún er í frv. stj.

Þá er síðari brtt. þessara hv. þm., þar sem þeir leggja til, að fellt verði úr 6. gr. bann við að hækka húsaleigu vegna skattahækkunar af fasteignum. Eins og ég gat um í framsöguræðu minni, munar þetta ekki ákaflega miklu fyrir húseigendur, en líka má segja, að það muni ekki miklu fyrir leigjendur. Hér í bæ munu vera um 4000 fasteignir, og skrifstofa Rvíkurbæjar áætlar, að fasteignagjöldin muni hækka um 400 þús. kr., eða um 100 kr. af hverri fasteign, og mundi þá hækkun húsaleigunnar af þeim sökum ekki muna miklu fyrir húseigendur eða leigjendur. En ef öll húsaleiga í bænum ætti að hækka þannig, þyrfti að endurmeta alla húsaleigu, og væri það mikið verk fyrir húsaleigun. nema þá að hægt væri að gera það með einföldum útreikningi af Hagstofu Íslands, og skal ég ekki segja um nema það væri mögulegt, en það skiptir ekki ýkja miklu máli fyrir húseigendur, þó að þeir verði að bera það.

Þegar skattstj., skattn. og niðurjöfnunarn. leggja á skatta og útsvör, þá er þess gætt eins og kunnugt er að reikna húseiganda leigu í eigin húsnæði eins og leiguhúsnæði væri. Ef húsaleigan í leiguhúsnæði stendur í stað, þó að fasteignagjöldin hækki, þá er ljóst, að ekki er hægt að fylgja þeirri venju, sem fylgt hefur verið, að reikna eiganda húsnæðið með 80% af fasteignamatsverði, heldur yrði að reikna það eftir lægri prósenttölu, þegar matið hækkaði, því að annars væri húseiganda gert að greiða hærri leigu en sambærileg væri við þá húsaleigu, sem leigjendur greiddu. Ég held því, að húseigendur þyrftu ekki að óttast í þessu efni. Ef hin aðferðin er höfð, að bæta við leiguna vegna hækkaðs fasteignaskatts, þá mundu peningatekjur húseiganda hækka og verða skattlagðar til ríkis og bæjar með stighækkandi skatti. Húsaleigan mundi hækka og dýrtíð aukast, þó að varla sé hægt að gera ráð fyrir, að það munaði miklu. Ég hef fengið gefið upp frá skattstofunni, að leigutekjur hér í bæ munu vera um 0,7 millj. kr. Ef gert er ráð fyrir, að öll húsaleiga vegna hækkaðs fasteignagjalds lenti á þessum íbúðum, þ.e.a.s. ef gert er ráð fyrir, að ekkert af hækkuninni lenti á óbyggðum lóðum, mundi þessi hækkun nema 3,5–4% af þeim tekjum, sem fasteignir hafa skilað í leigutekjur. Þetta þýðir það, að l000 kr. húsaleiga mundi hækka upp í 1035–1040 kr., og það er ekki mikil hækkun. Það mundi verða 3/4 eða 1 stig í vísitölu.

Það má raunar segja, að það sé ranglátt gagnvart húseigendum að leyfa þeim ekki að hækka leiguna sem svarar skattahækkunum af fasteignum, en benda má á það, að þessum mönnum er ekki gerður meiri óréttur en þeim, sem eiga fé í bönkum, því að þeir fá litla eða enga vexti af því, sem þeir eiga um fram 25 þús. kr. Þetta kemur að vísu í sama stað niður og vaxtalækkun, en hér er þó ekki lengra farið en svo, að þessir menn verða sízt harðar úti en þeir, sem eiga fé í bönkum. Að minnsta kosti bendir hin öra sala fasteigna á það, að menn vilji heldur eiga fé sitt bundið í þeim en laust. Keppnin eftir húsum bendir til þess, að þrátt fyrir allt sé því fé talið vel varið, sem fer til húsakaupa.